Ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði

Laugardaginn 19. desember 1998, kl. 20:57:14 (2811)

1998-12-19 20:57:14# 123. lþ. 47.14 fundur 336. mál: #A ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði# (réttur til styrkja) frv. 143/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 47. fundur, 123. lþ.

[20:57]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í tengslum við þetta mál kom það til meðferðar í hv. menntmn hvort jafnframt ætti að afgreiða frv. til laga sem flutt var af þingmönnunum Lúðvíki Bergvinssyni og Svanfríði Jónasdóttur um hliðstætt mál. Í nefndinni var rætt um að í nál. kæmi fram eftirfarandi aukasetning: ,,Auk þess lítur nefndin þannig á að þessi afgreiðsla feli í sér afgreiðslu á máli þingmannanna tveggja.``

Við búum við þann ótrúlega rausnarskap af hálfu meiri hlutans hér í þessari stofnun að því var neitað að láta þess getið að hv. þm. Svanfríður Jóansdóttir og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefðu flutt þetta frv. Það má ekki segja frá því í nál. Ég varð ekki var við að hv. þm. hafi nefnt það í framsöguræðu sinni og taldi því óhjákvæmilegt að koma hingað upp til að láta það koma fram að við ræddum þetta mál. Minni hluti nefndarinnar taldi að í stjórnarfrv. væri afgreiðsla á efnisatriðum úr þingmannamálinu, en við hefðum viljað nefna það jafnframt í nál. af því að þingmannamálið var flutt löngu fyrr.

Mér finnst þetta smásálarskapur, herra forseti, og vil láta það koma hér fram en ég ætla ekki að segja neitt frekar um það mál.

Í öðru lagi vil ég nefna að það að auka jöfnun á námskostnaði er gríðarlega mikilvægt atriði. Í nefnd sem ég hef átt sæti í sem heitir byggðanefnd þingflokkanna hefur verið rætt um að auka sérstaklega við þennan lið á fjárlögum. Við lögðum á það áherslu að svo yrði gert á fjárlögum ársins 1999. Því miður tókst okkur ekki að ná endanlegri niðurstöðu í þeim efnum í byggðanefndinni en við munum leggja áherslu á það nú strax eftir áramótin að sérstaklega verði tekið á þessum þætti málsins með auknum fjárveitingum til jöfnunar námskostnaðar. Þá væri hægt að taka tillit til þess þegar ákvarðanir verða teknar á næstu vikum eftir áramótin um útgreiðslu á fjármunum þessum.

Ég tel einkar mikilvægt að ná samstöðu um þetta atriði auk annarra atriða sem við erum að ræða í þessari byggðanefnd, eins og húshitunarkostnað o.fl. Ég hefði þó talið gott að fá það allt afgreitt núna en slíkt var því miður ekki unnt. Ég tel það engu að síður áfanga að ná þarna nokkurri viðbót. Hér er um að ræða mjög gamalt baráttumál sem við alþýðubandalagsmenn höfum mjög gjarnan borið fyrir brjósti á undanförnum árum. Ég hygg að þessi fjárlagaliður eigi rætur að rekja til okkar stjórnartíma fyrir allmörgum árum.

Ég tel að breytingin sem hér er um að ræða sé jákvæð en hins vegar gagnrýnivert að ekki skyldi vera hægt að geta um frv. þingmannanna tveggja. Ég nota tækifærið jafnframt til að undirstrika nauðsyn þess að á þessu máli verði tekið. Þetta er eitt stærsta byggðamálið og þarf að ganga mjög rösklega til verks í þessum efnum.