Ferill 108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 108 —  108. mál.Frumvarp til lagaum heimild fyrir ríkisstjórnina til að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)1. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem samþykktar voru af yfirstjórn sjóðsins 23. septem­ber 1997.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.1. Stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fyrri breytingar á henni.

    Ísland gerðist aðili að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum við stofnun hans samkvæmt lögum nr. 105/1945. Stofnskrá sjóðsins var undirrituð af Íslands hálfu 27. desember 1945, sbr. aug­lýsingu nr. 1/1946. Stofnskráin var fyrst birt sem samningur nr. 54 í ritinu Samningar Íslands við erlend ríki, sbr. auglýsingu nr. 17/1946 í C-deild Stjórnartíðinda.
    Með lögum nr. 82/1968 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd breyt­ingar á og viðauka við stofnskrá sjóðsins. Með þeirri breytingu var m.a. komið á varasjóðs­eigninni SDR við sjóðinn sem úthlutað er til aðildarríkja hans og myndar hluta af gjald­eyrisforða þeirra.
    Með lögum nr. 15/1977 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd breyt­ingu á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Breytingin á stofnskránni var umfangsmikil og staðfesti fráhvarf frá gulltengdu fastgengisfyrirkomulagi áranna eftir stríð. Hún kvað einnig á um að hætt skyldi að nota gull í viðskiptum sjóðsins við aðildarríki sín, formi og umfangi SDR skyldi breytt, heimilt skyldi að stofnsetja sérstakt ráð (council) við sjóðinn og nokkrum skipulagsbreytingum skyldi hrint í framkvæmd. Stofnskráin, með áorðnum breytingum og viðaukum, var birt í heild sem auglýsing nr. 18/1978 í C-deild Stjórnartíðinda.
    Með lögum nr. 104/1990 var ríkisstjórninni heimilað að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem samþykktar voru af yfirstjórn sjóðsins 28. júní 1990. Breytingin á stofnskránni heimilar sjóðnum að svipta aðildarríki atkvæðisrétti tímabundið, brjóti það gegn ákvæðum stofnskrár. Áður gat sjóður­inn einungis svipt aðildarríki réttinum til að nota fjármagn sjóðsins, en að öðrum kosti vísað því úr sjóðnum, bætti það ekki ráð sitt.

2. Tillaga að breytingu á stofnskránni.
    Á vettvangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur á undanförnum árum verið rætt um nýja úthlutun varasjóðseignar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sérstakra dráttarréttinda eða SDR, og er þeim ætlað að koma til viðbótar öðrum varasjóðseignum. SDR er jafnframt greiðslueining Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og er grunnur fyrir greiðslueiningar ýmissa annarra stofnana. Gengi SDR er ákvarðað daglega í samræmi við vog fimm mynta: Bandaríkjadals, þýsks marks, fransks franka, japansks jens og sterlingspunds. Vextir á SDR eru vegið meðaltal innlendra skammtímavaxta í þessum fimm myntum.
    Eitt brýnasta hlutverk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er að stuðla að auknum og jöfnum vexti utanríkisviðskipta í heiminum, en það krefst traustra varasjóðseigna aðildarlanda. Frá því að sérstökum dráttarréttindum var hleypt af stokkunum 1969, hefur Alþjóðagjaldeyrissjóð­urinn sex sinnum úthlutað til aðildarríkjanna samtals 21,4 milljarði SDR. Á tímabilinu 1970–72 var úthlutað samtals 9,3 milljörðum SDR og á árunum 1978–81 var samtals 12,1 milljarði SDR úthlutað til aðildarríkja. Sérstökum dráttarréttindum hefur ekki verið ráð­stafað síðan. Síðasta úthlutun fór fram í byrjun árs 1981 og var þá 4,1 milljarði SDR ráð­stafað til aðildarríkjanna sem þá voru 141 að tölu. Frá þessum tíma hafa um fjörutíu ríki bæst í hóp aðildarríkja sjóðsins. Mörg þeirra eru févana og þau njóta þess ekki í utanríkis­viðskiptum að eiga aðgang að sérstökum dráttarréttindum til jafns við önnur aðildarríki.
    Sérstök dráttarréttindi nema um 1,7% af heildarvarasjóðseignum aðildarlanda öðrum en gulli. Aðildarlönd sjóðsins geta notað SDR í greiðslum sín á milli og gagnvart nokkrum fjölþjóðastofnunum, auk Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sjálfs. Aðildarlönd í greiðsluerfiðleikum geta notað sérstök dráttarréttindi til kaupa á gjaldeyri af öðrum aðildarlöndum, sem tilnefnd hafa verið af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
    Á ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Hong Kong í september 1997 samþykkti yfir­stjórn sjóðsins samhljóða breytingu á stofnskrá um úthlutun sérstakra dráttarréttinda að fjárhæð 21,4 milljarði SDR. Hér er um að ræða tvöföldun á þeirri fjárhæð sérstakra dráttar­réttinda sem úthlutað hefur verið til þessa. Við úthlutunina mun hlutfall sérstakra dráttar­réttinda borið saman við stofnfé verða hið sama fyrir sérhvert aðildarland sjóðsins, eða um 29,3%. Umrædd breyting á stofnskrá haggar ekki gildandi heimild sjóðsins til að gefa út SDR þegar þörf krefur að fullnægðum þeim skilyrðum sem sett eru í því sambandi.
    Stofnskrárbreytingar skal bera undir atkvæði einstakra aðildarríkja. Til að þær öðlist gildi þurfa þrjú af hverjum fimm aðildarríkjum með samtals 85% heildaratkvæðamagns að veita samþykki sitt. Verði þeim skilyrðum fullnægt mun Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn senda aðildarríkjum staðfestingu á stofnskrárbreytingunni að atkvæðagreiðslu lokinni. Stofnskrár­breytingin tekur gildi eigi síðar en þremur mánuðum eftir dagsetningu staðfestingarinnar gagnvart öllum aðildarríkjum sjóðsins, óháð því hvort þau hafi greitt atkvæði með breyt­ingunni eða ekki.
    Úthlutun sérstakra dráttarréttinda til Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nemur nú samtals 16,4 milljónum SDR, eða um 1,6 milljörðum kr. miðað við gengi í byrjun nóvem­ber 1997. Við nýja úthlutun sérstakra dráttarréttinda í samræmi við samþykkt yfirstjórnar sjóðsins mundu tæplega 8,6 milljónir SDR bætast við þá fjárhæð og næmi hún þá samtals um 25 milljónum SDR, eða tæplega 2,5 milljörðum kr. Ný úthlutun bætist við gjaldeyris­varaforða Seðlabanka Íslands sem er fyrir ríkisins hönd fjárhagslegur aðili að Alþjóðagjald­eyrissjóðnum.
Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:Umsögn um frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að
staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á og viðauka við
stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

    Með frumvarpi þessu er leitað heimildar til staðfestingar á breytingu á og viðauka við stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Svo sem segir í athugasemdum með frumvarpinu, felur breytingin m.a. í sér að sjóðnum verði heimilt að úthluta sérstökum dráttarréttindum til viðbótar við þegar orðna úthlutun. Ef af verður mun gjaldeyrisforði Íslands í SDR aukast um 8,6 milljónir SDR (um 820 milljónir króna) og verða samtals 25 milljónir SDR (um 2,4 milljarða króna). Hér er um að ræða úthlutun án endurgjalds og mun því samþykkt frum­varpsins ekki valda kostnaði fyrir ríkissjóð.