Ferill 37. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 37 — 37. mál.



Fyrirspurn



til viðskiptaráðherra um greiðslukortastarfsemi.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur.



1.      Er ráðherra sammála því mati samkeppnisráðs að setja þurfi sérstaka löggjöf um greiðslukortastarfsemi? Ef svo er, er áformað að leggja fram frumvarp til laga um slíka starfsemi?
2.      Hvaða reglur gilda nú um fjárhagslegt eftirlit með starfsemi greiðslukortafyrirtækja?
3.      Hvað má áætla að árleg heildarfjárhæð viðskipta með milligöngu greiðslukorta (kreditkorta) sé há, annars vegar innlend og hins vegar erlend?
4.      Hvern má áætla árlegan kostnað af greiðslukortastarfsemi og hvernig skiptist hann milli korthafa, greiðsluviðtakenda, greiðslukortafyrirtækja og banka?
5.      Hverjar voru tekjur bankakerfisins annars vegar og greiðslukortafyrirtækjanna hins vegar af greiðslukortastarfsemi á árunum 1995, 1996 og 1997?
6.      Að hve miklu leyti má áætla að kostnaður við greiðslukortaviðskipti komi fram í hærra verði á vöru og þjónustu og telur ráðherra eðlilegt að þeir sem staðgreiða fyrir vöru og þjónustu beri kostnað af greiðslukortaviðskiptum til jafns við þá sem greiða með kredit­korti?
7.      Hverjar má áætla viðbótartekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti sem til verður af hærra verði á vöru og þjónustu vegna greiðslukortaviðskipta?
8.      Hver er munurinn á hæsta og lægsta gjaldflokki þjónustugjalda greiðslukortafyrirtækja og banka og telur ráðherra eðlilegt að greiðsluviðtakendum sé mismunað með þjónustu­gjöldum?



Skriflegt svar óskast.