Ferill 8. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 8 — 8. mál.Tillaga til þingsályktunarum úttekt á útlánatöpum Landsbankans og Búnaðarbankans.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.    Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að láta fara fram úttekt á útlánatöpum Lands­bankans og Búnaðarbankans á árunum 1993–97 að báðum meðtöldum. Skal hún framkvæmd af hlutlausum fagaðilum eins og endurskoðunarskrifstofum, innlendum eða erlendum. Úttekt­in skal sérstaklega beinast að því að finna og skýra ástæður þessara útlánatapa. Jafnframt skal kannað hvort um óeðlilega fyrirgreiðslu eða hagsmunaárekstra hafi verið að ræða við veitingu þessara lána eða ófullnægjandi tryggingar.
    Niðurstaða úttektarinnar skal lögð fyrir Alþingi á haustþingi 1999.

Greinargerð.


    Á 121. löggjafarþingi lagði viðskiptaráðherra fyrir Alþingi svar við fyrirspurn um útlána­töp hjá Landsbanka og Búnaðarbanka á árunum 1993–97. Fram kom að útlánatöp hefðu numið tæpum 14 milljörðum kr. Útlánatöpin voru aðallega hjá lögaðilum. Hjá þeim voru afskrifaðir rúmir 12 milljarðar kr., en hjá einstaklingum um 1,5 milljarður kr. Á árunum 1990–92 að báðum árum meðtöldum voru útlánatöp þessara banka um 2,5 milljarður kr. Af þessu er ljóst að þótt atvinnulífið hafi rétt verulega úr kútnum sl. ár hafa því ekki fylgt minni útlánatöp, heldur hafa þau þvert á móti aukist verulega.
    Í svari viðskiptaráðherra kom fram að í Landsbankanum áttu einungis tíu aðilar á árunum 1993 og 1994 um helming af útlánatöpum áranna, eða 1.065 millj. kr. 1993 og 1.233 millj. kr. árið 1994. Einnig kom í ljós, einkum hjá Landsbankanum, að í allmörgum tilvikum var um að ræða lánveitingar til þessara tíu aðila án nokkurra trygginga.
    Í fyrirspurninni var beðið um upplýsingar um sundurliðun útlánatapa hjá hverjum þessara tíu einstaklinga sem mest var afskrifað hjá, auk sundurliðunar á ábyrgðum bak við hverja lánveitingu til þessara aðila. Því var hafnað af hálfu viðskiptaráðherra þótt ítrekað væri eftir því leitað.
    Ljóst er að Alþingi hefur ríka eftirlitsskyldu með framkvæmdarvaldinu. Því er nauðsyn­legt að fram fari úttekt óvilhallra aðila á þessum útlánatöpum þar sem skilgreindar verði ástæður þeirra og hvort um óeðlilega fyrirgreiðslu eða hagsmunaárekstra hafi verið að ræða. Einnig þarf að kanna sérstaklega hvort um hafi verið að ræða ófullnægjandi tryggingar fyrir lánveitingum og þá í hvaða tilvikum.
    Eigendur ríkisviðskiptabankanna, fólkið í landinu, á þá kröfu að leitað verði skýringa á útlánatöpum þessara banka, sem er nálægt því að vera sama fjárhæð og nettótekjuskattur einstaklinga á einu ári. Auk þess gæti slík úttekt gefið gleggri mynd að því sem betur mætti fara við endurskipulagningu bankakerfisins.