Tryggingagjald

Fimmtudaginn 10. desember 1998, kl. 15:04:50 (1975)

1998-12-10 15:04:50# 123. lþ. 37.3 fundur 228. mál: #A tryggingagjald# (lífeyrissparnaður launamanns) frv. 148/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 123. lþ.

[15:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Allir hv. ræðumenn hafa verið sammála um nauðsyn þess að efla sparnað, sérstaklega í ljósi mikils halla á viðskiptajöfnuði landsins. Ég hef haft af því verulegar áhyggjur og tek því undir þann þátt málsins.

Sá styrkur sem hér á að veita er hins vegar styrkur til þeirra sem borga skatta, ekki til hinna sem ekki borga skatta. Ég vil nefna það að þriðjungur allra framteljenda borgar ekki skatt. Þeir munu að sjálfsögðu ekki nýta sér lífeyrisfrádráttinn af því þeir hafa ekkert upp úr því. Þeir munu þar af leiðandi ekki fá þennan styrk frá ríkinu. Hér er því enn verið að styrkja sérstaklega þá sem greiða skatta. Ég get af félagslegum ástæðum ekki fallist á að það sé gert í svo miklum mæli.

Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort til greina komi að í staðinn fyrir þessa hugmynd selji ríkissjóður spariskírteini með afslætti. Þannig að hver Íslendingur t.d., hver kennitala mætti kaupa spariskírteini fyrir 50 þús. kr. á næsta ári og fengi til þess 5 þús. kr. styrk frá ríkinu, 10% og þetta yrði e.t.v. bundið í fimm ár. Þetta hefði sennilega miklu meiri áhrif til þjóðhagslegs sparnaðar og mundi leiða til þess að það fólk sem ekki borgar skatta fengi styrk til að spara.