Ferill 4. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 4 — 4. mál.Frumvarp til lagaum réttarfarsdómstól.

Flm.: Svavar Gestsson.1. gr.

    Setja skal á stofn dómstól er nefnist réttarfarsdómstóll. Hann fjallar um kröfur um endur­upptöku opinberra mála.

2. gr.
Skipan dómstólsins.

    Í dómnum eiga sæti þrír menn. Ráðherra skipar dómara við dómstólinn til fimm ára í senn. Einn þeirra skal vera hæstaréttardómari, og er hann jafnframt forseti dómsins, en hinir tveir héraðsdómarar. Aðeins má skipa sama dómara til setu í dómnum tvisvar í röð.
    Útnefna skal varamenn fyrir dómarana með sama hætti og skal hver dómari hafa vara­mann sem tekur sæti hans í forföllum.


3. gr.


Endurupptaka dæmdra mála.


    Nú hefur óáfrýjaður héraðsdómur eða hæstaréttardómur gengið í opinberu máli og verður málið þá ekki tekið upp á ný nema til þess séu þau skilyrði sem hér segir:
     1.      Eftir kröfu dómfellds manns, sem telur sig sýknan sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, skal taka mál upp á ný:
       a.      ef fram eru komin ný gögn sem ætla má að hefðu skipt verulegu máli fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fyrir dómara áður en dómur gekk,
       b.      ef ætla má að dómari, ákærandi, rannsóknari eða aðrir hafi haft í frammi refsiverða hegðun í því skyni að fá fram þau málalok sem orðin eru, svo sem ef falsvitna hefur verið aflað, fölsuð skjöl látin koma fram, vitni eða aðrir hafi gefið vísvitandi rangar skýrslur og þetta hafi valdið rangri dómsúrlausn.
     2.      Ef einhver sá sem að lögum á að vinna að rannsókn eða meðferð opinberra mála fær vitneskju eða rökstuddan grun um atriði sem í 1. tölul. segir ber honum að veita dóm­fellda vitneskju um það.
     3.      Eftir kröfu ríkissaksóknara skal taka mál, þar sem ákærði hefur verið sýknaður eða dæmdur fyrir mun minna brot en hann var borinn, upp á ný:
       a.      ef ákærði hefur síðan dómur gekk játað að hafa framið það brot sem hann var borinn eða önnur gögn hafa komið fram sem benda ótvírætt til sektar hans,
       b.      ef ætla má að falsgögn eða refsiverð hegðun dómara, ákæranda, rannsóknara eða annarra í því skyni að fá fram ákveðin málalok hafi valdið dómsniðurstöðu að nokkru leyti eða öllu.
     4.      Ríkissaksóknara er rétt að óska eftir endurupptöku máls til hagsbóta fyrir dómfellda ef hann telur að svo standi á sem í 2. tölul. segir.4. gr.


    Dómstóllinn tekur ákvörðun um endurupptöku máls og skal beiðni um hana send réttin­um. Dómfelldur maður, sem vill beiðast endurupptöku, stílar beiðnina til dómstólsins, en sendir hana ríkissaksóknara.
     Nú er beiðandi sviptur frelsi og skal yfirmaður fangelsis þá taka við og bóka beiðni eftir ósk hans og koma henni á framfæri. Skylt er þá eftir ósk beiðanda að fá honum skipaðan réttargæslumann.
     Greina skal í beiðni þau atriði sem vefengd eru í dómi og þær ástæður sem til vefenging­ar eru taldar liggja. Skjöl, sem kunna að vera til styrktar beiðni, skulu fylgja henni eftir því sem unnt er.
     Ríkissaksóknari sendir beiðnina til dómstólsins ásamt skjölum málsins og tillögum sín­um, svo og umsögn dómara ef um héraðsdóm er að tefla.
    Dómstóllinn getur mælt fyrir um öflun nauðsynlegra gagna varðandi endurupptökubeiðni samkvæmt reglum 2. mgr. 156. gr. laga um meðferð opinberra mála.
    Nú leiðir rannsókn í ljós að beiðni um endurupptöku hafi gengið of skammt og skal þá veita beiðanda kost á að lagfæra hana í samræmi við það.


5. gr.


    Réttarfarsdómstóllinn tekur ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um endurupptöku eða ekki. Um meðferð máls og flutning fyrir dómstólnum fer eftir ákvæðum XVIII. kafla laga um meðferð opinberra mála.
    Ef orðið er við beiðni um endurupptöku máls sem dæmt var lokadómi í héraði gerir ríkis­saksóknari ráðstafanir til áfrýjunar málsins.
    Nú telur dómstóllinn rök ekki hníga til breytingar á dómi og vísar hann þá endurupp­tökubeiðni frá sér, en að öðrum kosti er málinu vísað til Hæstaréttar sem kveður upp efnis­dóm í málinu.
    Nú er mál endurupptekið samkvæmt beiðni dómfellds manns og má þá hlutur hans aldrei verða lakari en hann var eftir hinum upphaflega dómi.
    Nú er mál endurupptekið samkvæmt kröfu ríkissaksóknara og fer þá um málskostnað eftir 165. og 166. gr. laga um meðferð opinberra mála.
    Kostnaður af endurupptöku máls samkvæmt beiðni dómfellda greiðist úr ríkissjóði, nema dómfelldi hafi komið endurupptöku til leiðar með gögnum sem hann vissi vera ósönn. Skal hann þá dæmdur til greiðslu málskostnaðar.
    Beiðni eða ákvörðun um endurupptöku máls frestar ekki framkvæmd dóms nema réttar­farsdómstóllinn mæli svo fyrir um.
    Heimilt er að taka mál upp aftur mál þótt dómfelldi hafi að fullu þolað refsingu sam­kvæmt dómi í því máli.
    

6. gr.


    Dómar réttarfarsdómstólsins eru endanlegir og verður ekki áfrýjað.
                             

7. gr.


    Um þau atriði viðvíkjandi meðferð mála, sem ekki er kveðið á um í lögum þessum, skal hafa hliðsjón af lögum um meðferð opinberra mála svo sem við getur átt.

8. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi XXII. kafli laga um meðferð opin­berra mála, nr. 19/1991.
    Við gildistöku laganna verður eftirfarandi breyting á lögum um dómstóla:
    Á eftir orðinu „Félagsdómur“ í 3. gr. laganna kemur: Réttarfarsdómstóll.

Greinargerð.


    Þetta mál var flutt á síðasta þingi en komst þá ekki til afgreiðslu fyrr en svo seint að þess var ekki að vænta að það næði afgreiðslu. Frumvarpið fékk þá góðar undirtektir við fyrstu umræðu málsins. Hér er hreyft nýrri róttækri hugmynd og má ekki seinna vera að Alþingi taki ákvörðun sem bæti fyrir það réttarfarshneyksli sem margir telja að hafi átt sér stað í svokölluðu Guðmundar- og Geirfinnsmáli. Í fyrra fylgdi frumvarpinu svofelld greinargerð:
    Í frumvarpi þessu er lagt til að settur verði á stofn sérstakur dómstóll, réttarfarsdómstóll, sem hefur það hlutverk að fjalla um kröfur um endurupptöku opinberra mála. Þar með yrði Hæstiréttur losaður við þetta verkefni sem er í rauninni stjórnsýsluverkefni. Frumvarpið er lagt fram til kynningar með von um að nefnd afli umsagna um málið svo unnt verði að flytja það að teknu tilliti til athugasemda í haust. Málið er flutt að gefnu tilefni frá í fyrrasumar er Hæstiréttur hafnaði beiðni Sævars Ciesielskis um endurupptöku máls hans. Með þessu frumvarpi er ekki verið að gagnrýna niðurstöðu Hæstaréttar; tilgangur þessa frumvarps er að hreyfa nauðsyn þess að Hæstiréttur þurfi ekki að fella úrskurði í eigin málum eins og nú háttar til. Fyrirmynd að slíkum dómstól er fengin úr dönsku réttarfarslögunum, en samkvæmt þeim starfar sérstakur kvörtunardómstóll (d. Den Særlige Klageret).
    Fram að þessu hafa ekki verið ákvæði í íslenskum lögum um slíkan dómstól, en í lögum um meðferð opinberra mála er að finna reglur um endurupptöku dæmdra mála , nánar tiltekið í XXII. kafla laganna. Þar kemur fram meginreglan um að opinbert mál verður almennt ekki endurupptekið eftir að óáfrýjaður héraðsdómur eða hæstaréttardómur í því hefur gengið. Þó er slík endurupptaka möguleg í undantekningartilvikum og þá er það Hæstiréttur sem tekur ákvörðun un endurupptöku máls, kveður upp efnisdóm í málinu eða vísar því frá.
    Fyrirmynd að ákvæðum þessa frumvarps er að mestu sótt til danskra laga, en einnig er stuðst mjög við núgildandi ákvæði laga um meðferð opinberra mála um endurupptöku mála.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að settur verði á stofn sérstakur réttarfarsdómstóll. Gert er ráð fyrir að dómstóllinn hafi lögsögu um allt land.
    Hlutverk dómstólsins er tíundað í ákvæðinu og er um að ræða dómstól sem fjallar um kröfur vegna endurupptöku sakamála.

Um 2. gr.


    Hér er kveðið á um skipun dómstólsins. Gert er ráð fyrir að í honum eigi sæti þrír menn sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Einn þeirra skal koma úr röðum hæstaréttardómara og vera forseti dómsins, en hinir tveir skulu vera starfandi héraðsdómarar. Þá er sett fram sú regla að aðeins megi skipa sama manninn til setu í dómnum tvisvar í röð þannig að hver dómari getur í mesta lagi átt sæti þar í tíu ár. Gert er ráð fyrir að varamaður sé útnefndur fyrir hvern dómara og taki sæti í forföllum hans.

Um 3. gr.


    Í 3., 4. og 5. gr. frumvarpsins er fjallað um endurupptöku dæmdra mála. Eru ákvæðin tekin nær óbreytt úr XXII. kafla laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, og vísast að mestu til skýringa við þau lög. Þannig er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála í þessu ákvæði, en samsvarandi reglur eru nú í 183., 184. og 185. gr. laga um meðferð opinberra mála.

Um 4. gr.


    Í greininni er að finna reglur um hvernig skal farið með beiðni um endurupptöku. Sambærilegar reglur er nú að finna í 186. og 187. gr. laga um meðferð opinberra mála. Hér er ein grundvallarbreyting þó lögð til, hún er sú að sérstakur réttarfarsdómstóll fjalli um og taki ákvörðun um endurupptöku máls í stað Hæstaréttar áður.

Um 5. gr.


    Í þessu ákvæði er fjallað um meðferð máls fyrir dómstól vegna kröfu um endurupptöku dæmds máls. Sambærileg ákvæði er nú að finna í 188.–192. gr. laga um meðferð opinberra mála.
    Í ákvæðinu er mælt fyrir um að dómstóllinn taki ákvörðun um hvort orðið skuli við beiðni um endurupptöku máls eða ekki. Ef orðið er við beiðni um endurupptöku, og um er að ræða héraðsdóm sem ekki var áfrýjað, ber ríkissaksóknara að gera viðeigandi ráðstafanir til áfrýjunar málsins. Ef hins vegar er um hæstaréttardóm að ræða vísar réttarfarsdómstóll málinu til Hæstaréttar sem ber að kveða upp efnisdóm í málinu.
    Önnur ákvæði eru óbreytt frá því sem nú segir í lögum um meðferð opinberra mála.

Um 6. gr.


    Í 6. gr. er sett fram sú grundvallarregla að dómar réttarfarsdómstólsins eru endanlegir og verður ekki áfrýjað.

Um 7. gr.


    Þar sem frumvarp þetta inniheldur ekki tæmandi reglur um málsmeðferð er í ákvæðinu vísað til málsmeðferðarreglna í lögum um meðferð opinberra mála þar sem þær eiga við.

Um 8. gr.


    Um leið og frumvarp þetta verður að lögum er lagt til að XXII. kafli laga um meðferð opinberra mála falli úr gildi, en sambærileg ákvæði er að finna í frumvarpi þessu. Þá er lagt til að réttarfarsdómstólnum verði bætt inn í upptalningu sérdómstóla í 3. gr. nýsamþykktra laga um dómstóla.