Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 16:34:29 (1448)

1998-11-30 16:34:29# 123. lþ. 29.3 fundur 278. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[16:34]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég dreg ekki í efa og reyndar vænti þess að hv. efh.- og viðskn. muni fara vel yfir þennan þátt því auðvitað skiptir hann heilmiklu máli. En ég vildi gjarnan bæta við það sem ég sagði áðan um þessi áhrif, að til að mynda þegar um er að ræða samsköttun móður- og dótturfélaga þá er ekki víst þó að menn geti hagnýtt sér þessa möguleika að þar verði neitt raunverulegt tekjutap því menn hafa þá áður hagað sinni skipan öðruvísi. Þá hafa menn af skattalegum ástæðum neyðst til að reka starfsemi í einu félagi sem þeir af öðrum ástæðum vildu frekar reka í tvennu lagi eða þrennu lagi. Núna munu menn geta rekið sem samsteypu í mismunandi félögum það sem þeir vilja gera með þeim hætti en notið ávinnings af því skattalega séð að um sé að ræða sömu áhrif og ef þetta væri í einu félagi. Þannig munu menn kannski ekkert endilega njóta sérstaks skattalegs ávinnings af þessu vegna þessa, þar sem þeir hafa skipað sínum málum öðruvísi í dag, en njóti þá annars ávinnings af því að hafa félögin sín í því formi sem þeir telja sjálfir henta best án tillits til skattalaganna.