Fjáraukalög 1998

Föstudaginn 04. desember 1998, kl. 11:49:11 (1622)

1998-12-04 11:49:11# 123. lþ. 33.12 fundur 173. mál: #A fjáraukalög 1998# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 123. lþ.

[11:49]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil aðeins blanda mér í þessar umræður um virðisaukaskatt. Ræðumaður, hv. þm. Gísli Einarsson, bar fram fsp. til mín út af svari mínu við fsp. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um virðisaukaskattskerfið. Í svarinu kemur fram að nú er ætlunin að gera allsherjarúttekt á virðisaukaskattskerfinu á næstunni með tilliti til fjölda þátta sem þarf að skoða í ljósi þeirrar átta ára reynslu sem fengin er af þessu skattkerfi.

Hins vegar er það einhver furðulegur misskilningur að draga ályktanir af því hvert hlutfall skattsins af innflutningi annars vegar og innlendri sölu hins vegar er. Það fer eftir svo mörgum öðrum þáttum og hefur ekkert nauðsynlega að gera með skattskilin í sjálfu sér. Virðisaukaskattur af innflutningi er innskattur innan lands og dregst frá. Ef innflutningur vex þá eykst innskatturinn og skattskilin af innlendri framleiðslu minnka hlutfallslega. Þetta er nú augljóst og ekki er hægt að draga neinar meiri háttar ályktanir af þessu atriði eins og er reyndar skýrt út í svari mínu við fyrirspurninni.

En það sem þingmaðurinn spurði um var: Hvað stendur til að gera? Það hefur komið fram af minni hálfu í þessu svari að ætlunin er að gera myndarlega úttekt á þessu kerfi. Þetta kerfi hefur mikla kosti, það hefur líka ákveðna galla og alls kyns hugmyndir eru uppi um endurbætur og þess háttar og það er það sem við erum að fara í gegnum.

Að því er varðar áætlun um virðisaukaskatt á þessu ári gerir Ríkisendurskoðun grein fyrir þeirri skoðun sinni að hann sé hugsanlega ofáætlaður í ár. Þeir eru með mat á því, við erum með annað mat í fjmrn., við erum ekki sammála. Við teljum ekki að neinar forsendur séu fyrir því að draga í efa tekjuspá ráðuneytisins og Þjóðhagsstofnunar fyrir þetta ár. Þetta getum við ekki fullyrt um að svo stöddu.

Það vill þannig til að 5. des. er virðisaukaskattsgreiðsludagur og eftir helgina kemur í ljós hvað menn eru að tala hér um.