Undirritun Kyoto-bókunarinnar

Fimmtudaginn 08. október 1998, kl. 11:48:08 (208)

1998-10-08 11:48:08# 123. lþ. 6.3 fundur 41. mál: #A undirritun Kyoto-bókunarinnar# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 123. lþ.

[11:48]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig að hv. þm. hefur fundið út að ég er í sama flokki og hæstv. forsrh. og að við höfum svipaðar skoðanir í þessu máli eins og í mörgum öðrum. Þess vegna erum við saman í flokki.

En varðandi það að hagfræðin sé ekki vísindagrein þá vil ég nú bara halda því fram að hagfræðin sé ekki síður vísindagrein, og það er ég viss um að 1. flm. tekur undir, en veðurfræði og hún er meira að segja eldri að einhverju leyti. Það eina sem ég er að fara fram á er að menn stundi rannsóknir og vísindalega hugsun í þessu máli og reyni að skjóta vísindalegum stoðum undir þessa kenningu en ekki bara einhverjum vísbendingum. Það er það sem ég er að fara fram á. Og ég tel það mjög mikilvægt vegna þess að þessi kenning og þessi bókun og öll þessi umræða veldur geysilegu tjóni. Það má ekki gera þessa hluti og ekki gera hina hlutina vegna þess að það veldur koltvíoxíðmengun.

Ef það kemur svo í ljós að koltvíoxíðmengun er ekki ástæðan heldur t.d. bara vatnsinnihald andrúmsloftsins eða sólgos, hvað þá? Þá erum við búin að valda geysimiklu tjóni sem hefur áhrif í áratugi. Og mannkynið hefur það ekki svo gott, hv. þm., svona að meðaltali. Það veitir ekki af að auka hagsæld mannkynsins. (HG: Það er ekki það sem er í gangi.) Vissulega er það það. Allar takmarkanir á slíku og sérhver skerðing á framförum er til tjóns fyrir mannkynið.