Ferill 15. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 15 — 15. mál.



Frumvarp til laga



um rétt til launa í veikindaforföllum.

Flm.: Hjörleifur Guttormsson, Bryndís Hlöðversdóttir.


I. KAFLI


    

Breyting á lögum um rétt verkafólks til uppsagnarfrests     frá störfum


og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, nr. 19/1979.


1. gr.


    Við 5. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Til forfalla frá vinnu vegna sjúkdóma eða slysa samkvæmt lögum þessum teljast hvers kyns aðgerðir sem taldar eru nauðsynlegar af læknisfræðilegum ástæðum, rannsóknir og önn­ur meðferð að læknisráði, enda þótt launamaður hafi ekki verið óvinnufær við upphaf læknis­meðferðar.
    Heilbrigðir líffæragjafar njóta réttar til launa í forföllum frá vinnu vegna líffæragjafar í samræmi við ákvæði laga þessara.

2. gr.


    8. gr. laganna orðast svo:
    Nú vill launamaður neyta réttar síns skv. 4.–6. gr. og skal hann þá, ef atvinnurekandi ósk­ar þess, afhenda vottorð læknis er sýni að forföll hafi verið óhjákvæmileg, sbr. og ákvæði 5. mgr. 5. gr.

II. KAFLI


    

Breyting á sjómannalögum, nr. 35/1985.


3. gr.


    36. gr. laganna orðast svo:
    Ef skipverji forfallast vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verður fyrir meðan á ráðn­ingartíma stendur skal hann eigi missa neins af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann er forfallaður af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði. Sé skipverji í launalausu fríi er hann veikist eða slasast tekur hann laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju. Skipverji, sem forfallast vegna veikinda, á þó ekki rétt til launa í fleiri daga en hann hefur verið í þjónustu útgerðarmanns.
    Hafi skipverji verið ráðinn á sama skip hjá sama útgerðarmanni í tvö ár samfellt skal hann, auk þess sem í 1. mgr. segir, halda föstu kaupi, kauptryggingu eða sérlega umsömdu veikindakaupi í allt að einn mánuð en í allt að tvo mánuði eftir fjögurra ára samfellda ráðn­ingu hjá sama útgerðarmanni.
    Skipverji, sem forfallast frá vinnu vegna slysa við vinnu, á leið til eða frá vinnu eða vegna atvinnusjúkdóma sem stafa af vinnunni, skal fá greitt fast kaup, kauptryggingu eða sérlega umsamið veikindakaup í allt að þrjá mánuði til viðbótar greiðslum skv. 1. og 2. mgr.
    Skipverji á ekki rétt á kaupi þann tíma sem hann hliðrar sér ólöglega hjá að inna störf sín af hendi né fyrir þann tíma sem hann er óstarfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur leynt vísvitandi við ráðningu sína. Sama gildir ef skipverji er ekki starfhæfur vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hefur sjálfur bakað sér af ásetningi eða stórfelldu gáleysi.
    Nú vill skipverji neyta réttar síns skv. 1., 2. og 3. mgr. og skal hann þá, ef atvinnurekandi óskar þess, afhenda honum vottorð læknis er sýni að hann hafi verið forfallaður.
    Til forfalla frá vinnu vegna sjúkdóms eða slysa samkvæmt lögum þessum teljast hvers kyns aðgerðir sem taldar eru nauðsynlegar af læknisfræðilegum ástæðum, rannsóknir og önnur meðferð að læknisráði enda þótt skipverji hafi ekki verið óvinnufær við upphaf lækn­ismeðferðar. Heilbrigðir líffæragjafar njóta réttar til launa í forföllum vegna líffæragjafar í samræmi við ákvæði laga þessara.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var upphaflega flutt á 117. löggjafarþingi og endurflutt á 118. löggjafar­þingi. Þá var það enn flutt á 120. löggjafarþingi, með smávægilegum breytingum á greinar­gerð sem gerðar voru í ljósi ábendinga sem fram komu í umsögnum um frumvarpið, og flutt aftur á 121. og 122. löggjafarþingi. Frumvarpið er nú endurflutt nær óbreytt. Markmið með frumvarpi þessu er tvíþætt. Annars vegar er lögð til lagabreyting sem stuðlar að því að jafna rétt launafólks hér á landi til launa í veikindaforföllum. Hins vegar er lagt til að kveðið verði sérstaklega á um rétt tiltekins hóps manna, heilbrigðra líffæragjafa, og þeim veittur lagalegur réttur til launa sem um veikindaforföll væri að ræða. Þessar breytingar eru lagðar til í ljósi þróunar hér á landi undanfarinn áratug.
    Um rétt launafólks til launa í veikindaforföllum gilda lög nr. 19/1979, sem ná til land­verkafólks, lög nr. 35/1985, sem gilda um sjómenn, og lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. reglugerð um veikindaforföll starfsmanna ríkisins, nr. 411/1989. Auk þess eru í flestum kjarasamningum ákvæði um rétt til launa í veikindafor­föllum.
    Í stuttu máli má segja að þróun undanfarinna ára hafi aukið misrétti milli einstakra hópa launafólks hvað varðar rétt til launa í veikindaforföllum. Það byggist annars vegar á því að lögbundinn réttur verkafólks og sjómanna á þessu sviði hefur verið túlkaður mjög þröngt og hins vegar á því að þessum hópum hefur ekki verið tryggður réttur í samræmi við þróun á sviði nútímalækninga. Þannig má sem dæmi nefna að starfsmenn ríkis og bæja fá greidd laun í fimmtán daga vegna fjarveru af völdum tæknifrjóvgunar og á hver starfsmaður rétt á slíkum greiðslum einu sinni. Sé litið til þessarar þróunar er langt frá því að verkafólk og sjómenn njóti slíks réttar og í raun hefur þróunin í heild leitt til þess að verkafólk og sjó­menn hafa nú lakari rétt en almennt gerist og lakari rétt en ráða má af lagafyrirmælum. Þannig hafa hugtökin „sjúkdómur“ og „óvinnufærni“ í lögum nr. 19/1979 og lögum nr. 35/1985 verið túlkuð afar þröngt af dómstólum. Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að lögin tryggi þeim ekki rétt sem að læknisráði gangast t.d. undir hjartaþræðingu eða rann­sókn vegna magasárs. Fjarvistir vegna munnskurðaðgerðar, kjálkaaðgerðar eða ísetningar nýs gerviauga hafa ekki verið taldar veita rétt til launa í veikindaforföllum. Þá hefur tækni­frjóvgun ekki talist til greiðsluskyldra forfalla þótt ófrjósemi kunni að stafa af sjúkdómi, en eins og að framan er getið fá opinberir starfsmenn greidd laun í forföllum vegna tækni­frjóvgunar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem tryggja eiga rétt launafólks til greiðslu launa í forföllum að læknisráði án þess að gert sé að ófrávíkjanlegu skilyrði að viðkomandi sé óvinnufær. Þá er einnig lagt til í frumvarpinu að réttur heilbrigðra líffæragjafa verði tryggð­ur sérstaklega. Enn hefur ekki reynt á rétt þessa hóps fyrir dómstólum en þegar hafa komið upp dæmi um að atvinnurekendur neiti að greiða heilbrigðum líffæragjöfum laun vegna fjarvista þeirra við líffæragjöf, enda þótt margir vinnuveitendur muni væntanlega kjósa að greiða starfsfólki sínu laun í slíkum tilvikum. Þess má geta að árið 1993 voru skráð fjögur tilvik líffæragjafa hjá Íslendingum.
    Eins og að framan greinir hafa opinberir starfsmenn fengið viðurkenndan rétt til greiðslu launa vegna forfalla vegna tæknifrjóvgunar sem eru að vissu leyti einnig aðgerðir sem ein­staklingar velja sjálfir hvort þeir gangast undir. Heilbrigðir líffæragjafar hafa þó algera sér­stöðu þar sem þeir gangast heilbrigðir undir aðgerð til hjálpar þriðja manni, ef til vill ekki beinlínis að ráði læknis, þó að um geti verið að ræða að verið sé að bjarga lífi annarrar manneskju. Sú breyting, sem hér er lögð til, á því fyrst og fremst rætur að rekja til mannúð­arsjónarmiða.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er lagt til að réttur launafólks til launa í veikindaforföllum verði rýmkaður þannig að til sjúkdóma teljist hvers kyns aðgerðir, rannsóknir og önnur meðferð að læknis­ráði, þótt launamaður hafi ekki verið óvinnufær við upphaf læknismeðferðar. Eins og fram kemur í greinargerð er þessari breytingu ætlað að tryggja þeim sem gangast m.a. undir hjartaþræðingu rétt til launa í forföllum af þeim sökum, jafnvel þótt þeir hafi ekki verið óvinnufærir við upphaf læknismeðferðar. Ákvæðum frumvarpsins er hins vegar ekki ætlað að lögskylda atvinnurekendur til geiðslu launa vegna áfengismeðferðar. Þá er lögð til sú grundvallarbreyting að heilbrigðum líffæragjöfum sé tryggður réttur til launa á meðan þeir eru fjarri vinnu af þeim sökum á sama hátt og um sjúkling væri að ræða.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að fellt verði brott skilyrði um að menn séu óvinnufærir, sbr. það sem segir í greinargerð. Í stað þess er lagt til að kveðið verði á um að forföll hafi verið óhjákvæmileg vegna veikindanna eða slyssins, en með því er tryggt að forföll viðkomandi séu í raun að læknisráði án þess að gert sé að skilyrði að viðkomandi teljist óvinnufær, sbr. þó undan­tekningu í 5. mgr. 5. gr. Þá er lagt til að ekki verði tiltekið í ákvæðinu að læknisvottorð varði „veikindi og slys“ og er sú breyting í samræmi við þá meginbreytingu sem felst í frumvarpinu.

Um 3. gr.


    Hér er lögð til sú grundvallarbreyting á rétti sjómanna til launa í veikindaforföllum að ekki verði lengur gert að skilyrði að viðkomandi sé óvinnufær, enda hefur það skilyrði þrengt verulega rétt sjómanna þar sem þeir geta eðli málsins samkvæmt ekki leitað sér lækninga fyrr en að lokinni veiðiferð. Þannig hefur ósérhlífni sjómanna, sem reyna að vinna störf sín til loka veiðiferðar, þrátt fyrir óumdeilanleg veikindi, leitt til brottfalls réttar til veikindalauna. Þá er lagt til að ekki verði tiltekið í 5. mgr. að vottorð læknis varði „veik­indi“ eða „slys“ og er sú breyting í samræmi við þá breytingu sem lögð er til á 36. gr. Bent skal á ákvæði 3. mgr. 8. gr. laganna sem veitir útgerðarmanni rétt til að kanna hvort sá sem vill ráða sig á skip sé haldinn sjúkdómi eða meiðslum sem geri hann ófæran til að gegna skipsstörfum og á 33. gr. laganna um skyldu skipverja til að gangast undir læknisrannsókn að kröfu skipstjóra.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.