Stjórn fiskveiða

Föstudaginn 18. desember 1998, kl. 20:50:21 (2647)

1998-12-18 20:50:21# 123. lþ. 45.3 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, 344. mál: #A veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands# (grásleppuveiðar) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 45. fundur, 123. lþ.

[20:50]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Flokksbróðir hv. þm. Péturs H. Blöndals talaði hér áðan og hafði af því nokkrar áhyggjur ef sjávarútvegurinn þyrfti að borga 2--3 milljarða, hvað þá meira, að þá yrði nú erfitt fyrir dyrum, einkum hjá smáfuglunum. Af því að ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal er ágætur stærðfræðingur þá geri ég ráð fyrir að hann sé búinn að reikna út hversu mikið tillaga hans mundi kosta útveginn á hverju ári, þ.e. eftir að búið væri að dreifa veiðiheimildunum á þjóðina og tillaga hans gengi eftir, þessi um fimm prósentin, hversu mikið þyrfti þá útvegurinn að borga til að ná til baka þessum fimm prósentum fyrsta árið? Og svo nægir mér alveg að fá þá 20 árin í restina, en ef þingmaðurinn er með tölur sem eru þarna einhvers staðar á millibilinu, frá fyrsta ári og upp í tuttugu, þá væri gaman að fá þær líka.