Ferill 25. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 25 — 25. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, nr. 23/1989.


Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Lúðvík Bergvinsson.



1.      gr.

    Síðari málsliður 2. gr. laganna orðast svo: Réttur til styrks fellur niður ef nemandi nýtir rétt sinn til töku námsláns.

2.      gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Lög um framhaldsskóla taka til alls skólastarfs á því skólastigi sem tekur við af skyldu­námsstigi og allt til háskólastigs. Þessir skólar eru: fjölbrautaskólar, iðn- og verkmennta­skólar og menntaskólar, svo og skólar sem veita sérhæft nám á framhaldsskólastigi.
    Réttur nemenda til námsstuðnings í formi námsstyrkja eða námslána er hins vegar mjög misjafn á þessu skólastigi. Nemendur sem stunda svokallað sérnám eiga rétt á námsláni en geta, vegna þess réttar, ekki fengið námsstyrk samkvæmt lögum um ráðstafanir til jöfnunar á námskostnaði, svokallaðan dreifbýlisstyrk. Þeir nemendur sem stunda bóknám á framhalds­skólastigi eiga hins vegar ekki rétt á námslánum en geta eftir atvikum fengið dreifbýlis­styrkinn. Þannig getur það gerst að nemendur hvor á sinni braut í sama skóla eigi gjörólíkan rétt þótt aðstæður séu að öðru leyti hinar sömu.
    Vegna eðlis sérnámsins, m.a. þess að fólk er gjarnan eldra þegar það hefur slíkt nám, er eðlilegt að nemendur í slíku námi eigi rétt á námsláni. Það er jafnframt ljóst að hluti nemenda í námi sem skilgreint er sem sérnám á framhaldsskólastigi vildi gjarnan og þyrfti að eiga kost á dreifbýlisstyrk á framhaldsskólaárunum og geta þannig átt óskertan rétt til námsláns síðar. Betur færi því á að snúa þessum réttindum við, þ.e. að allir sérnámsnemar á framhalds­skólastigi, sem að öðru leyti uppfylla skilyrði, eigi rétt til dreifbýlisstyrks, nema þeir sem kjósa heldur að taka námslán.
    Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að það ákvæði falli brott sem kveður á um að framhalds­skólanemendur eigi einungis kost á námsláni en ekki námsstyrk ef þeir stunda sérnám á fram­haldsskólastigi samkvæmt skilgreiningu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Þess í stað verði það val þessara nemenda hvort þeir taka námslán eða þiggja námsstyrk.
    Lagt er til að þessi breyting á lögunum taki þegar gildi.
    Mál þetta var lagt fram á síðasta þingi, en varð ekki útrætt.