Ferill 104. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 104 — 104. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 88/1995, um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, og lögum nr. 46/1965, um eftirlaun alþingismanna.

Flm.: Pétur H. Blöndal, Árni R. Árnason.



I. KAFLI


Breytingar á lögum nr. 88/1995,


um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað.


1. gr.


    4. gr. laganna fellur brott.

2. gr.


    7. gr. laganna fellur brott.

3. gr.


    8. gr. laganna orðast svo:
    Alþingi greiðir sannanlegan kostnað við ferðir sem alþingismaður fer á vegum þingsins eða vegna starfs síns sem alþingismaður innan lands og til útlanda.

4. gr.


    Síðari málsliður 2. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.

5. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
             Greiða skal 60% biðlaun þegar biðlaun skv. 1. mgr. falla niður. Þau skulu greidd í jafnlangan tíma og full biðlaun voru greidd.
     b.      2. mgr. orðast svo:
             Nú hefur alþingismaður sem nýtur biðlauna skv. 1. eða 2. mgr. tekjur af starfi og skulu þá biðlaunagreiðslur samkvæmt þessari grein falla niður ef tekjurnar sem starf­inu fylgja eru jafnar eða hærri en biðlaunagreiðslur til hans. Ef tekjurnar af starfinu eru lægri skal greiða honum mismuninn.

6. gr.


    14. gr. laganna orðast svo:
    Þingfararkaup skal nema 375.000 kr. á mánuði.
    Árlegt þingfararkaup alþingismanna skal ekki nema hærri fjárhæð en 4.500.000 kr. að frádregnum helmingi þeirra tekna skv. 7. gr. laga nr. 75/1981 sem þeir njóta í starfi fyrir annað en þingmennsku. Aldrei skal þingfararkaup þó vera lægra en 2.250.000 kr. á ári.
    Forsætisnefnd Alþingis ákveður aðrar greiðslur samkvæmt lögum þessum og setur nánari reglur um þær. Upplýsa skal um allar greiðslur vegna einstakra alþingismanna.

7. gr.


    16. gr. laganna fellur brott.

II. KAFLI


Breyting á lögum nr. 46/1965, um eftirlaun alþingismanna.


8. gr.


    3. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
    Eftirlaunin skulu fylgja þingfararkaupi alþingismanns eins og það er á hverjum tíma og vera 60% þess hundraðshluta sem eftirlaunarétturinn skv. 1. mgr. segir til um.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 9. maí 1999.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þingmaður sem átt hefur sæti á Alþingi og tekur sæti á Alþingi að nýju að afloknum al­þingiskosningum 9. maí 1999 getur óskað þess að njóta launakjara samkvæmt lögum nr. 88/1995 eins og þau voru fyrir gildistöku laga þessara. Skulu launakjör hans vera með þeim hætti út kjörtímabil hans. Slík ósk skal koma fram innan tveggja mánaða frá kosningum.

Greinargerð.


    Laun alþingismanna hafa mikið verið til umræðu að undanförnu. Fáar launagreiðslur eru eins mikið í sviðsljósinu og hefur m.a. verið haldinn fjölmennur útifundur gagngert til að hafa áhrif á laun alþingismanna. Þeir sem þar gagnrýndu há laun alþingismanna eru margir hverjir með miklu hærri laun. Enn fremur hefur margt fólk þær ranghugmyndir að alþingis­menn fái alls kyns aukagreiðslur fyrir setu í nefndum þingsins og störf fyrir það erlendis. Reyndar fá varaforsetar Alþingis og formenn þingnefnda 15% álag á þingfararkaupið en að öðru leyti er ekki greitt fyrir nefndastörf þingsins eða störf erlendis sérstaklega.
    Almenningur og lífeyrisþegar tóku á sig miklar kjaraskerðingar þegar syrti í álinn upp úr 1990 með vísan til bágrar stöðu atvinnulífsins og til að viðhalda stöðugleika. Nú hafa laun hækkað umtalsvert og langt umfram hækkun launa í nágrannalöndum okkar. Var ekki vanþörf á. Kjör lífeyrisþega hafa líka batnað en ekki eins mikið. Verkefni næstu ára verður að gera atvinnulífið svo burðugt að það geti staðið undir góðu velferðarkerfi. Sú hækkun þingfararkaups sem hér er lögð til hefur ekkert með þessa þróun að gera eins og rætt verður hér á eftir. Spyrja má þeirrar spurningar hvort þjóðin hafi efni á að greiða hásetum á þessari skútu svo illa að hún verði ekki toppmönnuð.
    Þegar fólk sem starfar t.d. við stjórnun í atvinnulífinu eða hjá hinu opinbera er spurt hvort það vilji gefa kost á sér til starfa á Alþingi fást oft þau svör að það hafi ekki efni á því að fara á þing, það lækki svo mikið í launum. Svo getur fallið til mikill kostnaður við próf­kjör sem hleypur jafnvel á milljónum. Hugsanlega nær fólk svo ekki kjöri. Starfið er mikið í sviðsljósinu sem oft er nokkuð óvægið. Svo hugsa margir til þess hvað taki við þegar þeir hætta á þingi. Fyrirtæki hafa ekki verið áfjáð í að ráða fyrrverandi alþingismenn til starfa.
    Það getur verið mjög skaðlegt fyrir þjóðina ef þessi hópur fólks gefur ekki kost á sér til setu á Alþingi, sérstaklega með hliðsjón af því hvað öll löggjöf er orðin flókin og gerir miklar kröfur til þekkingar og yfirsýnar á þjóðfélaginu og atvinnulífinu sérstaklega. Þess vegna er hér lagt til að hækka þingfararkaupið umtalsvert og bæta biðlaunarétt þeirra al­þingismanna sem ekki fá vinnu strax þegar þeir falla af þingi.
    Komið hefur fram að forsætisráðherra landsins, sem jafnframt er alþingismaður, er með allt að helmingi lægri tekjur en margir forstjórar ríkisfyrirtækja og æðstu embættismenn. Slík staða er illskiljanleg.
    Þingfararkaupið er núna um 220 þús. kr. á mánuði. Ekki er greiddur þrettándi mánuður­inn. Hækkunin verður því 70% fyrir þá alþingismenn sem ekki sinna öðrum störfum jafn­framt þingmennsku. Hækkunin verður miklu minni hjá þeim þingmönnum sem ekki hafa haft þann kostnað sem fastar kostnaðargreiðslur, 25 þús. kr. bifreiðastyrkur og 40 þús. kr. föst kostnaðargreiðsla, eiga að dekka. Reyndar hafa ekki allir alþingismenn tekið við föstu 40 þús. kr. kostnaðargreiðslunni. Hækkunin verður að sjálfsögðu engin hjá þeim þingmönn­um sem falla af þingi.
    Nokkuð eru um fastar greiðslur til að mæta kostnaði. Það er eflaust mjög misjafnt eftir því hvernig alþingismenn kjósa að starfa hvernig þessar greiðslur koma út fyrir einstaka þingmenn. Sumir hafa ekki þennan kostnað, aðrir miklu meiri. Auk bifreiðastyrksins og föstu kostnaðargreiðslunnar eru dagpeningagreiðslur vegna ferða til útlanda nokkuð ríflegar eða 80% af dagpeningum opinberra starfsmanna og hótelgisting er greidd. Þessar föstu greiðslur má eflaust meta til launaauka í mörgum tilfellum. Svo er gerð tilraun til að bæta alþingismönnum utan af landi kostnað við rekstur tveggja heimila. Auk þess eru greidd af­not af heimilissíma og Alþingi sér þingmönnum fyrir heimilistölvu.
    Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að hverfa frá föstum greiðslum en taka upp greiðslu sannanlegs kostnaðar. Þess vegna verður launahækkunin ekki eins mikil og virðist við fyrstu sýn. Ekki er ætlunin að taka á lífeyrismálum alþingismanna en lífeyrisréttur þeirra tekur óverulegum breytingum. Þannig lækkar rétturinn umtalsvert (40%) miðað við hækkað þingfararkaup. Sjálfsagt er að sú þingnefnd sem fær málið til afgreiðslu hugi að því að al­þingismenn njóti almennra lífeyriskjara og núverandi kjör verði metin til launa. Þessi breyt­ing gerir launakjör alþingismanna gagnsærri en því hefur verið haldið fram að launamisrétti sem viðgengst allt of víða og fer vaxandi frekar en hitt sé falið með ógagnsæjum launakjör­um. Sumir fái alls konar aukagreiðslur en aðrir ekki. Breytingin er því liður í því að auka jafnrétti fólks. Þegar litið er á þessa hækkun þingfararkaups ber einnig að hafa í huga að rekstur Alþingis kostar um eina milljón kr. á mánuði fyrir hvern þingmann.
    Frá stofnun Alþingis ákváðu alþingismenn þingfararkaup sitt sjálfir en virtust ekki geta hækkað þau nægilega mikið. Sem lausn á þessum vanda ákvað Alþingi að fela Kjaradómi að annast þessi mál í trausti þess að þannig yrðu launin sanngjörn og eðlileg. Kjaradómur hefur gert tilraun til þess að bæta kjörin en ríkisstjórn og Alþingi hafa séð sig knúin til að ómerkja þá hækkun. Þessu verður að breyta. Alþingi má ekki láta kjör alþingismanna verða svo léleg að þau séu ekki á nokkurn hátt eftirsóknarverð fyrir hæfileikafólk.
    Þessari breytingu er ætlað að taka gildi eftir næstu kosningar og enn er ekki búið að loka fyrir þátttöku í prófkjörum eða stilla upp listum. Því fólki sem finnst þetta há og eftir­sóknarverð laun er því í lófa lagið að sækjast eftir kjöri til Alþingis og ber að fagna því ef mikið og aukið mannval býður sig fram þjóðinni til heilla. Þeir alþingismenn sem styðja þetta frumvarp eru því ekki að skara eld að sinni köku heldur safna glóðum elds að höfði sér því að samkeppni um þingsætin mun væntalega stóraukast.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt 4. gr. núgildandi laga njóta opinberir starfsmenn þeirra forréttinda umfram fólk á almennum vinnumarkaði að halda starfinu í allt að fimm ár og hafa forgang að sam­bærilegri stöðu hjá hinu opinbera í allt að fimm ár í viðbót þegar þeira taka að sér þing­mennsku. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að það er minni áhætta fyrir opinbera starfsmenn að taka að sér þingmennsku og veldur því að það eru frekar opinberir starfsmenn sem sækjast eftir þingmennsku. Það er mjög bagalegt því að allar stéttir þurfa að eiga fulltrúa á Alþingi og mikið vægi opinberra starfsmanna á þingi kann að skekkja afstöðu þess til ríkisrekstrar, sveitarfélaga og borgaranna.
    Í stað þessara forréttinda opinberra starfsmanna er lögð til lenging á biðlaunum til þeirra alþingismanna sem verða atvinnulausir, sbr. 5. gr. frumvarpsins.
    Samkvæmt lauslegri könnun skrifstofu Alþingis mun um helmingur alþingismanna hafa verið opinberir starfsmenn áður en þeir tóku við þingmennsku. Hins vegar eru um 20% kjósenda opinberir starfsmenn.

Um 2.–4. gr.


    Hér er lagt til að reglur um endurgreiðslu kostnaðar við ferðir innan lands og til útlanda lúti samræmdum reglum sem settar verði af forsætisnefnd skv. 14. gr. laganna, sbr. 6. gr. frumvarpsins. Endurgreiðslur skulu vera í samræmi við sannanlegan kostnað en horfið er frá föstum greiðslum sem sætt hafa nokkurri gagnrýni. Sama á við um endurgreiðslu al­menns starfskostnaðar, sbr. 4. gr. frumvarpsins.
    Þessar breytingar hafa einnig í för með sér að dagpeningar falla niður sem föst greiðsla en þess í stað verði greitt samkvæmt reikningum. Þó verður að gera ráð fyrir að smærri greiðslur, eins og fyrir leigubíla, hóflegan mat o.s.frv., þurfi ekki að sanna með reikningum, enda er óeðlilegt að reikna alltaf með að fólk svindli. Núverandi fyrirkomulag dagpeninga er allt of rýmilegt og er í reynd tekjuauki fyrir þá alþingismenn sem fara í ferðir.

Um 5. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að bæta biðlaunarétt þeirra alþingismanna sem eiga í erfiðleikum með að fá vinnu þegar þeir falla út af þingi í samræmi við það sem rætt er um í almennri greinargerð. Alþingismönnum verði tryggt fullt þingfararkaup í þrjá eða sex mánuði, eða 375 þús. kr. á mánuði. Eftir það eru þeim tryggð 60% af þingfararkaupi í jafnlangan tíma eða 225 þús. kr. á mánuði. Laun fyrir önnur störf koma að fullu til frádráttar.

Um 6. gr.


    Hér er gert ráð fyrir að þingfararkaup verði ákveðið með lögum í stað þess að Kjaradóm­ur ákvarði það. Alltaf hefur verið viðkvæmt hver geti ákvarðað þingfararkaup og sú ákvörð­un hefur ætíð verið umdeild. Vegna þrískiptingar ríkisvaldsins er mjög vafasamt að dómur ákvarði laun löggjafarvaldsins. Hins vegar eru alþingismenn í vanda þegar kemur að því að ákvarða eigin laun. Þessi vandi er leystur í þessu frumvarpi með því að það þing sem sit­ur núna ákvarðar laun þess þings sem verður kosið í næstu kosningum. Þennan vanda mætti leysa til frambúðar þannig að hvert þing ákvarði tímanlega laun þess þings sem tekjur við. Þó að eflaust verði margir núverandi alþingismenn endurkjörnir er ekki á vísan að róa í því sambandi. Gert er ráð fyrir að þingfararkaupið verði 375.000 kr. á mánuði eða 4,5 millj. kr. á ári og er þá tekið mið af launum lægri stjórnenda í atvinnulífinu og hjá hinu opinbera.
    Gert er ráð fyrir að 50% af launum þingmanna sem þeir fá fyrir störf utan Alþingis skerði þingfararkaupið en það verði þó aldrei lægra en helmingur óskerts þingfararkaups. Hér er tekið mið af því að þingmennskan er orðin svo umfangsmikil að annað hvort starfið hljóti að líða fyrir hitt nema bæði snúi að sama verki. Því er í öllum tilfellum eðlilegt að skerða þingfararkaupið um allt að helming.
    Óbreytt er ákvæði um að forsætisnefnd Alþingis ákveði aðrar greiðslur samkvæmt lögun­um og setji nánari reglur um þær. Nýmæli er að upplýsa beri um allar greiðslur. Það er í samræmi við vaxandi kröfur um upplýsingar, eyðir tortryggni og eykur aðhald.

Um 7. gr.


    Hér er lagt til að felld verði brott sérstök heimild til að greiðsla þingfararkostnaðar sé framtalsskyld en ekki skattskyld. Rétt er að alþingismenn falli undir skattalögin eins og aðr­ir borgarar.

Um 8. gr.


    Hér er lagt til að breyta grundvelli lífeyrisgreiðslna núverandi og fyrrverandi alþingis­manna þannig að lífeyrisréttur taki ekki hækkunum eins og þingfararkaupið heldur verði grundvöllur lífeyrisgreiðslna skertur um 40%. Lífeyrir miðast við 225 þús. kr. á mánuði en hefur miðast við 220 þús. kr. á mánuði. Hann hækkar því óverulega eða um 2%. Mikil skerðing verður á lífeyri vegna framtíðariðgjalda miðað við hækkuð laun og kann að vera að 10% iðgjaldið gefi tilefni til betri lífeyrisréttar. Það þyrfti að skoða í nefnd.

Um 9. gr.


    Hér er lagt til að lögin taki gildi þegar eftir næstu kosningar.