Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 11:26:50 (2567)

1998-12-18 11:26:50# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[11:26]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ja, nú kastaði þó loks tólfunum hjá hæstv. sjútvrh. Hann segir að þetta frv. sé flutt til að verja hagsmuni trillukarla. Með hverju? Með því að ákveða að þeir sem kannski hafa veitt upp undir 130 tonn á báta sína undanfarin ár eigi að lifa af 9 tonnum á næsta fiskveiðiári? Þeir eiga að lifa af 9 tonna afla á næsta fiskveiðiári. Það er lausnin. Þannig á að vernda fjölskyldurnar. Þannig á að verja þessa sjómenn.

Ég spyr hæstv. sjútvrh.: Telur hann að með þessari ákvörðun sé hann að bjarga þessum fjölskyldum? Telur hann að þeim verði bjargað með því ákveða að þeim sem hefur aflað 70--130 tonn á bátinn sinn undanfarin ár, séu náðarsamlega skömmtuð 9 tonn fyrir sig og fjölskyldu sína? Hann getur kannski farið þrisvar sinnum á sjóinn. Er það að vernda hagsmuni þessara fjölskyldna? Er það að forða þeim frá gjaldþroti og uppnámi? Er hæstv. sjútvrh. virkilega þeirrar skoðunar að þetta sé leiðin til að verja þetta fólk?

Ég lýsti því í ræðu minni áðan hverju þurfi að breyta. Það þarf að breyta framkvæmd aflamarkskerfisins. (Gripið fram í: Hvað viltu gera?) Ekki breyta því eins og hæstv. sjútvrh. er að gera, annars vegar að setja eigendur sóknarmarksbáta á hausinn og hins vegar að stefna öllum öðrum fyrir rétt. (Gripið fram í.) Það er ósatt og ég spyr: Hvenær lýsti ég því yfir og hvar vestur á fjörðum að það ætti að taka allar aflaheimildir af trillukörlum og bjóða þær upp? Hvenær og hvar, hæstv. sjútvrh.?