Ferill 22. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 22 — 22. mál.Tillaga til þingsályktunarum nýtt starfsheiti fyrir ráðherra.


Flm.: Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Halldórsdóttir, Svavar Gestsson.    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra að láta undirbúa breytingar á stjórnarskrá og lög­um til að taka megi upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kynin geta borið. Nauðsynleg lagafrumvörp verði lögð fram hið fyrsta.

Greinargerð.


    Sú þróun hefur átt sér stað í hefðbundnum kvennastéttum þegar karlar hafa haslað sér þar völl að starfsheitum hefur verið breytt til þess að bæði kynin gætu borið þau. Þannig urðu hjúkrunarkonur að hjúkrunarfræðingum, fóstrur urðu leikskólakennarar og Fóstruskóla Íslands var breytt í Fósturskóla Íslands, m.a. af tillitssemi við karla því að ekki þótti boðlegt fyrir karlmenn að vera kvenkenndir. Um eðlilega og sjálfsagða leiðréttingu var að ræða. Ef orðin ráðherra og sendiherra væru t.d. „ráðfrú“ og „sendifrú“ hefði eflaust einnig þótt sjálf­sagt að breyta starfsheitinu um leið og fyrsti karlmaðurinn tók að sér slíkt embætti. Það er því í fyllsta samræmi við þessa þróun að breyta einnig starfsheitum í hefðbundnum karla­stéttum, þannig að konur geti borið þau. Ráðherraembætti eiga ekki að vera eyrnamerkt körl­um.
    Orðið ráðherra ber þess merki að æðsta stjórn landsins er í höndum karla, enda var það svo að frá stofnun lýðveldisins og fram til ársins 1970 gegndi engin kona embættinu. Á lýð­veldistímanum hafa 98 karlar gegnt ráðherraembætti en aðeins fimm konur, og um þessar mundir er 99. karlinn að taka við embætti. Það særir ekki málkennd manna þótt konur séu forsetar, kennarar eða forstjórar en öðru máli gegnir um orðið „herra“. Það stríðir ekki einungis gegn málvitund okkar að kona sé herra, heldur er það merkingarlega útilokað að kona sé herra á sama hátt og karl getur ekki verið frú. Orðið herra merkir tvennt samkvæmt orðabók Menningarsjóðs, annars vegar titil karlmanns og hins vegar húsbónda eða yfirmann og ljóst er að síðarnefnda merkingin er frá þeim tíma þegar aðeins karlar gegndu slíkum stöðum. Það er því mikið réttlætismál að þessum starfsheitum verði breytt. Sömu rök eiga við um stöðuheitin sendiherra og skipherra sem væntanlega eru einnig formlega opin fyrir konur.
    Í nágrannalöndum okkar eru mun kynhlutlausari orð notuð yfir þá sem sæti eiga í ríkis­stjórn, samanber „secretary“ í Bandaríkjunum og Englandi og „minister“ á Norðurlöndum, Þýskalandi og Frakklandi. Þrátt fyrir það hafa ráðakonur gert athugasemdir við slíka titla og er þess skemmst að minnast að franskir kvenráðherrar notuðu starfstitla sína í kvenkyni. Þær kalla sig „madame la ministre“ í stað hins hefðbundna „le ministre“. Því var mótmælt af frönsku akademíunni og bent á að slíkt væri málfræðivilla. Eðlileg lausn hefði getað verið sú að skipta um heiti á embættinu eða að öðrum kosti að heimila þá notkun sem konunum fannst sér samboðin. Því er ekki haldið fram að um mannréttindabrot sé að ræða, en það er óvirðing að karlkenna konu á sama hátt og það er óvirðing að kvenkenna karl.
    Þá hefur verið bent á að orðin „minister“ og „secretary“ hafi ekki eins valdbjóðandi og kynbundið yfirbragð og ráðherra. Erlendu orðin hafa lýðræðislegra yfirbragð og gefa skýrar til kynna að viðkomandi séu þjónar fólksins fremur en herrar.
    Í stjórnarskránni er talað um ráðherra í 13..19. gr. og í 54..56. gr. Þar sem um brýnt mál er að ræða þarf að athuga hvort hægt sé að breyta starfsheitinu strax á þessu þingi með nauð­synlegum lagabreytingum þó að breytingarnar á stjórnarskránni taki gildi síðar.
    Í tillögu þessari er ekki stungið upp á nýju orði í stað ráðherra. Aðalatriðið er að nota orð sem hentar báðum kynjum. Á Íslandi finnast ótal dæmi um snilldarlega nýsmíði orða. Leita mætti eftir tillögum t.d. hjá íslenskri málnefnd og heimspekideild Háskóla Íslands. Vel kæmi einnig til greina að fram færi vel auglýst samkeppni um verðugt orð yfir þessi mikilvægu embætti þjóðarinnar sem konur hljóta að gegna í æ ríkari mæli á komandi árum.