Skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997

Þriðjudaginn 17. nóvember 1998, kl. 16:18:57 (1185)

1998-11-17 16:18:57# 123. lþ. 25.12 fundur 106#B skýrsla forsætisráðherra um Byggðastofnun 1997# (munnl. skýrsla), 230. mál: #A stefna í byggðamálum fyrir árin 1998-2001# þál., EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 123. lþ.

[16:18]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Fjarri er það mér að segja að þetta kerfi hafi bjargað einhverju. Þetta kerfi hefur hins vegar skapað viðspyrnu. Það er augljóst að þetta kerfi hefur fært þeim sjávarútvegsbyggðum sem búa næst þorskmiðunum, eins og t.d. á Vestfjörðum, nýja viðspyrnu. Þetta kerfi er að því leyti nokkuð sérstakt að það er eins konar blanda sem felur í sér sóknartengdan hvata, gefur vissa möguleika þeim byggðum sem næstar eru fiskimiðunum. Sá vandi sem m.a. við hefur verið að glíma í núverandi fiskveiðikvótakerfi er að þær byggðir sem þannig er háttað til um að hafa ekki fengið að njóta staðarkosta sinna. Byggðir eins og til að mynda Vestfirðir sem hafa oft staðið frammi fyrir því að vegna ákvarðana sem íbúarnir hafa ekkert haft með að gera hafa menn allt í einu staðið uppi án þess að hafa heimildir til þess að sækja sjóinn og reyna að bjarga sér með þeim ráðum sem hafa dugað þessu fólki í gegnum aldirnar. Kerfið sem hér er um að ræða hefur hins vegar á vissan hátt skapað nýja viðspyrnu og skilað heilmiklu lífi í ýmis pláss. Hugmynd mín hefur gengið út á það að ákvörðun yrði tekin um það að smám saman yrði fleiri bátum heimilað að vinna eftir þessu kerfi sem hefur skilað þessum bátaflota í heild ágætri afkomu almennt talað. Það er augljóst að það hefur ekki hentað öllum byggðum jafn vel enda mun aldrei neitt fiskveiðistjórnarkerfi gera það. En þetta kerfi hefur hins vegar markast af því að það hefur búið til ákveðna möguleika fyrir þær byggðir sem liggja næst fengsælum fiskimiðum.