Ferill 73. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 73 — 73. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um sérstakt átak í vegagerð í afskekktum landshlutum.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Kristinn H. Gunnarsson.



    Alþingi ályktar að gera skuli sérstakt átak til að ljúka á næstu þremur árum uppbyggingu og lagningu bundins slitlags á vegum sem tengja heila landshluta eða fjölmenn byggðarlög við meginþjóðvegakerfið. Á næstu þremur árum verði varið allt að 2.500 millj. kr. úr ríkis­sjóði til þessa verkefnis, til viðbótar fjármunum af vegáætlun, með það að markmiði að árið 2001 verði allir þéttbýlisstaðir þar sem íbúar eru 100 eða fleiri tengdir þjóðvegakerfi lands­manna með vegum með bundnu slitlagi.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en varð þá ekki útrædd. Þrátt fyrir afgreiðslu veg­áætlunar og mikla skýrslu og áætlanagerð á sviði byggðamála er að óbreyttu langt í land að viðunandi úrlausn fáist á þeim samgönguvandamálum sem tillagan tekur á. Hún er því endurflutt og fylgir upphafleg greinargerð hér á eftir.
    „Ljóst er að enn er mikið verk óunnið í vegamálum hér á landi til að vegakerfið allt kom­ist í nútímalegt horf. Þótt mikið hafi áunnist sl. 20–25 ár, frá því að framlög til vegamála voru aukin verulega upp úr 1970, er enn gífurlegt verk fyrir höndum. Í framtíðinni verður þörf fyrir enn stærri og dýrari mannvirki sökum aukinnar umferðar; það sem þótti gott og fullnægjandi í gær verður orðið úrelt á morgun.
    Einn þáttur vegamála sem heitast brennur á þeim sem við búa er aðstæður þeirra lands­hluta og byggðarlaga sem tengjast þjóðvegakerfi landsmanna með malarvegum. Á korti sem birt er sem fylgiskjal sést að þetta gildir fyrst og fremst um landsvæði á Vestfjörðum og um vestanvert landið og á Norðausturlandi og Austfjörðum. Þar liggja samgönguleiðir til og frá fjölmennum byggðarlögum og jafnvel heilum landshlutum að hluta til eða að miklu leyti um gamla malarvegi með öllu því óhagræði sem fylgir.
    Eftir því sem meginhluti vegakerfisins batnar og akstur á bundnu slitlagi verður regla en ekki undantekning verður erfiðara fyrir þá sem eftir sitja að sætta sig við að nota malar­vegina. Kemur þar margt til. Hvað öryggi varðar eru malarvegirnir að sjálfsögðu lakari á allan hátt og bílstjórar verða æ óvanari að aka á slíkum vegum. Hefðbundinn fjölskyldubíll er fráleitt framleiddur með akstur á malarvegum í huga enda svo komið að margir veigra sér við því að fara út af bundnu slitlagi, jafnvel ferðamenn við góðar aðstæður á björtum sumardegi, svo ekki sé talað um í rigningartíð á haustin þegar vegirnir eru blautir og holótt­ir. Ekki skal gert lítið úr þessum þáttum, öryggismálunum og umferð ferðamanna, en þessar lélegu samgöngur bitna ekki síður á heimamönnum vegna skerts notagildis veganna. Valda því bæði erfiðleikar í vetrarsamgöngum vegna snjóþyngsla, því það er sammerkt malarveg­unum að þeir eru yfirleitt ekki nægilega vel uppbyggðir, og ekki síður það að þessir vegir hafa yfirleitt ekki fullt burðarþol og þungatakmarkanir eru því frekar reglan en undantekn­ingin á vorin.
    Flutningar á landi hafa stóraukist undanfarin ár, m.a. vegna minni sjósamgangna, og flutningatækin gerast æ stærri og afkastameiri en um leið þyngri. Þeim mun fjær eru hinir gömlu malarvegir því að þjóna hlutverki sínu sem fullnægjandi samgönguleiðir fyrir við­komandi byggðarlög og landshluta. Eftir sem áður er umfangsmikil útflutningsstarfsemi stunduð í þessum landshlutum og byggðarlögum, jafnvel framleiðsla á ferskum matvælum til útflutnings reglubundið með flugi. Gefur auga leið að þessar samgöngur eru ekki full­nægjandi fyrir starfsemi af því tagi. Á kortinu (fylgiskjali) sjást vel þeir landshlutar þar sem þetta á sérstaklega við. Lauslega áætlað er verðmæti útflutningsframleiðslu á þessum svæð­um á vestan- og norðaustanverðu landinu 20–30 milljarðar kr. Hluti þessarar framleiðslu fer landleiðina á markað og verulegur hluti allrar neysluvöru og allra almennra flutninga til og frá þessum byggðarlögum og landshlutum fer um vegina. Nokkrar framkvæmdir standa yfir sem lúta að því að stytta leiðir eða byggja upp vegi á þessum landsvæðum og má þar nefna framkvæmdir á leiðinni inn Djúp og einnig á Vesturlandi þótt allt of hægt gangi. Þegar litið er til norðausturhorns landsins, svæðisins frá Húsavík austur um og til Vopnafjarðar, og einnig svæða á Austfjörðum er ljóst að enn hægar miðar og gríðarlega mikið er ógert. Verkefnið er þó ekki stærra en svo að ætla má að verði ríflega veitt til þess­ara verkefna á vegáætlun og til viðbótar allt að 2.500 millj. kr. af fjárlögum á næstu þremur árum, þ.e. 800–900 millj. kr. hvert ár á árunum 1999–2001, megi ljúka þessu verkefni að mestu. Hér yrði um sérstakt framlag að ræða, samgöngu- eða byggðaframlag sem rynni til þess að jafna þann geysilega aðstöðumun sem felst í því að hluti þjóðarinnar býr enn við hinar frumstæðu malarvegasamgöngur.
    Nauðsyn þess að ráðast í þetta verkefni og ljúka því ætti í raun að vera augljós en benda má á að uppbygging í samgöngumálum verður væntanlega hér eftir sem hingað til þrotlaust verkefni. Nýir tímar og ný tækni krefjast nýrra lausna, stærri og dýrari mannvirkja. Kröfur um framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu munu aukast og miklir fjármunir fara til mislægra gatnamóta og aðskildra margra akreina brauta (hraðbrauta) sem byggðar eru samkvæmt nú­tímastöðlum. Þess verður og án efa ekki langt að bíða að gerðar verði háværar kröfur til þess að mikilvægustu kaflarnir á þjóðvegi 1 verði endurbyggðir og þá miðað við mun hærri gæðastaðal en gert var á sínum tíma. Elstu kaflar þess hluta þjóðvegakerfisins sem lagðir eru bundnu slitlagi, þeir kaflar sem fyrst voru byggðir upp, standa þegar í dag langt að baki þeim sem nýjastir eru. Ef ekki næst að ljúka því að tengja öll helstu byggðarlög og lands­hluta þjóðvegakerfinu með bundnu slitlagi á allra næstu árum mun þrýstingur aukast á að fjármunir renni í stórauknum mæli til annarra verkefna. Þau byggðarlög og svæði sem hér um ræðir eiga jafnframt í vök að verjast hvað byggðaþróun snertir og er óþarfi að fjölyrða um þau mál. Sá stuðningur sem raunhæfastur er og kemur að mestu gagni er fólginn í því að bæta aðstæður fólks, ekki síst hvað samgöngur varðar. Þá skal því ekki gleymt að þjóðin nýtur þrátt fyrir allt mikillar verðmætasköpunar og útflutningsframleiðslu á þessum svæð­um þar sem einmitt er lagður grunnur að mun hærra hlutfalli gjaldeyristekna á hvern íbúa en að meðaltali í landinu.“



Fylgiskjal.


Bundið slitlag í árslok 1996.


(Strikuð og rúðustrikuð svæði sýna þau byggðarlög og landshluta
sem tengjast meginþjóðvegakerfinu með malarvegum.)

(1 kort, myndað)