Ferill 11. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 11 — 11. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um úttekt á Schengen-aðild og innflutningi fíkniefna.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Kristín Ástgeirsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela dómsmálaráðherra að beita sér fyrir að gerð verði vönduð úttekt á líklegum áhrifum Schengen-aðildar á ólöglegan innflutning fíkniefna til landsins, í sam­vinnu við önnur ráðuneyti og samtök sem berjast gegn fíkniefnum. Alþingi verði gefin skýrsla um málið í ársbyrjun 1999.

Greinargerð.


    Með Schengen-aðild verður mönnum heimilt að fara yfir innri landamæri aðildarríkjanna án þess að þeir sæti nokkru eftirliti. Í samræmi við þetta verður allt vegabréfaeftirlit hér­lendis gagnvart ferðamönnum sem koma frá öðru Schengen-landi fellt niður og vita yfirvöld þar af leiðandi ekki hverjir þar eru á ferð. Í Evrópusambandinu heyrir tolleftirlit á landamær­um sögunni til. Þar eð Ísland er ekki frekar en Noregur í Evrópusambandinu helst hér heimild til tolleftirlits, það á meðal með farangri farþega, á meðan ekki er um annað samið sérstak­lega. Að þessu leyti hefðu Ísland og Noregur sem aðilar að Schengen sérstöðu. Hversu lengi hún helst og í hvaða formi heimildunum verður beitt er hins vegar óljóst. Líklegt er að um verði að ræða stöðugan þrýsting á Noreg og Ísland að sleppa eftirliti með farangri eins og gerist annars staðar á Schengen-svæðinu eða halda slíku eftirliti í lágmarki.
    Hvað sem verður um tolleftirlit af Íslands hálfu í framtíðinni er þegar ljóst að hér verður tolleftirliti ekki haldið uppi með sama hætti og áður, meðal annars leit að fíkniefnum, þegar tollyfirvöld hafa ekki lengur neinn stuðning af vegabréfaeftirliti með farþegum á leið til landsins; er það gagnkvæmt innan Schengen-svæðisins í heild. Þetta er í raun viðurkennt í samningnum sjálfum, en sérstaklega er fjallað um fíkniefni í 6. kafla hans (70.–76. gr.) og kveðið á um fastan vinnuhóp, m.a. með fulltrúum lögreglu og tollyfirvalda, til að rannsaka sameiginleg vandamál í baráttunni gegn fíkniefnabrotum og hugsanlega að gera tillögur um „að bæta praktísk og tæknileg viðhorf vegna samvinnu aðildarríkjanna á þessu sviði“.
    Til að vega upp á móti afnámi alls innra eftirlits með ferðum fólks innan svæðisins á að herða mjög eftirlit á ytri landamærum þess. Liður í því er stofnun Schengen-upplýsinga­kerfisins (Schengen Information System — SIS) með gagnaskrám í miðlægri móðurtölvu sem hafa að geyma staðlaðar upplýsingar um einstaklinga og hluti. Markmiðið með rekstri upplýsingakerfisins „er að veita upplýsingar í þeim tilgangi að viðhalda allsherjarreglu og öryggi, þar með talið öryggi ríkisins, og auðvelda framkvæmd samningsins um ferðalög á landsvæðum samningsaðila“. Þetta afar umdeilda kerfi á að auðvelda handtöku einstaklinga vegna kröfu um framsal, útlendinga sem óskað er eftir að neitað verði um aðgang að Schengen-svæðinu og um einstaklinga og ökutæki „í þeim tilgangi að hafa þá undir leynilegu eftirliti eða til að taka þá til sérstakrar athugunar“. Ekki verður séð að þetta kerfi sé sérstaklega sniðið til eftirlits með ólöglegum flutningi fíkniefna inn á svæðið né að það vegi upp á móti þeim möguleikum á eftirliti með fíkniefnasmygli sem tapast við afnám vegabréfa­skoðunar. Auk SIS-kerfisins er í Schengen sérstakt kerfi fyrir gagnkvæmar viðbótarupplýsingar milli lögreglu í aðildarríkjum Schengen um persónur og hluti sem skráð hafa verið í SIS-gagnabankann, skammstafað SIRENE (Supplément d'Information Requis a l'Entrée Nationale).
    Innan Schengen-svæðisins hafa þegar risið deilur vegna fíkniefnadreifingar og mismun­andi stefnu og eftirlits með sölu og dreifingu fíkniefna í einstökum aðildarríkjum. Þekktust er deila Frakka og Hollendinga, vegna frjálsræðisstefnu hinna síðarnefndu í fíkniefnamálum. Hafa Frakkar í skjóli neyðarréttar ítrekað frestað Schengen-sáttmálanum um að afnema vegabréfaeftirlit á landamærum sínum við Belgíu vegna hættu á smygli fíkniefna frá Hollandi og krafist jafnframt hertrar löggjafar af hálfu Hollendinga. Eftirlit með fíkniefnanotkun og dreifingu fíkniefna er víðar slakt innan svæðisins, meðal annars í Þýskalandi, og víða eru uppi allt önnur viðhorf til fíkniefna og baráttunnar gegn þeim en hérlendis og annars staðar á Norðurlöndum. Í Schengen-samningnum er hvergi minnst á að vinna beri gegn fíkniefnum til persónulegra nota, og í sex af aðildarríkjum Schengen hafa verið felldar niður refsingar gegn því að hafa undir höndum umtalsvert magn fíkniefna „til eigin nota“.
    Í Svíþjóð hefur sérstaklega verið gagnrýnt að innan Schengen sé ekki um að ræða þá sam­þættu stefnu gegn neyslu fíkniefna sem stunduð hafi verið þarlendis fram til þessa, þar á meðal gegn sölu á götum úti (gatumarknaden), heldur sé fyrst og fremst reynt að koma í veg fyrir stórsmygl með lögregluaðgerðum.
    Fram hefur komið að smygl á áfengi og fíkniefnum hafi aukist stórlega í Svíþjóð eftir að tolleftirlit var þar lagt af á landamærum. Verð á flestum fíkniefnum á svörtum markaði í Suður-Svíþjóð lækkaði um helming á fyrsta árinu eftir inngöngu í ESB. Álag hefur jafnframt vaxið vegna ólöglegs innflutnings á varningi frá Svíþjóð, að fíkniefnum meðtöldum, yfir til Noregs. Stór hluti af fíkniefnum sem smyglað er eða reynt er að smygla inn í Svíþjóð kemur frá Schengen-löndum. Það á meðal annars við um kannabisefni, amfetamín, „exstasy“ og heróín, hið síðasttalda oft unnið úr ópíum og morfíni á Ítalíu. Varnir á ytri landamærum Schengen-svæðisins koma ekki að gagni að því er varðar fíkniefni sem upptök sín eiga innan svæðisins.
    Sumir löggæslumenn í Noregi hafa ítrekað lýst áhyggjum sínum vegna fíkniefnasmygls í kjölfar Schengen-aðildar Noregs, sem er í hliðstæðri stöðu og Ísland gagnvart Evrópusam­bandinu, en með geysilöng sameiginleg landamæri við Svíþjóð. Formaður samtaka löggæslu­manna í lénum Noregs (lensmannsbetjentane), Arne Johannessen, hefur ítrekað lýst áhyggj­um sínum af aukningu fíkniefna, sem og því verkefni að eiga að gæta ytri landamæra Evrópusambandsins á hinni löngu Noregsströnd.
    Nokkrir íslenskir tollgæslumenn hafa í einkasamtölum lýst þeirri skoðun sinni við fyrsta flutningsmann þessarar tillögu að Schengen-aðild muni gera eftirlit með ólöglegum innflutn­ingi fíkniefna til landsins mun erfiðara en nú er. Sama sjónarmið kom fram í grein eftir Kristján Pétursson, fyrrverandi deildarstjóra, sem hann ritaði í Morgunblaðið 18. janúar 1997 um þessi efni. Þar varar hann eindregið við hættunni á auknum innflutningi fíkniefna um Keflavíkurflugvöll, verði af aðild Íslands að Schengen. Hann segir það eindregna skoðun þeirra löggæslumanna sem vinni við eftirlit og rannsóknir fíkniefnamála að Schengen-samningurinn geri þeim illmögulegt að viðhalda því eftirliti sem verið hefur, hvað þá að efla það. „Í langflestum tilvikum þegar fíkniefni finnast hjá farþegum við komu til landsins liggur að baki mikil og oft flókin upplýsingaöflun tollgæslu og fíkniefnadeildar lögreglunnar. Svo hægt sé að hafa hendur í hári grunsamlegra komufarþega, innlendra sem erlendra, verður að skoða skilríki þeirra, þar sem oftast er um að ræða ókunna aðila (burðardýr). Eftir að vega­bréfaskoðun Schengen-farþega verður lögð af, er ekki lengur fyrir hendi nein aðstaða til slíks eftirlits í flugstöðinni.“
    Tillagan sem hér er flutt gerir ráð fyrir að dómsmálaráðherra láti, í samvinnu við önnur ráðuneyti og aðra þá sem láta sig varða baráttuna gegn fíkniefnum, gera sérstaka úttekt á líklegum áhrifum aðildar Íslands að Schengen á ólöglegan innflutning fíkniefna hingað til lands. Meðal ráðuneyta sem að þessu máli vinna auk dómsmálaráðuneytis eru félagsmálaráðuneyti, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Slíka úttekt hefði að sjálf­sögðu þurft að gera strax og Schengen-aðild kom á dagskrá hérlendis og var ítrekað hvatt til þess, m.a. af fyrsta flutningsmanni í umræðum á Alþingi.
    Tillaga þessi var lögð fram á 122. löggjafarþingi en varð þá ekki útrædd. Hún er nú endurflutt, enda ekki um seinan að gera slíka úttekt.