Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 15:17:29 (2598)

1998-12-18 15:17:29# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[15:17]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Talsmenn jafnaðarmanna hafa barið sér á brjóst í umræðu um sjávarútvegsmál um alllangan tíma og sagst hafa skýra stefnu í þeim efnum. Nú koma þeir upp í umræðunni í dag og fara á handahlaupum þegar spurt hvað þeir vilji gera. Þegar gefnir eru upp valkostir, einir fjórir, þá er svarið: Við viljum að allir þessir kostir séu skoðaðir.

Með öðrum orðum liggur fyrir að það er engin stefna, það eru engar tillögur. Það er bara gagnrýni en anað algjörlega stefnulaust áfram. Gagnrýnin er auðvitað ekki spöruð, stóru orðin eru ekki spöruð. En að leggja eitthvað málefnalegt fram, einhverjar hugmyndir um það hvernig á að taka á málum, þá er sagt: Nei, við viljum gjarnan skoða það og við teljum að allar leiðir sem nefndar hafa verið komi til greina.

Þetta er hin skýra stefna og hin ákveðnu sjónarmið sem talsmenn jafnaðarmanna hafa verið að boða og það er rétt að það liggi alveg ljóst fyrir í hverju það er fólgið.