Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 12. október 1998, kl. 17:29:33 (311)

1998-10-12 17:29:33# 123. lþ. 7.9 fundur 14. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 123. lþ.

[17:29]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég á ekkert erfitt með að kyngja neinu. Ráðherrann er fullkomlega á villigötum þegar hann heldur því fram. En ég vil vera í nútíðinni og ég var að leggja áherslu á það. Ráðherrann sagði eðlilegt að málin væru í höndum framkvæmdaaðilans. Ég sagði að mér þætti það óeðlilegt að í okkar lögum væri staðið þannig að málum að framkvæmdaaðilinn sæi um jafnmikið hagsmunamál og umhverfismatið er fyrir hagsmunaaðila. Þetta eru skoðanir. Mér finnst það óeðlilegt og ég sagði að ef það er svo þá ættum við að sameinast um að breyta lögum, a.m.k. ef við erum sammála um að þau eigi að vera öðruvísi. Og ég gerði meira. Ég var að fara yfir sjónarmið sem komu fram hjá umhverfisstjóra hagsmunaaðilans sem er að koma frá útlöndum þar sem menn eru komnir lengra og hafa farið að horfa á náttúru sína með öðrum augum. Ég get svo sem nefnt líka annað Norðurlandanna, Noreg. Það er ekki lengra síðan en í gærkvöld að væntanlega hálf þjóðin sat og fylgdist með umfjöllun um þessi mál í sjónvarpi. Þar var líka farið yfir það hvernig menn vildu taka ákvarðanir í viðkvæmum málum þar. Þetta andsvar ráðherrans á því engan veginn við mína ræðu. Ég geri mér alveg grein fyrir því eins og hann bregst við þessari tillögu að við tvö erum að tala í kross og það skiptir mig engu.