Ferill 44. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 44 — 44. mál.Frumvarp til lagaum afnám laga um gjald af kvikmyndasýningum, nr. 28 4. febrúar 1952.

Flm.: Kristinn H. Gunnarsson.1. gr.

    Lög um gjald af kvikmyndasýningum, nr. 28/1952, með síðari breytingu, falla úr gildi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í ljós hefur komið að sveitarstjórnir nýta ekki heimild í lögunum um álagningu og inn­heimtu gjalds af aðgangseyri að kvikmyndasýningum, öðrum en íslenskum kvikmyndum og fræðslumyndum, allt að 10%, sem verja skal til menningar- og líknarfélaga í viðkomandi sveitarfélagi. Í svari menntamálaráðherra við fyrirspurn flutningsmanns á síðasta þingi kom fram að leitað var upplýsinga frá öllum kaupstöðum landsins. Svör bárust frá 17 og í ljós kom að enginn þeirra nýtir sér þessa lagaheimild. Reykjavíkurborg og Akureyrarkaupstaður gerðu það en hættu því fyrir nokkrum árum. Þykir því ekki lengur forsenda fyrir umræddum lögum og er lagt til að þau verði afnumin. Frumvarpið var áður flutt á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu og er því endurflutt óbreytt.


Fylgiskjal I.


Svar menntamálaráðherra við fyrirspurn Kristins H. Gunnarssonar
um gjald af kvikmyndasýningum.

(Þskj. 387, 244. mál 122. löggjafarþings.)


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
1.      Hvaða sveitarstjórnir leggja sérstakt gjald á kvikmyndasýningar samkvæmt lögum nr. 28/1952 og hve lengi hefur það verið gert?
2.      Hversu hátt hlutfall af aðgangseyri að kvikmyndasýningum er gjaldið og hve há hefur fjárhæðin verið árlega síðustu fimm ár, sundurliðað eftir sveitarfélögum?


    Ráðuneytið leitaði upplýsinga hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem sendi fyrirspurn­ina til allra kaupstaða á landinu. Svör bárust frá 17 sveitarfélögum af 31. Ekkert þeirra sveit­arfélaga sem svar barst frá leggur nú sérstakt gjald á kvikmyndasýningar samkvæmt heimild í lögum nr. 28/1952. Reykjavíkurborg og Akureyrarbær gerðu það áður en hættu því fyrir mörgum árum. Eftirfarandi er yfirlit yfir svör sveitarfélaganna:
Sveitarfélag Svar
Reykjavíkurborg Ekkert gjald, var lagt á áður en því hætt fyrir mörgum árum
Kópavogskaupstaður
Seltjarnarneskaupstaður Ekkert gjald, engar kvikmyndasýningar
Garðabær Ekkert gjald
Hafnarfjarðarkaupstaður Ekkert gjald
Mosfellsbær
Reykjanesbær
Grindavíkurkaupstaður
Sandgerðisbær Ekkert gjald, engar kvikmyndasýningar
Akraneskaupstaður Ekkert gjald
Borgarbyggð Ekkert gjald
Stykkishólmsbær
Snæfellsbær Ekkert gjald, engar kvikmyndasýningar
Bolungarvíkurkaupstaður Ekkert gjald, engar kvikmyndasýningar
Ísafjarðarbær Ekkert gjald
Vesturbyggð Ekkert gjald
Siglufjarðarkaupstaður Ekkert gjald
Sauðárkrókskaupstaður
Blönduósbær Ekkert gjald
Akureyrarkaupstaður Ekkert gjald, var lagt á áður en því hætt fyrir mörgum árum
Húsavíkurkaupstaður
Ólafsfjarðarkaupstaður
Dalvíkurbær
Seyðisfjarðarkaupstaður Ekkert gjald
Neskaupstaður
Eskifjarðarkaupstaður
Egilsstaðabær Ekkert gjald
Hornafjarðarbær
Vestmannaeyjakaupstaður
Selfosskaupstaður
Hveragerðisbær Ekkert gjald, engar kvikmyndasýningarFylgiskjal II.


Lög um gjald af kvikmyndasýningum, nr. 28 4. febrúar 1952,
með síðari breytingu.


1. gr.

    Sveitarstjórnum (bæjarstjórnum og hreppsnefndum) er heimilt að leggja sérstakt gjald á kvikmyndasýningar, aðrar en sýningar íslenskra kvikmynda og fræðslukvikmynda.

2. gr.

    Gjaldið má vera allt að 10% af aðgangseyri að kvikmyndasýningum, þegar frá honum hefur verið dreginn álagður skemmtanaskattur, enda séu þá eigendur kvikmyndahúsanna undanþegnir sætagjaldi.


3. gr.

    Gjaldið skal ákvarðað af sveitarstjórn, sem einnig setur nánari reglur um gjalddaga þess og annað, er að innheimtu lýtur.

4. gr.

    Gjaldinu skal varið til menningar- og líknarmála í viðkomandi sveitarfélagi eftir ákvörðun sveitarstjórnar.

5. gr.

    Gjald samkvæmt lögum þessum má innheimta með lögtaki.
    Ef gjaldandi lætur ekki í té upplýsingar, sem skipta máli um innheimtu gjaldsins, skal hann sæta allt að 1.000 króna dagsektum. Brot gegn lögum þessum og reglugerð samkvæmt þeim varða sektum.