Tilkynningarskylda íslenskra skipa

Fimmtudaginn 03. desember 1998, kl. 10:49:01 (1538)

1998-12-03 10:49:01# 123. lþ. 32.1 fundur 260. mál: #A tilkynningarskylda íslenskra skipa# frv., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 123. lþ.

[10:49]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki almennilega hvort það geti verið að ég tali ekki nógu skýrt eða hvort það sé meiningin að ekki megi ræða þetta mál málefnalega. Ég hef ekki sagt að neinar annarlegar hvatir liggi að baki frv. Ég skil ekki hvers lags útúrsnúningur þetta er og, við getum sagt, önugheit út í það að menn ræði frv. sem ég sagði í ræðu minni að væri til þess fallið að auka öryggi sjómanna, ekki til að draga úr því. Mér finnst því alveg út í bláinn að gera tortryggilegt það sem komið hefur fram hér.

Ég er einungis að vara við því að strandstöðvar geta horfið og störf þar verði ekki við lýði eftir þessi þrjú ár. Ég held þvert á móti að það verði að reka áfram strandstöðvar með einhverju sniði þannig að öryggi sjófarenda minnki ekki. Ef þessi sjálfvirki búnaður á að koma í staðinn fyrir handvirkan búnað eins og hann er í dag, og það getur nefnilega gerst, þá er ég ekkert viss um að við séum að ganga í þá átt að auka öryggi sjómanna.