Ferill 147. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 147 —  147. mál.



Frumvarp til laga



um breytingar á lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög.

Flm.: Lúðvík Bergvinsson, Ágúst Einarsson,


Einar K. Guðfinnsson, Kristinn H. Gunnarsson.



1. gr.

    1. mgr. 81. gr. laganna orðast svo:
    Hluthafar, sem ráða yfir minnst1/ 10hlutafjár, geta krafist dóms fyrir því að félagi skuli slitið á þeim grundvelli að hluthafar hafi af ásetningi misnotað aðstöðu sína í félaginu eða tekið þátt í brotum á lögum þessum eða samþykktum félagsins.
                   

2. gr.

    Við 2. mgr. 108. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Dómstóll getur að kröfu tjónþola og ef sérstök ástæða er til með hliðsjón af saknæmri hegðun tjónvalds og aðstæðum að öðru leyti skyldað hann til að innleysa hlut tjónþola í félaginu. Við ákvörðun innlausnarverðs skal litið til fjárhagslegrar stöðu félagsins og þess hvað sanngjarnt getur talist með hliðsjón af öllum atvikum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.

    Lög um einkahlutafélög, nr. 138/1994, voru sett að danskri fyrirmynd. Tiltölulega skömmu eftir að lögin öðluðust gildi breyttu Danir sínum lögum. Var sú leið farin í þar í landi að auka frelsi hluthafa til að semja sín á milli. Aðstaðan þar er því sú að hluthafar geta í auknum mæli byggt á öðrum réttarheimildum í lögskiptum sín á milli en lögunum um einkahlutafélög, t.d. reglum samningaréttar eða skaðabótaréttar, svo framarlega sem lögin um einkahlutafélög mæla ekki á annan veg.
    Lög um einkahlutafélög hafa að geyma ýmis úrræði sem hluthafar geta byggt rétt sinn á. Í slíkum tilvikum kann að vera vafi á hvort þau séu talin tæmandi eða hvort hægt sé að beita öðrum réttarreglum, skráðum eða óskráðum. Ef úrræði hluthafa eru talin tæmandi í þeim tilvikum sem lögin taka afstöðu til verður að vanda sérstaklega til lagasetningarinnar. Þessari lagabreytingu er ætlað að sníða af annmarka laganna er varða úrræði sem minni hluti hluthafa hefur við tilteknar aðstæður og er á tæmandi hátt lýst í núgildandi lögum.
    Breytingarnar sem lagðar eru til byggjast að mestu á þeim reglum er giltu í dönskum rétti fram til 1. júní 1996. Flutningsmönnum þykir ekki tímabært að feta strax í fótspor Dana og auka samningafrelsi milli hluthafa, nema að fenginni reynslu af einkahlutafélagaforminu, en þá mun væntanlega þurfa að koma til allsherjarendurskoðunar á lögunum.

Um 1. gr.

    Samkvæmt 1. mgr. 81. gr. núgildandi laga um einkahlutafélög þarf krafa um slit á félagi að koma frá hluthöfum er ráða yfir a.m.k. 1/ 5 hlutafjár. Hér er lagt til að breytt verði hve miklu hlutafé hluthafar þurfi að ráða yfir til að heimilt sé að krefjast slita. Breytingunni er í engu ætlað að hafa áhrif á þau ströngu skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi að öðru leyti til þess að krafan nái fram að ganga.
    Tilgangur 81. gr. núgildandi laga er að tryggja minnihlutavernd, einkum þegar hluthöf­um standa engin önnur virk úrræði til boða samkvæmt lögunum. Minnihlutaverndinni er ætlað að koma á eðlilegu jafnvægi milli hagsmuna meiri hluta og minni hluta, og getur þannig m.a. stuðlað að aukinni eftispurn eftir hlutafé, óháð hlutfalli þess af heildarhlutafé félags. Telja verður að sjónarmið um minnihlutavernd eigi sérstaklega rétt á sér í löggjöf um einkahlutafélög þar sem oft er um að ræða fáa hluthafa og því frekar hætta á að meiri­hlutavaldi, sem oft er í hendi eins hluthafa, sé misbeitt. Þrátt fyrir að lögin um einkahlutafé­lög nefni minnihlutavernd ekki sérstaklega er augljóst að víða er byggt á henni, sbr. t.d. 18., 60., 69. og 70. gr. og 2. mgr. 76. gr.
    Í tengslum við 81. gr. núgildandi laga er rétt að hafa hliðsjón af 18. gr., sem byggist á sjónarmiðum um minnihlutavernd, en samkvæmt henni getur hver einstakur í minni hluta hluthafa krafist innlausnar hjá hluthafa sem á meira en 9/ 10 hlutafjár og fer með samsvarandi magn atkvæða. Lagagreinarnar eiga það sammerkt að hluthafi getur losnað úr félagi, þó við mismunandi aðstæður, auk þess sem þær byggjast á áðurnefndum sjónarmiðum um minnihutavernd. Er af þessum sökum nauðsynlegt að líta til efnis 18. gr. við breytingu á 81. gr.
    Það vekur athygli við samanburð á 18. og 81. gr. að við tiltekna hlutafjáreign getur hlut­hafi hvorki krafist innlausnar né slita á félagi, þrátt fyrir að vera í minni hluta. Sem dæmi má nefna mann sem á 17% í einkahlutafélagi og kemst að því að annar hluthafi hefur af ásettu ráði misnotað aðstöðu sína í félaginu. Vegna þessa vill hann selja hlut sinn. Aðrir hluthafar vilja ekki kaupa hlut hans né neinn utanaðkomandi. Eina úrræðið, sem honum er tækt í þessu tilviki samkvæmt núgildandi lögum, er málshöfðun á grundvelli 2. mgr. 108. gr., þ.e. skaðabótamál gegn þeim er misnotaði aðstöðu sína. Slík málshöfðun kann þó að vera óheppileg, m.a. vegna þess að áframhaldandi samstarf innan félagsins getur reynst erfitt. Hluthafa gæti einnig reynst erfitt að sanna tjón sitt. Þá má jafnframt gera því skóna að félagið yrði enn síður álitlegur kostur fyrir fjárfesta og jafnvel viðskiptavini (viðskipta­vild tapast), enda ekki tilhlökkunarefni að skipta við félag þar sem eigendur eiga í deilum sín á milli. Þetta á sérstaklega við um smærri fyrirtæki þar sem hluthafar eru oft í stjórn og sjá um daglegan rekstur þeirra. Með hliðsjón af þessu er tilefni til að ætla að skaðabótamál leysi ekki allan vanda og geti í raun gert samstarfið milli hluthafa enn erfiðara. Hluthafar í þessari stöðu þurfa því raunhæft úrræði, eins og þeir sem 81. gr. núgildandi laga tekur til.
    Þrátt fyrir að lögin um einkahlutafélög hafi að mestu verið samin að danskri fyrirmynd var önnur leið valin hér en í Danmörku á sínum tíma að því er 81. gr. varðar, en þar gátu hluthafar sem áttu 1/ 10 hlutafjár eða meira krafist slita við sambærilegar aðstæður og lýst er í 1. mgr. 81. gr. íslensku laganna. Á þennan hátt myndaðist ekki gat í minnihlutaverndina ef svo má að orði komast.
    Í raun má segja að 1. mgr. 81. gr. núgildandi laga sé ekki í fullkomnu samræmi við sjónarmið um minnihlutavernd, þrátt fyrir að slíkt hafi verið tilgangurinn með lögfestingu hennar, þar sem tiltekinn hópur hluthafa ber skarðan hlut frá borði, þ.e. þeir sem ekki geta nýtt úrræði skv. 18. gr. eða 1. mgr. 81. gr. laganna. Ekki verður heldur séð hvaða rök eru fyrir því að mynda þess háttar gat í minnihlutaverndina og slíkt samræmist illa almennri jafnræðisreglu.
    Hér er því lagt til að 1. mgr. 81. gr. verði breytt á þann hátt að krafa um slit geti náð fram að ganga að kröfu hluthafa sem ráða yfir minnst 1/ 10 hlutafjár að öðrum skilyrðum uppfylltum. Hagsmunir meiri hluta hluthafa eru eftir sem áður tryggðir í 2. mgr. 81. gr. núgildandi laga.

Um 2. gr.

    Samkvæmt núgildandi lögum getur hluthafi, sem af ásettu ráði eða með stórfelldu gáleysi veldur öðrum hluthafa tjóni, orðið skaðabótaskyldur. Hér er lagt til að dómari geti að auki, við tilteknar aðstæður og samkvæmt kröfu tjónþola (hluthafa), dæmt tjónvald (hluthafa) til innlausnar á hlutum tjónþolans. Algjört skilyrði er að hluthafi hafi valdið tjóninu með saknæmum hætti og er þá átt við ásetning eða stórfellt gáleysi, sbr. 2. mgr. 108. gr. gildandi laga.
    Þessari breytingu er eingöngu ætlað að taka til þeirra tilvika þegar hluthafi er tjónvaldur, en ekki þeirra aðila sem nefndir eru í 1. mgr. 108. gr. núgildandi laga. Rökin fyrir þessu eru þau að síðarnefndu aðilunum er hægt að víkja úr starfi og komast þannig hjá frekari erfið­leikum sem kynnu að fylgja að loknum málaferlum.
    Ef aðilar eru ekki sammála um hugsanlegt innlausnarverð geta þeir leitað hefðbundinna úrræða samkvæmt lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, eða ákvæðum í lögum um einkahlutafélaög. Slíkt ætti ekki að þurfa að leiða til aukins kostnaðar málsaðila, nema þá að litlu leyti þar sem líklegt er að grípa þurfi til sömu úrræða við sönnunarfærslu á tjóni og við innlausn á hlutum.
    Við mat á því hvort skilyrði greinarinnar séu fyrir hendi verður m.a. að líta til eignarhlut­ar aðila, möguleika á áframhaldandi samstarfi og saknæmrar háttsemi tjónvalds, t.d. hvort um einstakt tilvik sé að ræða.
    Ákvæði 2. gr. frumvarpsins og 81. gr. núgildandi laga hafa að geyma ákveðna samsvörun. Þó er sá munur á að annars vegar getur félagið krafist innlausnar og orðið eigandi hlutar og hins vegar getur sá hluthafi sem fyrir tjóni verður krafist þess að tjónvaldur innleysi hlut hans. Þá er rétt að benda á að stórfellt gáleysi er nægjanlegt skilyrði skv. 2. gr. frumvarpsins en ásetning þarf skv. 81. gr. (1. gr. frumvarpsins).
    Ljóst er að innlausn við þær aðstæður sem um getur í greininni er ótvíræð réttarbót og raunhæft úrræði, enda til þess fallin að leysa menn frá samstarfi sem er komið í óefni og er e.t.v. andstætt vilja þeirra.
    Frumvarpið sækir fyrirmynd sína í danskan rétt en reglan um skaðabótaábyrgð hluthafa var á sínum tíma sett í lög um einkahlutafélög að danskri fyrirmynd.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringar.