Ferill 76. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 76 — 76. mál.



Frumvarp til laga



um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum og bann við umferð kjarnorku­knúinna farartækja.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Guðmundur Árni Stefánsson,


Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir,


Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson.



1. gr.


    Lög þessi gera Ísland að friðlýstu svæði þar sem bannað er að koma fyrir, staðsetja eða geyma, flytja um eða meðhöndla á nokkurn annan hátt kjarnorku- eða eiturefnavopn. Umferð kjarnorkuknúinna farartækja er bönnuð á hinu friðlýsta svæði og einnig flutningur eða losun kjarnakleyfra efna og kjarnorkuúrgangs.

2. gr.


    Markmið laga þessara er að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorku- og eiturefnavopna­laust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, draga úr hættunni á kjarnorku- og eiturefnaóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu.

3. gr.


    Í lögum þessum merkir „kjarnorkuvopn“ hvers kyns vopn eða sprengju þar sem kjarnorka er leyst úr læðingi við notkun hvort sem það er samsett eða ósamsett að nokkru eða öllu leyti, en tekur ekki til flutningstækja eða útbúnaðar sem koma á sprengjunni eða vopninu í skot­mark ef tækið eða búnaðinn má skilja frá sprengjunni eða vopninu.
    „Eiturefnavopn“ merkir vopn sem byggist á notkun skaðlegra efna eða efnasambanda, þar með talið lífefnaeitur, skaðlegar örverur eða líffræðilegir orsakavaldar.
    Í heiti laganna, og annars staðar þar sem annað kemur ekki fram, merkir „Ísland“ íslenskt land, landhelgi, lofthelgi, efnahagslögsögu og landgrunn og allt íslenskt yfirráðasvæði sam­kvæmt lögum, þjóðarétti og ýtrustu fullveldisréttindum í og á landi, á og yfir hafsbotni, í sjó og ofan sjávar og í lofti.
    Hið „friðlýsta svæði“ merkir í lögum þessum allt íslenskt yfirráðasvæði sem lýst er í þess­ari grein þar sem geymsla, framleiðsla, tilraunir og hvers kyns meðhöndlun eða flutningur kjarnorku- og eiturefnavopna er bannaður, sbr. þó ákvæði 12. gr.

4. gr.


    Enginn íslenskur ríkisborgari eða maður sem hefur varanlegt dvalarleyfi á Íslandi, erlend­ur ríkisborgari sem er í þjónustu íslenska ríkisins eða dvelst innan hins friðlýsta íslenska svæðis má
     1.     búa til kjarnorkuvopn af neinu tagi, afla sér slíks vopns eða hafa það undir höndum;
     2.     veita aðstoð, hjálp eða atbeina til þess að nokkur búi til, afli sér eða hafi undir höndum kjarnorkuvopn af neinu tagi.

5. gr.


    Bannað er innan hins friðlýsta svæðis að koma fyrir kjarnorkuvopnum af neinu tagi, geyma eða staðsetja þar slík vopn eða meðhöndla þau á nokkurn annan hátt.

6. gr.


    Bannað er að flytja kjarnorkuvopn um hið friðlýsta svæði, sbr. þó ákvæði 12. gr.

7. gr.


    Allar tilraunir með kjarnorkuvopn eða tilraunir, sem tengjast notkun kjarnorkuvopna, eru óheimilar innan hins friðlýsta svæðis.

8. gr.


    Bannað er að búa til eiturefnavopn af nokkru tagi innan hins friðlýsta svæðis, koma fyrir, geyma eða staðsetja þar slík vopn eða meðhöndla þau á nokkurn hátt.

9. gr.


    Bannað er að flytja eiturefnavopn um hið friðlýsta svæði, sbr. þó ákvæði 12. gr.

10. gr.


    Sérhverju því farartæki, sem að einhverju eða öllu leyti er knúið kjarnorku, er bannað að koma inn á hið friðlýsta svæði, sbr. þó ákvæði 12. gr.

11. gr.


    Öll umferð farartækja, sem flytja kjarnakleyf efni eða kjarnorkuúrgang, er bönnuð innan hins friðlýsta svæðis, sbr. þó ákvæði 12. gr.
    Losun kjarnorkuúrgangs eða annarra geislavirkra efna hvort sem þau teljast hágeislavirk eða lággeislavirk, þar með taldir geislavirkir vökvar, er með öllu óheimil innan hins friðlýsta svæðis.

12. gr.


    Þrátt fyrir ákvæði 6., 9., 10. og fyrri málsgreinar 11. gr. þessara laga er heimilt að veita undanþágu fyrir friðsamlega umferð eða gegnumferð farartækja án óþarfa viðdvalar í eða á sjó eða í lofti á alþjóðlegum leiðum að því marki sem nauðsynlegt er til að fullnægja alþjóð­legum skuldbindingum. Slíkar undanþágur geta þó aldrei tekið til svæðisins innan 12 sjó­mílna marka og lofthelginnar þar upp af.

13. gr.


    Aldrei skal leyfa komu kafbáta, herskipa eða herloftfara inn fyrir 12 sjómílna land- eða lofthelgi eða heimsóknir slíkra farartækja til íslenskra hafna eða flugvalla nema óyggjandi teljist að í því felist ekki brot á friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum sam­kvæmt lögum þessum. Íslensk yfirvöld skulu í vafatilfellum ætíð leita bestu fáanlegra upplýs­inga óháðra aðila, sem völ er á, til að byggja á ákvörðun sína og ríkisstjórn og Alþingi skulu hafa náið samráð sín í milli þegar taka þarf slíkar ákvarðanir.

14. gr.


    Íslensk yfirvöld skulu leita með bindandi samningum, grundvölluðum á alþjóðarétti við einstök ríki, samtök ríkja og alþjóðastofnanir, eins víðtækrar alþjóðlegrar viðurkenningar á hinu friðlýsta svæði og kostur er. Skal eftir því leitað að slíkar viðurkenningar feli í sér yfirlýsingar um að hið friðlýsta svæði sé virt og viðurkennt. Einnig skulu yfirvöld leita viður­kenningar á rétti Íslands til að fylgjast með eða láta fylgjast með hinu friðlýsta svæði og til að refsa fyrir eða mótmæla eftir atvikum brotum á friðlýsingu þessari.

15. gr.


    Hver sá, sem sekur er fundinn um alvarlegt brot gegn ákvæðum laga þessara, skal sæta fangelsisvist allt að tíu árum.

16. gr.


    Framkvæmd laga þessara heyrir undir og er á ábyrgð utanríkisráðherra, en hafa skal hann samráð við Alþingi og utanríkismálanefnd Alþingis um allar meiri háttar ákvarðanir er tengj­ast framkvæmdinni, sbr. 24. gr. laga nr. 55/1991. Heimilt er utanríkisráðherra að fela sam­gönguráðherra, umhverfisráðherra eða öðrum ráðherrum, sem aðstæður kunna að mæla með, að fara með einstaka hluta framkvæmdarinnar í samráði við sig.

17. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2000.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er nú flutt á Alþingi í sjötta sinn, óbreytt ásamt eldri greinargerðum, enda efnið í fullu gildi.
    „Frumvarp þetta hefur fjórum sinnum áður verið flutt á Alþingi, síðast á 120. löggjafar­þingi, en ekki orðið útrætt. Efni þess er í fullu gildi og þróun í alþjóðamálum er með þeim hætti að auðvelda ætti framgang þess. Má þar nefna framlengingu samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna (NPT) og niðurstöðu Genfarviðræðna um algert bann við tilraun­um með kjarnorkuvopn.
    Með þeim samningum og þróun í afvopnunarmálum eykst gildi friðlýstra svæða jafnframt. Þannig er t.d. friðlýsing Afríku nú komin á dagskrá. Frakkar lofa bót og betrun í Kyrrahafinu, hafa hætt kjarnorkutilraunum á svæðinu og hyggjast staðfesta og virða Rarotonga-samning­inn. Sú mikla mótmælaalda sem reis um allan heim í kjölfar þess að Frakkar hófu að nýju til­raunasprengingar er til marks um vaxandi andúð almennings víða um heim á öllum kjarn­orkuvígbúnaði. Ríkur vilji er til þess að banna alla frekari þróun kjarnorkuvígbúnaðar og stöðva allar tilraunir á því sviði. En jafnvel þótt þróunin sé í rétta átt hvað kjarnorkuvígbúnað­inn snertir stafar áfram mikil hætta af nýtingu kjarnorku á öðrum sviðum. Á það bæði við um nýtingu kjarnorku til raforkuframleiðslu, geymslu eða endurvinnslu kjarnorkuúrgangs og alla flutninga geislavirkra efna í því sambandi, og síðast en ekki síst umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Það er því engu minni ástæða nú en verið hefur fyrir Íslendinga sem eiga allt sitt undir nýtingu lífrænna auðlinda hafsins að taka af skarið og friðlýsa land sitt.
    Rétt er að geta þess að lítils háttar breytingar hafa verið gerðar á tveimur greinum frum­varpsins frá upprunalegri gerð. Er þar annars vegar um að ræða orðalag 12. gr. og hins vegar efni 16. gr. þar sem nú er valin sú leið að láta málið heyra undir utanríkisráðherra, enda mun ábyrgðin á að afla slíkri friðlýsingu viðurkenningar fyrst og fremst hvíla á hans herðum. Að öðru leyti vísast til eldri greinargerða:
    „Þrátt fyrir að miklir atburðir hafi orðið í afvopnunarmálum og alþjóðastjórnmálum síðan það var samið og flutt í fyrsta sinn á 109. löggjafarþingi veturinn 1986–1987 hefur það í engu tapað mikilvægi sínu. Þvert á móti auðveldar tvímælalaust sú jákvæða þróun sem orðið hefur í samskiptum herveldanna samhliða breytingum í Austur-Evrópu og einnig hinir víðtæku af­vopnunarsamningar Íslendingum að ganga á undan með góðu fordæmi eins og hér er lagt til. Því ber að fagna að nú er betra lag en nokkru sinni fyrr til að festa í sessi þá afstöðu að afvopn­un verði að taka til hafsvæðanna ekki síður en til lands og lofts. Nýjustu fréttir um einhliða ákvarðanir stórveldanna um stórfelldan niðurskurð kjarnorkuvopna ættu að sannfæra þá sem enn kynnu að hafa efasemdir um að aðgerð af því tagi að friðlýsa Ísland fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum er raunhæft og tímabært skref af okkar hálfu í takt við þróun mála umhverf­is okkur.
    Í tilkynningu Bush, forseta Bandaríkjanna, frá 27. september sl. felst m.a. að Bandaríkja­menn ákveða einhliða að taka úr umferð og eyða öllum kjarnorkuvígvallarvopnum og taka úr umferð meðaldræg kjarnorkuvopn um borð í skipum og kafbátum, sem og sprengjur flug­véla í flugmóðurskipum, og að sprengjuflugvélar sem bera kjarnorkuvopn verða teknar úr viðbragðsstöðu og svo mætti áfram telja.
    Svar Gorbatsjovs 5. október sl. er á líkum nótum. Rétt er einnig að hafa í huga START-samningana um fækkun langdrægra kjarnorkuvopna, samning um takmörkun hefðbundinna vopna og herafla í Evrópu og yfirstandandi viðræður og umleitanir á mismunandi stigum um framlengingu samnings um bann við frekari útbreiðslu kjarnorkuvopna, um tilraunabann og um útrýmingu efnavopna og sýklavopna svo nokkuð sé nefnt. Því verður ekki á móti mælt að það er meira en tímabært að við Íslendingar tökum nú til umfjöllunar hvernig við getum af okkar hálfu lagt þessari jákvæðu þróun mála lið og verið þar í fararbroddi. Annað sæmir ekki þeirri þjóð sem gjarnan hrósar sér af því að vera vopnlaus og friðelskandi.
    Það er skoðun flutningsmanna að með aðgerðum af því tagi sem frumvarp þetta gerir ráð fyrir væri í senn með afdráttarlausum hætti staðfestur í löggjöf landsins vilji okkar til að tryggja frið, öryggi og varðveislu auðlinda á okkar slóðum og sýnt af Íslands hálfu kjarkmikið fordæmi í anda þeirra stóratburða í afvopnunarmálum og alþjóðasamskiptum sem varðað hafa veginn sl. mánuði og ár.
    Frumvarpinu fylgdi á sínum tíma þegar það var endurflutt á 110. löggjafarþingi svohljóð­andi greinargerð:
    Frumvarp þetta var flutt á síðasta þingi en varð þá ekki útrætt og er því endurflutt. Sú breyting hefur verið gerð að bætt hefur verið inn í frumvarpið einni grein, 11. gr., sem fjallar um sérstakt bann við flutningi eða losun geislavirkra efna innan hins friðlýsta svæðis. Þar sem eitt meginmarkmið laga um friðlýsingu Íslands yrði að draga úr hættunni á kjarnorku- og eiturefnaóhöppum á og í grennd við landið þótti eðlilegt að taka inn í frumvarpið slík ákvæði.
    Ísland er að vísu aðili að svonefndum Lundúnasamningi um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna en sá samningur er ekki afdráttarlaus hvað t.d. lággeislavirkan úr­gang varðar, auk þess sem ekkert er því til fyrirstöðu að við setjum okkur sjálf strangari reglur í eigin lögsögu. Sjálfsagt er að Íslendingar, sem eiga lífsafkomu sína undir auðlindum hafs­ins, gangi á undan með góðu fordæmi í þessum efnum.
    Síðan frumvarpið var samið og lagt fram sl. vetur hefur það gerst að frumvarp til laga um kjarnorkuvopnalaust Nýja-Sjáland var samþykkt sem lög á þinginu í Wellington. Lögin tóku hins vegar næsta litlum breytingum frá upphaflega frumvarpinu og þykir því ekki ástæða til að láta þýða lögin í sinni endanlegu mynd en látið duga að prenta nýsjálenska frumvarpið sem fylgiskjal eins og áður.
    Að öðru leyti getur greinargerð sú, sem fylgdi frumvarpinu á síðasta þingi, staðið án at­hugasemda. Hún er svohljóðandi:
    Frumvarp þetta er lagt fram til kynningar og til að hefja umræður um hvernig staðið skuli að því að festa í lög þá yfirlýstu stefnu Alþingis og ríkisstjórna að hér skuli ekki geymd kjarn­orkuvopn. Rétt þótti að láta sambærilegt bann við eiturefnavopnum fylgja með í lögunum.
    Það er eðlileg, lýðræðisleg krafa að sú yfirlýsta stefna, að hér skuli ekki geymd kjarnorkuvopn, verði bundin í lögum landsins. Í framhaldi af slíkri lagasetningu hlýtur að koma til skoðunar að taka upp almenn ákvæði þar að lútandi í stjórnarskrá. Með þeim hætti væri vilji bæði Alþingis og þjóðarinnar allrar tryggður að baki friðlýsingar landsins.
    Við samningu frumvarpsins hefur verið stuðst við frumvarp um kjarnorkuvopnalaust Nýja-Sjáland sem er til umfjöllunar á þingi þeirra Nýsjálendinga í Wellington, lagt fram af forsætisráðherra landsins, David Lange. Einnig var tekið mið af hugmyndum sem settar hafa verið fram um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum.
    Frumvarp þetta á enn fremur í öllum meginatriðum að vera í samræmi við ákvæði um önn­ur kjarnorkuvopnalaus svæði eða friðlýst svæði, svo sem Tlatelolco-samninginn um kjarn­orkuvopnalaust svæði í Suður-Ameríku, Rarotonga-samninginn um kjarnorkuvopnalaust svæði í Suður-Kyrrahafi og stöðu þessara mála á alþjóðavettvangi, sbr. lokakafla ályktunar frá afvopnunarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 1978, sjá fylgiskjöl.
    Höfundur telur rétt að nokkur tími sé til stefnu frá því að frumvarp þetta verður að lögum og þar til lögin taka gildi. Þann tíma þarf að nota m.a. til að afla svæðinu viðurkenningar, und­irbúa eftirlit og annað sem að framkvæmdinni lýtur.
         Enginn vafi er á því að lagasetning af þessu tagi um kjarnorku- og eiturefnavopnafriðlýs­ingu væri stórt framlag og hvatning af Íslands hálfu til afvopnunar og friðarviðleitni í heimin­um. Ótvírætt væri gildi þess fyrir framþróun hugmynda um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum ef Íslendingar tækju fyrir sitt leyti af skarið með kjarnorkufriðlýsingu lands­ins. Verulegur skriður hefur verið á umræðum og mótun hugmynda um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd upp á síðkastið en því miður virðist svo sem framlag íslenskra yfirvalda hingað til hafi fyrst og fremst orðið það að tefja fyrir málinu. Hér er lagt til að bragarbót verði gerð í því efni í samræmi við ótvíræðan vilja þjóðarinnar ef marka má kannanir. Að sjálfsögðu mundi svo hið friðlýsta íslenska svæði ganga inn í væntanlegt kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum og verða hluti af því hvað varðaði samninga um viðurkenningu, eftirlit og alla framkvæmd.
    Hér er einnig um stórt umhverfismál að ræða og fyllilega tímabært að við Íslendingar tök­um af meiri alvöru á þeirri ógn sem okkur og heiminum öllum stafar af kjarnorkuvopnum og kjarnorkuknúnum farartækjum, kjarnorkuúrgangi, eiturefnum o.s.frv.
    Sjálfsagður liður í þessu er að banna með öllu siglingar eða umferð kjarnorkuknúinna far­artækja upp að landinu.
    Skylt er að geta þess að þessu máli og öðrum hliðstæðum hefur verið hreyft áður á Alþingi. Að minnsta kosti fjórum sinnum hefur verið flutt tillaga til þingsályktunar um bann við geymslu og notkun kjarnorkuvopna á íslensku yfirráðasvæði. Í öll skiptin hefur þar verið um að ræða tillögur að ályktunum um að fela ríkisstjórninni að undirbúa löggjöf. Fyrst var slík tillaga flutt af Svövu Jakobsdóttur og Magnúsi Torfa Ólafssyni á 97. löggjafarþingi, síðan af Svövu einni á 100. löggjafarþingi og svipuð tillaga af Guðrúnu Helgadóttur o.fl. á 102. og 107. löggjafarþingi. Einnig hafa verið fluttar margs konar tillögur sem efninu tengjast, svo sem um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, afvopnun á Norður-Atlantshafi o.fl., en hér er eftir því sem best er vitað málið í fyrsta sinn komið í frumvarpsbúning.
    Um skýringar að öðru leyti vísast til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins, fylgiskjöl og í framsöguræðu. Einnig má benda á rit öryggismálanefndar (rit 3) um kjarnorku­vopnalaus svæði eftir Þórð Ingva Guðmundsson, en það er að því leyti ófullnægjandi að það er orðið nokkurra ára gamalt (1982) en þróun þessara mála hefur verið hröð upp á síðkastið.“

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. laganna er megintilgangur þeirra skýrður nánar en fram kemur í heiti frumvarpsins.

Um 2. gr.


    Þessi lagagrein fjallar um markmið laganna og þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


    Hér er vikið að skilgreiningum eða merkingu orða að svo miklu leyti sem slíkt var talið nauðsynlegt.
    Hugtakið kjarnorkuvopn er hér skilgreint á sama hátt og í flestum hliðstæðum tilfellum, þ.e. þegar verið er að fjalla um eða ákveða hvað skuli teljast „kjarnorkuvopn“ við skilgrein­ingu hugtaka í sambandi við kjarnorkuvopnalaus svæði, sbr. fylgiskjöl.
    Eiturefnavopn eru hér nánast í sinni víðustu merkingu látin ná yfir öll skaðleg efni eða efnasambönd sem nota á sem vopn til að skaða fólk, mannvirki eða náttúru. Innifalin eru í þessari skilgreiningu lífefnavopn, en um þau gilda alþjóðlegir samningar um bann við þróun, framleiðslu og uppsöfnun sýklavopna (líffræðilegra vopna) og vopna er nýta lífefnaeitur, og um eyðingu slíkra vopna, frá 10. apríl 1972. Að öðru leyti yrði að afla hinni víðtæku íslensku skilgreiningu sérstaklega viðurkenningar.
    Ákvæði um „íslenskt yfirráðasvæði“ og hið „friðlýsta svæði“ skýra sig í raun sjálf. Flutn­ingsmenn telja eðlilegt að friðlýsingin nái til alls þess svæðis sem ýtrustu kröfur Íslands, á grundvelli þjóðaréttar og fullveldisréttar, ná til, sjá einkum lög um landhelgi, efnahagslög­sögu og landgrunn, nr. 41/1979, og hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna, einkum V. hluta, 55.–57. gr., og VI. hluta, 76. gr.

Um 4.–7. gr.


    Í 4.–7. gr. eru tíundaðar kvaðir sem fylgja hinu friðlýsta svæði. Þar eru í öllum aðalatriðum á ferðinni atriði sem Íslendingar hafa þegar undirgengist með fullgildingu samningsins um að dreifa ekki kjarnorkuvopnum, sjá fskj. II, 1. og 2. gr., og samninga um tilraunabann og bann við staðsetningu kjarnorkuvopna á hafsbotni (undirritaður fyrir Íslands hönd 11. febr. 1971). Hér eru hins vegar persónulega lagðar kvaðir á alla íslenska ríkisborgara og erlenda menn í þjónustu ríkisins eða sem dvelja innan svæðisins. Þannig er kjarnorku- og eiturefna­vopnabannið í senn bundið ríkinu sem samanstendur af borgurunum, íslensku yfirráðasvæði og öllum íslenskum ríkisborgurum sem einstaklingum, hvar og hvenær sem er. Að öðru leyti vísast til fylgiskjals um skýringar.

Um 8.–9. gr.


    Í 8.–9. gr. er lagt hliðstætt bann við umsýslan með eiturefnavopn innan hins friðlýsta svæðis og á við um kjarnorkuvopn. Sjá einnig skilgreiningu á hugtakinu „eiturefnavopn“ í athugasemdum um 3. gr.

Um 10. gr.


    Í 10. gr. eru skýr fyrirmæli um að kjarnorkuknúin farartæki megi ekki koma inn á hið frið­lýsta svæði nema ferð þeirra falli undir ákvæði 12. gr.

Um 11. gr.


    Rétt þykir að taka af öll tvímæli af Íslands hálfu um að losun geislavirks úrgangs eða geislavirkra efna í íslenskri lögsögu er bönnuð hverjum sem er. Í reynd má segja að slíkt bann sé þegar að flestu leyti í gildi með lögum nr. 20/1972, lögum um bann við losun hættulegra efna í sjó, einnig með aðild Íslands að alþjóðasamningum, einkum samningnum um varnir gegn mengun sjávar vegna losunar úrgangsefna frá skipum og flugvélum, sjá lög nr. 20/1973, og samningnum um varnir gegn mengun hafsins vegna losunar úrgangsefna og annarra efna í það (Lundúnasamningurinn LDZ), sjá lög nr. 53/1973. Flutningar með slík efni skulu lúta sömu takmörkunum og umferð vígvéla og kjarnorkuknúinna farartækja eru sett, en óhjá­kvæmilegt er að hafa sambærileg ákvæði um rétt til friðsamlegrar umferðar í þessu tilviki, sbr. 23. gr. hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna.

Um 12. gr.


    Óhjákvæmilegt er að hafa heimildir til að veita undanþágur vegna alþjóðlegs réttar og skuldbindinga Íslands, en gert er ráð fyrir að einungis bein umferð eða gegnumferð, án óþarfa viðdvalar á alþjóðlegum leiðum, geti verið undanþegin ákvæðum 6., 9., 10. og fyrri máls­greinar 11. gr. og þó aldrei nær landi en að 12 mílna mörkum. Við samningu þessarar greinar var höfð hliðsjón af ákvæðum í frumvarpinu um kjarnorkuvopnalaust Nýja-Sjáland, en þetta frumvarp gengur lengra og heimilar engar undanþágur gagnvart íslensku innsævi, íslensku landhelginni (innan 12 mílna marka) og loftrýmisins þar yfir. Frumvarpið byggir því á ýtrustu kröfum um rétt okkar Íslendinga til að friðlýsa án undantekninga land okkar, landhelgi og lofthelgi þar yfir og til að friðlýsa eftir því sem fært er með tilliti til alþjóðlegrar umferðar efnahagslögsöguna alla, landgrunnið og önnur svæði sem talist geta íslensk yfirráða- eða áhrifasvæði. Að öðru leyti vísast til alþjóðlegs réttar og skuldbindinga Íslendinga á sviði sam­göngumála, sérstaklega hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna.

Um 13. gr.


    Hér er það skýrt tekið fram að stjórnvöldum sé óheimilt að gefa undanþágur frá ákvæðum um hið friðlýsta svæði, jafnt þó um friðsamlegar heimsóknir sé að ræða. Komi upp vafaatriði í þessu sambandi skal ætíð aflað bestu fáanlegra upplýsinga og ríkisstjórn og Alþingi skulu hafa náið samráð um allar ákvarðanir í slíkum tilfellum. Hafa má til hliðsjónar ákvæði samn­inga risaveldanna um takmörkun kjarnorkuvígbúnaðar, svo sem SALT-samningana, um hvenær farartæki eða stöðvar eru skilgreind sem búin kjarnorkuvopnum.

Um 14. gr.


    Greinin leggur þá skyldu á herðar stjórnvöldum að afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar eins og gert hefur verið í hliðstæðum tilfellum (sjá fylgiskjöl) og samþykktir Sameinuðu þjóðanna og fleiri alþjóðlegra aðila gera ráð fyrir.

Um 15. gr.


    Greinin fjallar um refsiákvæði og er hliðstæð ákvæðinu í nýsjálenska frumvarpinu.

Um 16. gr.


    Eðlilegt þykir að framkvæmd laganna heyri undir utanríkisráðherra en honum sé heimilt að fá aðra ráðherra til aðstoðar við sig ef aðstæður mæla með. Náið samráð skal vera milli utanríkisráðherra og Alþingis um framkvæmdina. Í fyrri útgáfum frumvarpsins var tekið mið af nýsjálenska fyrirkomulaginu og framkvæmdin látin heyra undir forsætisráðherra en hér er horfið frá því eins og áður sagði. Ekki er ólíklegt að framkvæmd málsins verði falin fleiri en einum ráðherra, auðvitað fyrst og fremst utanríkisráðherra en einnig samgönguráðherra og e.t.v. umhverfisráðherra. Æskilegt væri að þingnefnd tæki afstöðu til þessara kosta.

Um 17. gr.


    Rétt þykir að nokkur tími gefist frá samþykkt laganna til gildistöku þannig að undirbúa megi framkvæmdina sem best.

Fylgiskjal I.


David Lange:


KJARNORKUVOPNALAUST NÝJA-SJÁLAND, AFVOPNUN OG


TAKMÖRKUN VÍGBÚNAÐAR


Frumvarp til laga


er gera skal Nýja-Sjáland að kjarnorkuvopnalausu svæði, stuðla að virku og raunhæfu fram­lagi Nýja-Sjálands í þágu þeirrar nauðsynjar að afvopnun fari fram og komið verði á alþjóð­legri takmörkun vígbúnaðar og láta eftirtalda þjóðréttarsamninga koma til framkvæmda að því er Nýja-Sjáland varðar:
     a.     samning um kjarnorkuvopnalaust svæði á Suður-Kyrrahafi frá 6. ágúst 1985, en texti hans fylgir lögum þessum sem fskj. 1,
     b.     samning um bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn í gufuhvolfinu, himingeimnum og neðan sjávar frá 5. ágúst 1963, en texti hans fylgir lögum þessum sem fskj. 2,
     c.     samning um að dreifa ekki kjarnavopnum frá 1. júlí 1968, en texti hans fylgir lögum þessum sem fskj. 3,
     d.     alþjóðasamning um bann við staðsetningu kjarnorkuvopna og annarra gereyðingarvopna á sjávarbotni og í honum frá 11. febrúar 1971, en texti hans fylgir lögum þessum sem fskj. 4,
     e.     alþjóðasamning um bann við þróun, framleiðslu og uppsöfnun sýklavopna (líffræðilegra vopna) og vopna er nýta lífefnaeitur, og um eyðingu slíkra vopna frá 10. apríl 1972, en texti hans fylgir lögum þessum sem fskj. 5,

ER HÉR MEÐ LÖGFEST á þjóðþingi Nýja-Sjálands, háðu á löggjafarþingi og í valdi þess, svo sem hér greinir:

1. Stytt heiti.
    Til laga þessara má vísa sem laga um kjarnorkuvopnalaust Nýja-Sjáland, afvopnun og tak­mörkun vígbúnaðar, frá 1985.

2. Skýringar.
    Í lögum þessum, komi ekki annað fram af samhengi,

merkir „líffræðilegt vopn“ sérhverjar örverur, líffræðilega orsakavalda eða lífefnaeitur, sem ætlaðar eru eða ætlað er til nota sem vopn í hernaðarátökum, eða til að valda óvinum skaða með öðrum hætti, þar með talinn búnaður sem gerður er til að auðvelda slík not,

tekur „neyð“ m.a. til óviðráðanlegra atvika (force majeure), neyðarástands og sérstaklega slæmra veðurskilyrða,

merkir „erlent herloftfar“ sérhvert loftfar, svo sem skilgreint er í 2. gr. laga um hervarnir frá 1971, sem á þeim tíma, er um ræðir, er í þjónustu eða undir stjórn hernaðaryfirvalda nokkurs annars ríkis en Nýja-Sjálands eða lýtur valdboði þeirra,

merkir „erlent herskip“ sérhvert skip, svo sem skilgreint er í 2. gr. laga um hervarnir frá 1971, sem
     a.     tilheyrir her annars ríkis en Nýja-Sjálands og
     b.     ber ytri auðkenni skipa af þjóðerni þess ríkis og
     c.     lýtur stjórn foringja sem réttilega er skipaður af stjórnvöldum þess ríkis og
     d.     er mannað áhöfn undir venjulegum heraga,

vísar „innsævi Nýja-Sjálands“ til skilgreiningar þess í lögum um landhelgi og sérefnahags­lögsögu frá 1977,

merkir „kjarnorkusprengja“ sérhvert kjarnorkuvopn eða aðra sprengju sem leyst getur kjarn­orku úr læðingi án tillits til til hvers hún kynni að vera notuð hvort sem hún er ósamsett eða samsett að nokkru eða að öllu leyti, en tekur ekki til flutningatækis eða útbúnaðar sem koma á sprengjunni eða vopninu í skotmark ef tækið eða búnaðinn má skilja frá sprengjunni eða vopninu,

merkir „ferð“ stöðuga og tafarlausa siglingu án þess að stöðvað sé eða akkerum varpað, nema slíkt tilheyri venjulegri siglingu eða sé nauðsynlegt í neyð eða til að veita mönnum, skipum eða loftförum aðstoð í neyð,

vísar „landhelgi Nýja-Sjálands“ til skilgreiningar hennar í 3. gr. laga um landhelgi og sér­efnahagslögsögu frá 1977.

3. Ákvæði um skuldbindingu konungsvaldsins.
    Lög þessi skuldbinda konungsvaldið.

4. Hið kjarnorkuvopnalausa svæði Nýja-Sjálands.
    Nýja-Sjáland skal vera kjarnorkuvopnalaust svæði, en það tekur til
     a.     alls lands, landsvæðis og innsævis innan nýsjálenskrar lögsögu og
     b.     áa og vatna á Nýja-Sjálandi og
     c.     landhelgi Nýja-Sjálands og
     d.     loftrýmis yfir svæðum þeim sem um getur í a–c-liðum þessarar greinar.

Bann varðandi kjarnorkusprengjur og líffræðileg vopn.


5. Bann við öflun kjarnorkusprengja.
    1. Innan hins kjarnorkuvopnalausa svæðis Nýja-Sjálands má enginn nýsjálenskur ríkis­borgari eða maður, sem að jafnaði dvelst á Nýja-Sjálandi,
     a.     búa til kjarnorkusprengju af nokkru tagi, afla sér slíkrar sprengju eða hafa hana í vörslum eða umráðum eða
     b.     veita aðstoð, hjálp eða atbeina til þess að nokkur búi til, afli sér eða fái í vörslur eða umráð yfir kjarnorkusprengju af nokkru tagi.
    2. Utan hins kjarnorkuvopnalausa svæðis Nýja-Sjálands má enginn nýsjálenskur ríkis­borgari eða maður, sem að jafnaði dvelst á Nýja-Sjálandi og er í þjónustu konungsvaldsins eða er umboðsmaður þess,
     a.     búa til kjarnorkusprengju af nokkru tagi, afla sér slíkrar sprengju eða hafa hana í vörslum eða umráðum,
     b.     veita aðstoð, hjálp eða atbeina til þess að nokkur búi til, afli sér eða fái í vörslur eða umráð yfir kjarnorkusprengju af nokkru tagi.

6. Bann við staðsetningu kjarnorkusprengja.
    Bannað er að koma fyrir kjarnorkusprengju af nokkru tagi innan hins kjarnorkuvopnalausa svæðis Nýja-Sjálands, staðsetja þar slíka sprengju, flytja hana um land, ár eða vötn eða safna slíkum sprengjum eða dreifa þeim.

7. Bann við tilraunum með kjarnorkusprengjur.
    Bannað er að gera tilraun með kjarnorkusprengju af nokkru tagi innan hins kjarnorku­vopnalausa svæðis Nýja-Sjálands.

8. Bann við líffræðilegum vopnum.
    Bannað er að búa til líffræðilegt vopn af nokkru tagi innan hins kjarnorkuvopnalausa svæðis Nýja-Sjálands, koma slíku vopni fyrir eða staðsetja það þar, afla þess eða hafa það í vörslum eða umráðum.

9. Sigling inn á innsævi Nýja-Sjálands.
    1. Þegar forsætisráðherra hefur til athugunar hvort veita skuli erlendum herskipum heim­ild til siglingar inn á innsævi Nýja-Sjálands skal hann taka tillit til allra upplýsinga sem völ er á og málið snerta, og allrar tiltækrar ráðgjafar, einnig upplýsinga og ráðgjafar varðandi hernaðar- og öryggishagsmuni Nýja-Sjálands.
    2. Forsætisráðherra skal aðeins heimila erlendum herskipum för inn á innsævi Nýja-Sjá­lands ef hann telur víst að þau muni ekki bera kjarnorkusprengju af nokkru tagi er þau koma inn á innsævi Nýja-Sjálands.

10. Lending loftfars á Nýja-Sjálandi.
    1. Þegar forsætisráðherra hefur til athugunar hvort veita skuli erlendu herloftfari heimild til lendingar á Nýja-Sjálandi skal hann taka tillit til allra upplýsinga sem völ er á og málið snerta og allrar tiltækrar ráðgjafar, einnig upplýsinga og ráðgjafar varðandi hernaðar- og ör­yggishagsmuni Nýja-Sjálands.
    2. Forsætisráðherra skal aðeins heimila erlendu herloftfari lendingu á Nýja-Sjálandi ef hann telur víst að það muni ekki bera kjarnorkusprengju af nokkru tagi er það lendir á Nýja-Sjálandi.
    3. Slíka heimild má binda tegund eða flokki herloftfara og veita til þess tíma er heimildin tiltekur.

11. Koma kjarnorkuknúinna skipa.
    Sérhverju því skipi, sem að nokkru eða öllu leyti er kjarnorkuknúið, er bönnuð sigling inn á innsævi Nýja-Sjálands.

Takmarkanir.


12. Ferð um landhelgi og sund.
    Lög þessi skulu á engan hátt skerða
     a.     heimild nokkurs skips til friðsamlegrar ferðar um nýsjálenska landhelgi að alþjóðalögum,
     b.     heimild nokkurs skips eða loftfars að alþjóðalögum til gegnumferðar um eða yfir sund sem notað er til alþjóðlegra siglinga eða
     c.     rétt nokkurs skips eða loftfars í neyð.

13. Friðhelgi.
    Lög þessi skulu á engan hátt skerða friðhelgi
     a.     nokkurs erlends herskips eða annars ríkisskips sem gert er út til annars en kaupsiglinga,
     b.     nokkurs erlends herloftfars eða
     c.     áhafnar skips eða loftfars sem a- eða b-liðir þessarar greinar eiga við um.

Refsiákvæði.


14. Afbrot og refsingar.
    1. Það er afbrot ef nokkur brýtur gegn eða lætur undir höfuð leggjast að hlíta ákvæðum greina 5 til 8 í lögum þessum.
    2. Hver sá, sem sakfelldur er af ákæru um afbrot samkvæmt lögum þessum, skal sæta fang­elsi allt að 10 árum.

15. Samþykki ríkissaksóknara til höfðunar refsimáls.
    1. Enginn skal sæta kæru fyrir
     a.     afbrot samkvæmt lögum þessum,
     b.     refsivert samsæri um að fremja afbrot samkvæmt lögum þessum eða
     c.     refsiverða tilraun til þess að fremja afbrot samkvæmt lögum þessum,
        nema samþykki ríkissaksóknara komi til.
     Nú hefur maður verið sakaður um eitthvert það afbrot sem um getur í grein þessari og heimilt er að handtaka hann eða kveða upp og framkvæma úrskurð um handtöku hans og er þá einnig heimilt að úrskurða hann í gæsluvarðhald eða krefjast tryggingar gegn því að hann sé látinn laus enda þótt samþykki ríkissaksóknara til kæru sé ófengið, en ekki skal grípa til annarra eða frekari ráðstafana gegn honum fyrr en samþykkið er fengið.
    2. Ríkissaksóknari getur aflað sér þeirra upplýsinga sem hann telur þörf á áður en hann veitir samþykki sitt samkvæmt þessari grein.

Opinber ráðgjafarnefnd um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar.


16. Stofnun opinberrar ráðgjafarnefndar um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar.
    Skipuð skal nefnd er heiti opinber ráðgjafarnefnd um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar.

17. Starfssvið og heimildir nefndarinnar.
    1. Starfssvið nefndarinnar skal vera
     a.     að veita aðstoðarutanríkisráðherra þá ráðgjöf um mál er afvopnun og takmörkun vígbúnaðar varða er hún telur þörf á,
     b.     að skýra forsætisráðherra frá framkvæmd laga þessara,
     c.     að birta opinberlega með hæfilegu millibili skýrslur um mál er varða afvopnun og takmörkun vígbúnaðar og um framkvæmd laga þessara.
    2. Nefndinni skulu veittar allar heimildir sem nauðsynlegar eru eða þörf er á til að hún geti sinnt skyldum sínum.

18. Um nefndarmenn.
    1. Í nefndinni eiga sæti sjö menn og
     a.     skal einn þeirra vera ráðherra afvopnunarmála og mála er varða takmörkun vígbúnaðar og er hann jafnframt formaður,
     b.     skal einn þeirra vera utanríkisráðherra eða annar forstöðumaður utanríkisráðuneytisins sem tilnefndur sé til ákveðins tíma af utanríkisráðherra,

     c.     skal einn þeirra vera varnarmálaráðherra eða annar forstöðumaður varnarmálaráðuneytisins sem tilnefndur sé til ákveðins tíma af varnarmálaráðherra,
     d.     skulu fjórir þeirra tilnefndir af aðstoðarutanríkisráðherra.
    2. Aðstoðarutanríkisráðherra ræður hve lengi nefndarmenn þeir, sem um getur í d-lið 1. mgr., eigi sæti í nefndinni.
    3. Þótt nefndin sé ekki fullskipuð skal það engin áhrif hafa á störf hennar og heimildir.

19. Starfsreglur nefndarinnar.
    Nefndin skal fara að starfsreglum sem aðstoðarutanríkisráðherra kann að setja henni en ákveður að öðru leyti sjálf með hverjum hætti hún starfar.

20. Þóknun og ferðakostnaður.
    1. Nefndin er lögskipuð nefnd í merkingu laga um þóknun og ferðakostnað frá 1951.
    2. Greiða skal nefndarmönnum nefndarlaun og framlög og ferðafé og ferðakostnað af fé sem löggjafarþingið veitir í því skyni samkvæmt lögum um þóknun og ferðakostnað frá 1951 og gilda ákvæði þeirra laga um nefndina.

21. Um fjárveitingar löggjafarþingsins vegna laga þessara.
    Öll þóknun, laun, framlög og önnur útgjöld, sem á falla eða stofnað er til við framkvæmd laga þessara, skal greiða af fé sem löggjafarþingið veitir í því skyni.

Breytingar á öðrum lögum.


22. Breytingar á lögum um mengun sjávar frá 1974.
    1. Lögum um mengun sjávar frá 1974 er hér með breytt þannig að á eftir 21. gr. þeirra eins og hún var lögfest með 4. gr. laga um breytingu á lögum um mengun sjávar frá 1980 komi ný grein, svohljóðandi:
     „21A. Refsiákvæði varðandi losun geislavirkra úrgangsefna.
     1.     Þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessara skulu þeir menn sæta refsingu sem taldir eru í 2. mgr. þessarar greinar ef
                   a.     nokkur geislavirk úrgangsefni eru tekin um borð í skip eða loftfar á Nýja-Sjálandi eða á nýsjálensku hafsvæði í því skyni að losa þau í sjó,
                   b.     nokkur geislavirk úrgangsefni eru losuð á nýsjálensku hafsvæði frá skipi eða loftfari sem þessi kafli laga þessara tekur til,
                   c.     nokkur geislavirk úrgangsefni eru losuð í sjó frá mannvirki undan ströndum, botnföstum eða fljótandi palli eða öðru mannvirki sem þessi kafli laga þessara tekur til,
                   d.     nokkur geislavirk úrgangsefni eru losuð í sjó utan nýsjálensks hafsvæðis frá nýsjálensku skipi, skipi í innanlandssiglingum, eða nýsjálensku loftfari.
     2.     Menn þeir, sem refsiábyrgð bera skv. 1. mgr. þessarar greinar, eru:
                   a.     eigandi skips og skipstjóri eða eigandi loftfars og umráðamaður, eftir því sem við á, enda taki a-, b- eða d-liðir þeirrar málsgreinar til brotsins,
                   b.     eigandi botnfasta pallsins, flotpallsins eða mannvirkisins, eftir því sem við á, og stjórnandi þeirrar starfsemi sem þar fer fram, enda taki c-liður þeirrar málsgreinar til brotsins.
     3.     Með geislavirkum úrgangsefnum er í grein þessari átt við alls kyns efni án tillits til flokks eða ástands hverju nafni sem þau nefnast ef geislavirkni á kílógramm fer fram úr 100 kílóbekerel og heildargeislavirkni fer fram úr 3 kílóbekerel.
     4.     Hver sá sem refsiábyrgð ber samkvæmt grein þessari
                   a.     skal sæta allt að 100.000 dala sekt og skal kviðdómsmeðferð ekki viðhöfð og
                   b.     skal einnig greiða þá fjárhæð er dómstóll metur með hliðsjón af áföllnum eða fyrirsjáanlegum kostnaði við að fjarlægja, hreinsa upp eða gera óskaðleg þau úrgangsefni sem brotið var framið með.
     5.     Ákvæði b-, c- og d-liða 1. mgr. 22. gr. og a-liðar 2. mgr. 22. gr. laga þessara skulu ekki að neinu leyti ná til losunar geislavirkra úrgangsefna.“
    2. Á eftir 6. mgr. 22. gr. B í lögum um mengun sjávar frá 1974, eins og hún var lögfest með 4. gr. laga um breytingu á lögum um mengun sjávar frá 1980, komi ný málsgrein svohljóð­andi:
    „6A. Þrátt fyrir önnur ákvæði laga þessara skal enga heimild veita til losunar geislavirkra úrgangsefna, svo sem þau eru skilgreind í 3. mgr. 21. gr. A í lögum þessum.“

23. Breyting á lögum um fríðindi og friðhelgi erlendra sendimanna frá 1968.
    Lögum um fríðindi og friðhelgi erlendra sendimanna frá 1968 er hér með breytt, þannig að á eftir 10. gr. þeirra komi ný grein svohljóðandi:
     „10A. Fríðindi og friðhelgi alþjóðlegra eftirlitsmanna er starfa samkvæmt alþjóðasamningum um afvopnun.
     Landstjóri getur með ríkisráðstilskipun veitt mönnum, sem skipaðir hafa verið eftirlits­menn samkvæmt alþjóðasamningi um afvopnun eða takmörkun vígbúnaðar, einhver eða öll þau fríðindi sem um getur í fskj. 3 með lögum þessum eða einhverja eða alla þá friðhelgi sem þar greinir til ákveðins tíma.“

24. Breyting á lögum um upplýsingaskyldu stjórnvalda frá 1982.
    Lögum um upplýsingaskyldu stjórnvalda frá 1982 er hér með breytt þannig að á eftir liðn­um um fosfatnefnd Nýja-Sjálands í fskj. 1 með þeim lögum komi eftirfarandi liður:
    „Opinber ráðgjafarnefnd um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar.“

Fylgiskjal II.


(5 síður myndaðar, Athugið pdf-skjalið. bls. 14–18)







Fylgiskjal III.


(12 síður myndaðar, Athugið pdf-skjalið. bls. 18–29)







Fylgiskjal IV.


Samningur um bann við kjarnorkuvopnum í rómönsku Ameríku.


(Tlatelolco-samningurinn árið 1967.)



    Samningsaðilar skuldbinda sig til að banna og fyrirbyggja, hver á sínu yfirráðasvæði, eftir­farandi:
     a.     tilraunir, notkun, smíði eða öflun með nokkrum hætti á hvers kyns kjarnorkuvopnum, hvorki fyrir eigin hönd eða annars, beint eða óbeint; og
     b.     móttöku, geymslu, uppsetningu eða hvers konar eignaraðild að kjarnorkuvopnum, beint eða óbeint.
    Aðilar skuldbinda sig einnig til að ráðast hvorki í né efla, leyfa, eða á nokkurn hátt taka þátt í tilraunum, notkun, smíði, öflun eða yfirráðum yfir hvers kyns kjarnorkuvopnum.
    Stofnun sem beri nafnið „Eftirlitsstofnun með banni við kjarnorkuvopnum í rómönsku Ameríku“ skal bera ábyrgð á eftirliti með að ákvæði samningsins séu haldin og skal hún halda fundi með aðildarríkjum á tveggja ára fresti eða þegar þörf gerist. Höfuðstöðvar stofnunar­innar skulu vera í Mexíkóborg.
    Stofnunin skal hafa allsherjarráð, stjórnarnefnd og ritaraembætti. Allsherjarráðið skal halda fund á tveggja ára fresti og álykta um öll mál er varða samninginn. Stjórnarnefndin skal skipuð fimm mönnum, kosnum af allsherjarráði, og skal hún starfa óslitið.
    Sérhver samningsaðili skal ganga til samninga við Alþjóðakjarnorkumálastofnunina (IAEA) um að taka upp eftirlitskerfi þeirrar stofnunar með kjarnorkumálum sínum. Hann skal skila skýrslum á tveggja ára fresti bæði til eftirlitsstofnunarinnar og til IAEA þar sem staðfest er að ekkert það sem stríðir gegn ákvæðum samningsins hafi átt sér stað á yfirráðasvæði hans.
    Aðalritara er heimilt að fara fram á nánari upplýsingar um öll atvik og atriði er varða samninginn og ber að veita honum tafarlausa fyrirgreiðslu.
    IAEA og stjórnarnefndin skulu hafa vald til að gera sérstakar kannanir, hinir fyrrnefndu í samræmi við samkomulag sem þeir hafa gert við hvern aðila fyrir sig en stjórnarnefndin
     a.     þegar fram á slíkt er farið af hálfu einhvers aðila sem hefur grun um að einhverjar framkvæmdir, sem brjóta í bága við samninginn, hafi átt sér stað eða séu í þann veginn að eiga sér stað á yfirráðasvæði annars aðila eða annars staðar á vegum hins síðarnefnda að­ila eða
     b.     þegar farið er fram á slíkt af hálfu aðila sem sakaður er um að hafa brotið gegn ákvæðum samningsins.
    Samningsaðilar, sem hyggjast sprengja kjarnorkusprengju í friðsamlegum tilgangi, skulu tilkynna það eftirlitsstofnuninni og IAEA með eins löngum fyrirvara og aðstæður krefja. Tæknilegum fulltrúum stjórnarnefndar eftirlitsstofnunarinnar og IAEA er þá heimilt að fylgj­ast með öllum undirbúningi og eiga greiðan aðgang að svæðinu.
    Verði uppvíst um brot á samningnum skal allsherjarráðið skila skýrslu samtímis til örygg­isráðs Sameinuðu þjóðanna, til aðalritara Sameinuðu þjóðanna, til stjórnarnefndar Samtaka Ameríkuríkja og til IAEA.
    Öllum þjóðum rómönsku Ameríku, svo og öðrum fullvalda þjóðum sem liggja í heild sinni sunnan 35. gráðu norður á vesturhveli jarðar, er heimilt að undirrita samninginn.
    Undirritendur geta við staðfestingu samningsins sett fram skilyrði (t.d. um að önnur ríki staðfesti samninginn) sem þurfi að mæta áður en þeir telji sig bundna af samningnum.
    Samningurinn skal gilda um ótakmarkaðan tíma, en þó er sérhverjum samningsaðila heim­ilt að segja upp samningnum með þriggja mánaða fyrirvara til aðalritara enda telji viðkomandi aðili að þær aðstæður hafi komið til eða séu í þann veginn að koma til er varða brýnustu hagsmuni hans.
    Framkvæmd samningsins skal frestað af hálfu allra samningsaðila komi til nýtt veldi er ráði yfir kjarnorkuvopnum.
    Samningnum fylgja tveir hliðarsamningar (protocol).
    Í hliðarsamningi I samþykkja Bretland og Holland að framfylgja þeim ákvæðum samn­ingsins er lúta að banni við kjarnorkuvopnum á þeim svæðum sem eru á ábyrgð þeirra (t.d. á Falklandseyjum). Samþykktin felur í sér skuldbindingar gagnvart IAEA en ekki gagnvart eftirlitsstofnuninni.
    Í hliðarsamningi II gera Bandaríkin og fleiri aðilar með sér samning um að beita ekki kjarnorkuvopnum gegn nokkrum öðrum aðila að samningnum né heldur hóta beitingu slíkra vopna. Bandaríkin áskilja sér óskoraðan lagalegan rétt til að veita eða neita aðilum utan samningsins um yfirferðarleyfi og flutningsleyfi. Bandaríkin mundu og skoða árás af hálfu samningsríkis með stuðningi kjarnorkuveldis sem brot á ákvæðum samningsins.
    Bandaríkin líta svo á að sú tækni að beita kjarnorkusprengingum í friðsamlegum tilgangi sé óaðgreinanleg frá þeirri tækni að framleiða kjarnorkuvopn. Þau leggja því þann skilning í skilgreiningu samningsins á kjarnorkuvopnum að hún nái til hvers kyns tækja sem nota má til að framleiða kjarnorku.


Fylgiskjal V.


Samanburður á skuldbindingum um takmörkun vopna í


Rarotonga-samningnum og Tlatelolco-samningnum.


(Jozef Goldblat og Sverre Lodgaard.)



    Rarotonga-samningurinn frá 1985, þar sem lýst er yfir kjarnorkuvopnalausu svæði á Suð­ur-Kyrrahafi, er að nokkru leyti sniðinn eftir Tlatelolco-samningnum frá 1967 sem bannar kjarnorkuvopn í rómönsku Ameríku. Samanburður á þessum tveimur samningum er því bæði gagnlegur og fróðlegur.
    Að sumu leyti virðist sem Rarotonga-samningurinn sé yfirgripsmeiri en Tlatelolco-samn­ingurinn; hinn síðarnefndi leyfir sprengingu kjarnorkusprengja í friðsamlegum tilgangi en hinn fyrrnefndi bannar tilraunir með hvers konar kjarnorkubúnað. Í raun eru þau skilyrði sem tengjast viðkomandi grein í Tlatelolco-samningnum þó túlkuð á þann veg af flestum þjóðum að þau banni framleiðslu kjarnorkusprengibúnaðar í friðsamlegum tilgangi nema hannaður verði kjarnorkubúnaður sem ekki er hægt að nota sem vopn en slíkt er ólíklegt að verði nokkurn tíma.
    Ólíkt Tlatelolco-samningnum bannar Rarotonga-samningurinn alla losun kjarnorkuúr­gangs og annars geislavirks efnis á hafi úti; þessi ráðstöfun heyrir þó undir þann lagabálk er fjallar um umhverfisvernd fremur en um takmörkun vopna.
    Á hinn bóginn er svæðið í rómönsku Ameríku mun stærra en Suður-Kyrrahafssvæðið. Enda þótt því sé haldið fram að með Rarotonga-samningnum myndist kjarnorkuvopnalaust svæði er nái að mörkum kjarnorkuvopnalauss svæðis rómönsku Ameríku í austri og að kjarn­orkuvopnalausa svæðinu á Suðurskautslandi í suðri þá bannar samningurinn aðeins kjarn­orkuvopn á sjálfum yfirráðasvæðum Suður-Kyrrahafslanda út að tólf mílna landhelgismörk­um. Í samningnum er engin tilraun gerð til þess að láta kjarnorkuvopnabannið ná til stærra hafsvæðis hvorki með milliríkjasamþykktum né með öðrum hætti. Svæði það, sem Tlatelolco-samningurinn mundi taka til að uppfylltum nokkrum skilyrðum, mundi hins vegar ná til stórra svæða Atlantshafs og Kyrrahafs, hundruð kílómetra út af ströndum rómönsku Amer­íku auk yfirráðasvæða viðkomandi landa. Skilyrðin, sem raunar hafa flest öll verið uppfyllt, eru eftirfarandi: aðild allra ríkja á svæðinu að samningnum; samþykki við viðbótarákvæði af hálfu allra ríkja sem heimild hafa til að undirrita þau; og gerð samninga um eftirlit við Al­þjóðakjarnorkumálastofnunina, IAEA. Alþjóðalög um frelsi á úthöfum stóðu ekki í vegi fyrir kjarnorkuvopnabanni á hafi úti í Tlatelolco-samningnum. Engin ástæða virðist vera til þess að ætla að þau hefðu komið í veg fyrir sams konar höft í Rarotonga-samningnum eða a.m.k. beiðni til kjarnorkuvelda um að taka sjálfviljug á sig slík höft í sérsamkomulagi.
    Hvers kyns skuldbinding sem fullvalda ríki tekur á sig um takmörkun vopna felur í sér ein­hvers konar skerðingu á frelsi sem sama ríki naut áður og hafið er hér engin undantekning. Raunar hafa öll kjarnorkuveldin skuldbundið sig til að virða lög um afvopnun rómönsku Am­eríku eins og hún er „afmörkuð“ í samningnum, þ.e. að meðtöldum svæðum á hafi úti. Auk þess hefur samningurinn frá 1971 um bann við staðsetningu kjarnorkuvopna á hafsbotni hlot­ið samþykki allra helstu kjarnorkuveldanna.
    Báðir samningar gera í sérstökum hliðarsamningi ráð fyrir skuldbindingum sem kjarn­orkuveldin taki á sig um að beita ekki kjarnorkuvopnum né hóta beitingu þeirra gegn aðilum samningsins. Í Tlatelolco-samningnum, sem samþykktur var fyrir rúmlega 19 árum, var full þörf á slíkum ákvæðum. Þeim virðist þó ofaukið í Rarotonga-samningnum þar sem öll kjarn­orkuveldin hafa nú einhliða og formlega heitið því að beita ekki kjarnorkuvopnum. Kína tók á sig þá skuldbindingu „skilyrðislaust“ að beita ekki kjarnorkuvopnum og hóta ekki beitingu þeirra gegn ríkjum sem ekki ráða yfir kjarnorkuvopnum eða gegn kjarnorkuvopnalausum svæðum. Sovétríkin gáfu einnig út formlega yfirlýsingu um að þau mundu aldrei beita kjarn­orkuvopnum gegn ríkjum sem hætt hefðu framleiðslu og öflun slíkra vopna og geymdu ekki slík vopn á yfirráðasvæðum sínum. Vestrænu kjarnorkuveldin, Bandaríkin, Bretland og Frakkland, sem hétu formlega að beita ekki kjarnorkuvopnum gegn kjarnorkuvopnalausum ríkjum er hefðu skuldbundið sig á alþjóðavettvangi til að afla sér ekki slíkra vopna, settu það skilyrði að kjarnorkuvopnalaus ríki tækju ekki þátt í árásaraðgerðum gegn þeim eða banda­mönnum þeirra í bandalagi með öðru kjarnorkuveldi. Þetta skilyrði ætti þó ekki að valda ríkj­um Suður-Kyrrahafssvæðisins neinum vanda þegar mið er tekið af stjórnmálalegri stöðu þeirra þjóða. Engu að síður gæti það haft öfug áhrif að fara fram á það við kjarnorkuveldin að þau staðfesti á ný heit sín í marghliða, alþjóðlegri og lögfestri samþykkt fremur en að vísa til gildandi skuldbindinga sem ríkin hafa þegar tekið á sig sjálfviljug. Sérstaklega kynnu Sov­étríkin að færast undan að undirrita viðbótarákvæði við aðalsamning sem lögfestir fjarskipta- og eftirlitskerfi Bandaríkjamanna á Kyrrahafi sem er hluti af kjarnorkuhernaðarkerfi þeirra þar og leyfir viðdvöl flughers- og flotadeilda sem búnar eru kjarnorkuvopnum, ekki síst þar sem fjöldi og lengd slíkra viðdvala hefur ekki verið takmörkuð.
    Það er rétt að aðilar að Tlatelolco-samningnum telja það á eigin valdi að veita leyfi eða synja leyfis til flutninga kjarnorkuvopna um yfirráðasvæði sín. En við staðfestingu viðeigandi hliðarsamnings gáfu Sovétríkin út yfirlýsingu (sem jafngilti fyrirvara) um að leyfisveiting til hvers konar flutninga á kjarnorkuvopnum samræmdist ekki stöðu aðilanna sem kjarnorkuvopnalauss ríkis. Ólíklegt er að Sovétríkin mundu taka aðra afstöðu til Kyrrahafssvæðisins sem hefur meira hernaðarlegt gildi fyrir þau en rómanska Ameríka einmitt vegna aukinna umsvifa Bandaríkjamanna þar.
    Þessir annmarkar rýra þó ekki gildi Rarotonga-samningsins sem aðgerðar til að koma í veg fyrir frekari kjarnorkuvæðingu Suður-Kyrrahafssvæðisins og styrkja þar með alheimsátakið til takmörkunar á útbreiðslu kjarnorkuvopna.


Fylgiskjal VI.


Úr lokayfirlýsingu aukaþings Sameinuðu þjóðanna


um afvopnunarmál 1978.


    60. Myndun kjarnorkuvopnalausra svæða á grundvelli frjálsra samninga milli ríkja á við­komandi svæði er mikilvægur þáttur í afvopnun.
    61. Rétt er að styðja myndun slíkra svæða með það endanlega markmið í huga að losa heiminn að fullu við kjarnorkuvopn. Við myndun slíkra svæða skal tekið tillit til sérkenna hvers svæðis. Þau ríki, sem þátt taka í myndun slíkra svæða, ættu að skuldbinda sig til að styðja að fullu markmið, tilgang og grundvallarreglur þeirra samninga eða samkomulaga er miða að stofnun svæðanna og tryggja þar með að þau verði í raun laus við kjarnorkuvopn.
    62. Hvað varðar slík svæði er gert ráð fyrir að kjarnorkuveldin taki á sig vissar skuldbind­ingar sem samið skal um við lögmæt yfirvöld á svæðinu, einkum:
     a.     að virða að fullu stöðu hins kjarnorkuvopnalausa svæðis;
     b.     að virða bann við beitingu eða hótunum um beitingu kjarnorkuvopna gegn ríkjum á svæðinu.
    63. Með tilliti til ríkjandi aðstæðna hverju sinni og án þess að það rýri gildi annarra ráð­stafana sem til greina koma á öðrum svæðum eru eftirfarandi ákvæði sérlega æskileg:
     a.     Viðurkenning allra viðkomandi ríkja á þeim ákvæðum er tryggja fullt gildi samningsins um bann við kjarnorkuvopnum í rómönsku Ameríku (Tlatelolco-samningsins) með sér­stöku tilliti til þeirra skoðana sem fram komu á tíundu ráðstefnunni um framfylgd samn­ingsins.
     b.     Undirritun og samþykki á viðbótarákvæðum við samninginn um bann við kjarnorkuvopnum í rómönsku Ameríku (Tlatelolco-samninginn) af hálfu þeirra ríkja sem rétt eiga á að gerast aðilar að þeim samningum en hafa ekki gert það.
     c.     Í Afríku, þar sem Einingarsamtök Afríku hafa samþykkt ályktun um kjarnorkuafvopnun svæðisins, skal öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gera viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að þetta markmið verði hindrað.
     d.     Að taka til alvarlegrar athugunar þær þörfu og áríðandi ráðstafanir sem lýst er í málsgreinunum hér að ofan og nauðsynlegar eru til að hrinda í framkvæmd tillögunni um lýs­ingu kjarnorkuvopnalauss svæðis í Miðausturlöndum í samræmi við viðeigandi ályktanir allsherjarþingsins þar sem allir aðilar, sem málið varðar beint, hafa lýst yfir stuðningi sínum við hugmyndina og þar sem hætta er á útbreiðslu kjarnorkuvopna. Myndun kjarn­orkuvopnalauss svæðis í Miðausturlöndum mundi stórlega bæta horfur á alheimsfriði og öryggi. Meðan beðið er eftir stofnun slíks svæðis í þessum heimshluta ættu ríki á svæðinu að lýsa því yfir formlega að þau muni forðast á gagnkvæmum grundvelli að framleiða, afla sér eða á nokkurn annan hátt að eignast kjarnorkuvopn og kjarnorku­sprengibúnað og að heimila staðsetningu kjarnorkuvopna á yfirráðasvæðum sínum af hálfu þriðja aðila og samþykkja að leggja öll sín kjarnorkumál undir eftirlit Alþjóða­kjarnorkumálastofnunarinnar. Taka skal til athugunar að öryggisráðið taki þátt í undir­búningi stofnunar kjarnorkuvopnalauss svæðis í Miðausturlöndum.
     e.     Öll ríki Suður-Asíu hafa lýst yfir þeirri ákvörðun sinni að heimila ekki kjarnorkuvopn í ríkjum sínum. Engar ráðstafanir skyldu gerðar af þeirra hálfu er yrðu til þess að vikið yrði af þeirri braut. Í þessu samhengi hefur spurningin um myndun kjarnorkuvopnalauss svæðis verið afgreidd í ýmsum ályktunum öryggisráðsins en þar er málið enn til umfjöll­unar.

    64. Stofnun friðarsvæða í ýmsum heimshlutum með viðeigandi skilyrðum skilgreindum af viðkomandi ríkjum á svæðinu þar sem tekið er mið af sérkennum svæðisins og grundvall­arhugsjón stofnsamnings Sameinuðu þjóðanna og í samræmi við alþjóðalög getur stuðlað að eflingu öryggis ríkja innan slíkra svæða og að heimsfriði og öryggi. Í þessu sambandi bendir allsherjarráðið á tillögur um stofnun friðarsvæða, m.a.:
     a.     Í Suðaustur-Asíu þar sem ríki á svæðinu hafa lýst áhuga á stofnun slíks svæðis í samræmi við sjónarmið sín.
     b.     Á Indlandshafi með tilliti til umræðna öryggisráðsins og viðeigandi ályktana þess og þeirrar nauðsynjar að tryggja frið og öryggi á svæðinu.
     c.     Að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna er brýnn og óaðskiljanlegur þáttur í viðleitninni til að stöðva vígbúnaðarkapphlaupið og snúa því við. Markmiðið með takmörk­un kjarnorkuvopna er annars vegar að koma í veg fyrir tilkomu fleiri kjarnorkuþjóða í viðbót við kjarnorkuveldin fimm og hins vegar að fækka og loks útrýma kjarnorkuvopn­um að fullu. Þetta felur í sér skuldbindingar og ábyrgð bæði af hálfu kjarnorkuvopnaðra ríkja og ríkja sem ekki ráða yfir kjarnorkuvopnum. Skulu hinir fyrrnefndu leitast við að stöðva vígbúnaðarkapphlaupið með því að hrinda tafarlaust í framkvæmd þeim aðgerð­um sem lýst er í viðeigandi greinum þessarar lokayfirlýsingar en öll ríki skulu beita sér fyrir að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna.
    66. Mögulegt er og skylt að gera ráðstafanir á innanlandsvettvangi sem og á alþjóðavett­vangi til að minnka hættu á útbreiðslu kjarnorkuvopna án þess að stofna í hættu framboði á orku og þróun kjarnorkutækni til friðsamlegra nota. Því skulu kjarnorkuveldin og þau ríki, sem ekki búa yfir kjarnorkuvopnum, leitast við að gera sameiginlegar ráðstafanir til að kom­ast að alþjóðlegu samkomulagi um aðferðir til að stemma stigu við útbreiðslu kjarnorku­vopna.
    67. Full framkvæmd allra atriða þeirra samkomulaga sem til eru um stöðvun á útbreiðslu kjarnorkuvopna, t.d. samningsins um bann við útbreiðslu kjarnorkuvopna og samningsins um bann við kjarnorkuvopnum í rómönsku Ameríku (Tlatelolco-samningurinn), af hálfu þeirra sem aðild eiga að samningunum er mikilvægt framlag til þessarar viðleitni. Fylgi við slíka samninga hefur aukist á síðari árum og sú von hefur verið látin í ljós af hálfu aðila að slíkum samningum að framhald verði á þeirri þróun.
    68. Ráðstafanir, sem gerðar eru til að koma í veg fyrir útbreiðslu kjarnorkuvopna, ættu ekki að skerða fullan rétt þjóða til að framkvæma og þróa áætlanir sínar um friðsamlega notk­un kjarnorku til efnahagslegrar og félagslegrar þróunar í samræmi við hagsmuni sína og þarf­ir. Öll ríki ættu og að eiga aðgang að og hafa fullt frelsi til að afla sér tækniþekkingar, búnaðar og efna til friðsamlegrar notkunar á kjarnorku með sérstöku tilliti til þarfa þróunarríkjanna. Alþjóðleg samvinna á þessu sviði ætti að eiga sér stað undir viðurkenndu alþjóðlegu eftirliti í umsjá Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar án mismununar til að fyrirbyggja útbreiðslu kjarnorkuvopna.
    69. Tekið skal fullt tillit til ákvarðana sérhverrar þjóðar á sviði friðsamlegrar nýtingar kjarnorkuvopna án þess að stofna í hættu orkunýtingarstefnu hvers ríkis fyrir sig eða alþjóð­legri samvinnu, samningum eða verksamningum um friðsamlega nýtingu kjarnorku, enda séu viðhafðar þær varúðarráðstafanir sem getið er um hér að ofan.
    70. Í samræmi við niðurstöður og ákvæði samþykktar allsherjarráðsins nr. 32/50 frá 8. des­ember 1977 skal alþjóðleg samvinna um flutning og nýtingu á kjarnorku til efnahagslegrar og þjóðfélagslegrar þróunar efld, einkum í þróunarlöndum.
    71. Reynt verði að leiða til lykta störf nefndarinnar um nýtingu kjarnorkueldsneytis (Nuclear Fuel Cycle Evaluation) í fullu samræmi við markmið þau sem sett voru fram í loka­yfirlýsingu á stofnþingi nefndarinnar.
    72. Öll ríki skulu halda fast við milliríkjasamþykkt um bann við notkun eiturefna og sýkla í hernaði sem undirritaður var í Genf 17. júní 1925.
    73. Öll ríki, sem ekki eru þegar aðilar að samþykktinni um bann við þróun, framleiðslu og birgðasöfnun gerla- (lífrænna) og eiturefna og um eyðingu þeirra, ættu að íhuga aðild að henni.
    74. Ríki skulu einnig íhuga möguleika á því að gangast inn á marghliða samninga sem þeg­ar hafa verið gerðir um afvopnunarmál og getið er um hér að neðan.
    75. Algert bann við þróun, framleiðslu og birgðasöfnun eiturefnavopna og eyðing slíkra vopna eru meðal brýnustu aðgerða til afvopnunar. Því er gerð milliríkjasamnings í þessu skyni eitt brýnasta verkefnið sem fyrir liggur en umræður um þessi mál hafa nú staðið yfir um nokkurra ára skeið. Að gerðum slíkum milliríkjasamningi skyldu öll ríki stuðla að því að tryggja sem víðtækast gildi samningsins með tímabærri undirritun og gildistöku hans.
    76. Nauðsynlegt er að gera milliríkjasamning er bannar þróun, framleiðslu, birgðasöfnun og notkun geislavopna.