Ferill 18. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 18 — 18. mál.



Frumvarp til laga



um að fella niður þjónustugjöld í heilsugæslu.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Hjörleifur Guttormson,


Kristín Ástgeirsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon.


Breyting á lögum um heilbrigðisþjónustu,

nr. 97/1990, með síðari breytingum.


1. gr.


    2. mgr. 20. gr. laganna orðast svo:
    Ekki eru tekin gjöld fyrir þjónustu heilsugæslunnar við einstaklinga. Um þjónustu sem aðrir greiða fer eftir sérstakri gjaldskrá sem ráðherra setur.

Breyting á lögum um almannatryggingar,

nr. 117/1993, með síðari breytingum.


2. gr.


    Í stað fyrri málsliðar 66. gr. laganna koma tveir málsliðir, svohljóðandi:
    Ráðherra er heimilt að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara í reglugerð. Í reglu­gerðinni er þó ekki heimilt að leggja gjöld á þá einstaklinga sem leita þjónustu heilsugæsl­unnar.

Gildistaka.


3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi en varð eigi útrætt. Það er því endurflutt en nýjar upplýsingar koma fram í greinargerð.
    Frá og með fjárlögum fyrir árið 1992 hafa álögur á sjúklinga verið auknar jafnt og þétt. Af þeim sökum hefur kjararýrnun orðið mest hjá því fólki sem á við sjúkdóma að stríða. Þessar álögur hafa birst í ýmsum myndum, dregið hefur verið úr stuðningi við einstaklinga í gegnum almannatryggingar, t.d. með aukinni greiðsluþátttöku í tannlækniskostnaði fyrir börn og ellilífeyrisþega, og gildir það sama almennt um kostnaðarhlutdeild sjúklinga á heil­brigðisstofnunum. Staða þeirra sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda hefur þannig stór­versnað. Þau gjöld sem hér um ræðir, þ.e. komugjöld á heilsugæslustöðvar, eru aðeins hluti af stærri mynd og þau ber að skoða í ljósi óheillaþróunar síðustu ára. Vegna þess hve mikil­væg heilsugæslan er sem grunnur heilbrigðisþjónustunnar er mikilvægt að einmitt þar verði hafist handa við að snúa til réttrar áttar á ný.
    Þess skal getið að ýmsar reglur hafa gilt um hámarksgreiðslur fyrir læknisþjónustu og heilsugæslu. Í upphafi áratugarins var þannig 8 þús. kr. hámark fyrir aðra en elli- og örorku­lífeyrisþega. Þessari upphæð var breytt og einnig var innleidd sú regla að eftir að viðmiðun­arupphæð var náð var aðeins veittur afsláttur þar sem áður hafði verið þak á greiðslur. Viðmiðunarupphæðin nú er 12 þús. kr. fyrir einstakling, 6 þús. kr. fyrir öll börn undir 16 ára aldri í sömu fjölskyldu og 3 þús. kr. fyrir lífeyrisþega.
    2. mgr. 20. gr. laga um heilbrigðisþjónustu hljóðar nú svo:
    „Ráðherra setur gjaldskrá fyrir veitta þjónustu heilsugæslustöðva og skal hún vera í sam­ræmi við hliðstæðar gjaldskrár samkvæmt lögum um almannatryggingar.“
    Þessi grein eða ígildi hennar hefur verið í lögunum um heilbrigðisþjónustu frá upphafi. Nú er lagt til að hún verði felld niður og að heilsugæsla verði ókeypis framvegis. Ástæðurnar eru þessar:
    1.    Það gafst vel á árunum fram að 1992 þegar heilsugæsla var ókeypis. Það ýtti undir að fólk notaði sér heilsugæsluna. Um leið á sérfræðingakostnaður að minnka. Því vinnst tvennt, annars vegar sparar heilbrigðiskerfið í heild og hins vegar verður aðgengi al­mennings að frumþjónustunni greiðara.
    2.    Komið hefur í ljós á þessum áratug að heilbrigðisráðherrar vilja misnota þessa grein og leggja íþyngjandi byrðar á þá sem þurfa heilbrigðisþjónustu.
    Í frumvarpinu er einnig lagt til að heimildin til að leggja á gjöld í heilsugæslu verði af­numin úr almannatryggingalögum. Þar hljóðar ákvæðið nú á þessa leið:
    „Ráðherra er heimilt í reglugerð að kveða á um nánari framkvæmd laga þessara. Þá er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar, enda eigi ákvæði þeirra stoð í lögum þessum.“
    Þetta frumvarp hefur verið flutt áður og hefur verið leitað umsagnar hjá ýmsum aðilum sem láta sig heilbrigðismál varða. Undantekningarlaust hefur komið fram stuðningur við frumvarpið.
    Þannig er lagt til í umsögn ASÍ „að frumvarpið verði samþykkt og jafnframt hvatt til þess að dregið verði úr gjaldtöku ríkisins á öðrum sviðum bæði heilbrigðisþjónustu og mennta­mála.“
    Í umsögn BSRB kemur fram að BSRB hafi ítrekað mótmælt gjaldtöku í heilbrigðis- og menntakerfinu og mæla samtökin með því að frumvarpið verði samþykkt.
    Stjórn Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna mælir með að frumvarpið „verði samþykkt óbreytt. Stjórnin telur að nægjanleg rök séu færð fyrir samþykktinni í greinargerð með frumvarpinu og hefur engu við hana að bæta. Rétt þykir þó að taka fram að sjaldan er leitað til almennrar heilsugæslu með börn sem fengið hafa krabbamein og því er ekki talið að þær breytingar á lögum um almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu sem hér um ræðir komi fjölskyldum þeirra sérstaklega til góða. Umsögn SKB miðast því fyrst og fremst við hinn almenna notanda heilsugæslu.“
    Í greinargerð frá Umhyggju, félagi til stuðnings sjúkum börnum, segir:
    „Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu hafa álögur á sjúka og aðstandendur þeirra aukist á undanförnum árum þegar um rannsóknir ásamt þjónustu heilsugæslu og heim­ilislækna er að ræða. Þetta á við í fleiri tilfellum og nægir þar að nefna lyfjakostnað og þjón­ustu sérfræðinga sem dæmi. Auknar álögur vegna heilbrigðisþjónustu þegar um langsjúk börn er að ræða koma afar illa við aðstandendur þeirra. Ástæðan er sú að foreldri eða for­eldrar barnsins minnka við sig vinnu eða hætta að vinna í lengri eða skemmri tíma til þess að geta annast það sem best. Með öðrum orðum verður viðkomandi fjölskylda fyrir nánast óbættri tekjurýrnun sem er afleiðing af því að barn greinist með sjúkdóm, eins óréttlátt og það hljómar (alla vega í eyrum þeirra sem verða fyrir því). Á sama tíma eykst kostnaður af ýmsum orsökum og ekki hætta gluggaumslögin að koma inn um bréfalúguna. Afleiðingin er fjárhagserfiðleikar, mismiklir að vísu eftir aðstæðum hvers og eins.
    Alvarlega sjúk börn njóta þjónustu sérfræðinga í flestum tilfellum og því skiptir frumvarp það sem hér er til umfjöllunar ekki meginmáli ef sá hópur er afmarkaður. Reyndar breytist sú fullyrðing ef um systkin er að ræða sem þurfa á heilsugæslu að halda. Hins vegar er algengt að langveik börn sem ekki eru talin alvarlega sjúk þurfi alloft á þjónustu heilsugæslu að halda og kæmi samþykkt frumvarpsins fjölskyldum þeirra án nokkurs vafa til góða sem nokkurs konar kjarabót þótt augljóst sé þeim sem vilja skilja hlutina að talsvert meira þarf að koma til ef fullnægja á réttlætinu í þessu sambandi. Er þar einkum átt við að nauðsynlegt er að fjölga launuðum frídögum launþega sem þarf að sinna sjúku barni sínu.
    Niðurstaða stjórnar Umhyggju er sú að hér sé um þarft frumvarp að ræða og því er eindregið mælt með að það verði samþykkt. Ekki þykir ástæða til að leggja til breytingar á frumvarpinu.“
    Í umsögn Félags íslenskra heimilislækna um frumvarpið segir m.a.:
    „Komugjöld voru tekin upp fyrir einum fimm árum. Mikil ábyrgð, skriffinnska og vinna felst í að innheimta þau og standa á þeim skil. Settur var á stofn svonefndur 10% sjóður, en andvirði hans skyldi einkum varið til þess að endurmennta starfsfólk.
    Þótt komugjöld megi að ýmsu leyti rökstyðja og æskilegt sé að kostnaðarvitund almenn­ings sé sem mest, er samt staðreynd að fyrir marga sjúklinga geta fjárútlát fyrir heilbrigðis­þjónustu orðið umtalsverð. Hefur því verið mætt m.a. með því að gefa út afsláttarkort til þeirra sem verst eru settir. Fylgir því einnig mikil skriffinnska og vinna og fjöldinn er gífur­legur því að árlega eru gefin út hátt í 30.000 kort. Einstaklingar sem afsláttar njóta eru þó enn fleiri, jafnvel yfir 50.000.“
    Hér á eftir fer yfirlit yfir komugjöld í heilsugæslunni frá og með fjárlögum fyrir árið 1992:

Greiðslur fyrir komu á heilsugæslustöð eða til heimilislæknis.




         Lífeyrisþegar og börn
    Almennt gjald     yngri en 16 ára

    Án afsláttarkorts     Með afsláttarkorti     Án afsláttarkorts     Með afsláttarkorti


Koma á heilsugæslustöð eða til
heimilislæknis á dagvinnutíma.

Fyrir áramót 1991/1992          0     0     0     0
1996               700     300     300     100

Koma á heilsugæslustöð eða til
heimilislæknis utan dagvinnutíma.

Fyrir áramót 1991/1992          500     0     500     0
1996               1.100     700     500     300

Vitjun heilsugæslu- eða heimilis-
læknis á dagvinnutíma.

Fyrir áramót 1991/1992          400     0     400     0
1996               1.100     700     400     300

Vitjun heilsugæslu- eða heimilis-
læknis utan dagvinnutíma.

Fyrir áramót 1991/1992          1.000     0     1.000     0
1996               1.600     1.000     600     400

Krabbameinsleit hjá heimilislækni
eða á heilsugæslustöð.

Fyrir áramót 1991/1992          900     0     300     0
1996               1.500     500     500     300

Koma til röntgengreiningar eða
rannsókna.

Fyrir áramót 1991/1992          300     0     100     0
1996               1.000     400     300     100