Sjávarútvegsnám

Mánudaginn 16. nóvember 1998, kl. 15:14:44 (1091)

1998-11-16 15:14:44# 123. lþ. 24.1 fundur 104#B sjávarútvegsnám# (óundirbúin fsp.), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 123. lþ.

[15:14]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Í Útveginum, fréttabréfi LÍÚ, frá því í október er viðtal við hæstv. forsrh. þar sem hann víkur m.a. að menntunarmálum sjávarútvegsins. Þar segir hann hugmyndir um frekari uppbyggingu á þessu sviði á Akureyri koma vel til greina, hrósar árangri Háskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans fyrir árangur í kennslu á sviði sjávarútvegsins og tengir þann árangur, sem orðið hefur af náminu fyrir norðan, beint við byggðamálin, enda gengi það að beina allri þessari starfsemi hingað suður þvert á allar þær hugmyndir sem menn hafa haft um byggðamálin almennt. Hann telur að Akureyri hljóti að eiga mikla möguleika núna varðandi frekari kennslu í sjávarútvegsfræðum þegar verið er að endurmeta þetta nám í framhaldi af breyttum lögum um framhaldsskóla.

En hver eru viðhorf hæstv. menntmrh.? Er hann sammála hæstv. forsrh. um eflingu sjávarútvegsnámsins við Verkmenntaskólann á Akureyri? Væri ákvörðun um að áfram yrði boðið upp á skipstjórnarnám á Norðurlandi ekki liður í slíkri eflingu? Þetta eru spurningar mínar því að það hefur legið í loftinu að allt fagnám á skipstjórnarsviði yrði flutt til Reykjavíkur þegar menn verða aftur teknir inn í slíkt nám. Allt óöryggi í þessum efnum grefur undan. Það væri því farsælt fyrir uppbyggingu sjávarútvegsnámsins úti á landi og í leiðinni góð byggðastefna ef ráðherrann treysti sér til að lýsa því yfir að hann hygðist beina skipstjórnarnáminu áfram í þá skóla þar sem það hefur verið og verið með jafnmiklum ágætum og hæstv. forsrh. greinir frá í áðurnefndu viðtali.