Ferill 41. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 41 — 41. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um undirritun Kyoto-bókunarinnar.

Flm.: Ágúst Einarsson, Margrét Frímannsdóttir, Guðný Guðbjörnsdóttir,


Össur Skarphéðinsson, Svavar Gestsson, Svanfríður Jónasdóttir,
Bryndís Hlöðversdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirrita nú þegar fyrir Íslands hönd Kyoto-bókunina, bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

Greinargerð.


    Þessi tillaga var flutt á síðasta þingi en varð ekki útrædd. Bókunin, sem kennd er við Kyoto í Japan, var gerð í lok síðasta árs og markar tímamót í sögunni. Þar var ákveðin al­þjóðleg stefna um að þjóðir heims skuldbindi sig til að takmarka losun gróðurhúsaloftteg­unda í andrúmsloftið. Það voru um 160 ríki sem tóku þátt í samningsgerðinni og Ísland fékk hvað rúmastar heimildir allra þjóða. Þótt það hafi vitaskuld í för með sér stefnubreytingu hérlendis að mæta þessum kvöðum eigum við að taka þátt í því með öðrum þjóðum að stuðla að fullgildingu samningsins.
    Með Kyoto-bókuninni skuldbinda iðnríkin sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þannig að hún verði 5,2% minni á tímabilinu 2008–2012 en hún var árið 1990. Árið 1990 er viðmiðunarár í samningnum. Skuldbindingarnar eru mismunandi milli einstakra ríka eða frá 8% minni losun upp í að heimila 10% meiri losun. Íslandi er heimil 10% meiri losun eða mest allra ríkja.
    Samningurinn öðast gildi þegar a.m.k. 55 ríki hafa staðfest hann. Í þeim hópi verða að vera iðnríki sem eiga að minnsta kosti sök á 55% útblásturs í öllum iðnríkjunum. Nú þegar hafa nær öll ríki Evrópu undirritað samninginn, auk fjölmargra annarra ríkja. Íslensk stjórn­völd hafa sagst vilja bíða eftir framhaldsráðstefnu í Buenos Aires í nóvember áður en frekari ákvarðanir verða teknar. Það er þó ljóst að Íslendingar hafa þegar fengið viðurkennda sér­stöðu sína og nú gildir að vinna út frá markmiðum ráðstefnunnar. Við eigum ekki að láta okkar eftir liggja.
    Hérlendis hefur því verið haldið fram að öllum stóriðjuáformum sé teflt í hættu ef við ger­umst aðilar að samningnum. Það er rangt. Við getum dregið úr útblæstri fiskiskipa og sam­göngutækja með markvissum aðgerðum og dregið úr áhrifum mengunar með aukinni gróður­rækt og skógrækt, en landgræðsla og skógrækt eru rædd í tengslum við útfærslu Kyoto-bókunarinnar. Vitaskuld munum við grípa til sparnaðaraðgerða auk þess sem tækniframfarir leysa hluta af þessu vandamáli. Einnig er líklegt að ýmis áform um orkufrekan og útblásturs­mengandi iðnað verði endurmetin. Þannig er ljóst að við ráðum mjög vel við að uppfylla skil­yrði Kyoto-bókunarinnar ef við mörkum okkur skynsamlega stefnu. Þess vegna er stefnuyfir­lýsing af hálfu Alþingis nauðsynleg og skynsamlegt er að undirrita samninginn svo að hægt verði að hefja undirbúning að staðfestingu bókunarinnar, enda fylgjum við nágrannalöndun­um með því.

    Íslendingar munu vitaskuld taka virkan þátt í frekara starfi á vegum Sameinuðu þjóðanna á sviði umhverfismála. Allt aðrar aðstæður eru í heiminum nú en fyrir fimm til tíu árum. Við eigum að svara kalli tímans og stuðla að umhverfisvernd með öðrum þjóðum. Það mun hafa jákvæð áhrif á lífskjör framtíðarinnar því að fáar þjóðir eiga meira undir því að það takist að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið.