Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 30. nóvember 1998, kl. 16:48:07 (1450)

1998-11-30 16:48:07# 123. lþ. 29.3 fundur 278. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 123. lþ.

[16:48]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að gera miklar athugasemdir við síðustu ræðu. Ég vil bara nefna eitt atriði af þeim sem hv. þm. nefndi, ekki vegna þess að ég sé sammála öllu hinu, heldur vegna þess að þar er um að ræða atriði sem ég vil taka undir. Það varðar samsköttunina og hugsanlega hagnýtingu á gömlu tapi og þess háttar. Ég deili áhyggjum þingmannsins af því atriði.

Hins vegar tel ég séð fyrir því í þessu frv. að þeir möguleikar sem eru hugsaðir til hagsbóta fyrir fyrirtækin í landinu verði ekki misnotaðir. Hugmyndin með þessu er sú að skattalögin komi ekki í veg fyrir að menn geti rekið starfsemi sína í mörgum félögum ef þeir telja það henta sér af öðrum ástæðum. Við vitum um ýmis dæmi um þess háttar í þjóðfélaginu og þess vegna er þetta lagt til og þetta tíðkast í mörgum löndum eins og kunnugt er.

Sú hætta kynni að vera fyrir hendi að menn væru að reyna að komast yfir félög vegna þess að þar lægi gamalt tap o.s.frv. en reynt er að sjá við því í frv. eins og útskýrt er á bls. 8 og 9. Það er t.d. lagt til að samsköttun verði ekki heimiluð að nýju eftir að búið er að slíta henni einu sinni og að menn verði að uppfylla ákveðin skilyrði til þess að geta hagnýtt sér þá möguleika sem hér felast og allt er þetta nánar útskýrt í greinargerðinni á þessari síðu. Hins vegar tel ég fullkomlega réttmætt af hálfu þingmannsins að vekja athygli á þessu og ágætt að nota tækifærið og benda mönnum á að fyrir þessu hefur verið hugsað og það er mikilvægt að framkvæmdin í því efni takist vel.