Ferill 150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 150  —  150. mál.
Frumvarp til lagaum breytingar á ákvæðum ýmissa skattalaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda,
með síðari breytingum.
1. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist nýr töluliður sem orðast svo: Hvers konar greiðslur skv. 1.–6. tölul. þessarar greinar sem inntar eru af hendi að gengnum úrskurði stjórnvalda, dómi, dóm­sátt eða öðru samkomulagi eftir að raunverulegu launatímabili lýkur.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.
2. gr.

    Í stað ártalsins „1999“ í 2. mgr. 12. gr. laganna kemur: 2004.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.
3. gr.

    Við 11. gr. laganna bætast átta nýir töluliðir, 29.–36. tölul., sem orðast svo:
     29.      Leyfi til reksturs fjarskiptaþjónustu     80.000 kr.
     30.      Leyfi til reksturs almenns fjarskiptanets     20.000 kr.
     31.      Leyfi til reksturs póstþjónustu     80.000 kr.
     32.      Innheimtuleyfi samkvæmt innheimtulögum     25.000 kr.
     33.      Leyfi til sjónvarps
       a.      til þriggja ára     96.000 kr.
       b.      til fimm ára     160.000 kr.
       c.      til sjö ára     224.000 kr.
     34.      Leyfi til hljóðvarps
       a.      til allt að tveggja mánaða     3.000 kr.
       b.      til eins árs     22.000 kr.
       c.      til tveggja ára     44.000 kr.
       d.      til þriggja ára     66.000 kr.
       e.      til fimm ára     110.000 kr.
     35.      Leyfi til útvarps á afmörkuðum svæðum, sem útvarpsréttarnefnd telur ná til innan við 10 þúsund íbúa: 50% af þeim fjárhæðum, sem greinir í 33. tölul. og b–e-liðum 34. tölul.
     36.      Leyfisbréf fyrir lífeyrissjóð
       a.      skv. 25. gr. laga nr. 129/1997     50.000 kr.
       b.      skv. 52. gr., sbr. V. kafla laga nr. 129/1997     30.000 kr.
       c.      skv. 53. gr., sbr. V. kafla laga nr. 129/1997     10.000 kr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðinu „einkahlutafélags“ í 2. tölul. kemur: og sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur.
     b.      Við greinina bætast tveir nýir töluliðir, 14. og 15. tölul., er orðast svo:
         14. Skráning póstrekenda     10.000 kr.
         15. Skráning aðila sem veita fjarskiptaþjónustu     10.000 kr.

IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.,
með síðari breytingum.

5. gr.

    2. mgr. 15. gr. laganna orðast svo:
    Tekjum af bensíngjaldi skal einungis varið til vegagerðar samkvæmt vegáætlun, að frá­dregnum 0,5% sem renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við álagningu og innheimtu gjaldsins.

VI. KAFLI
Gildistaka.
6. gr.

    Ákvæði laga þessara öðlast gildi 1. janúar 1999, að undanskilinni 2. gr. laganna sem öðl­ast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á ákvæðum ýmissa laga. Ástæður þess að tillögur þessar eru sameinaðar í eitt frumvarp til framlagningar á Alþingi eru annars vegar að lög þau sem breytingar eru lagðar til á snerta öll álagningu og innheimtu opinberra gjalda og hins vegar að einstakar breytingartillögur eru hvorki flóknar né umfangsmiklar. Af þessum sökum þykir sam­eining þeirra í eitt frumvarp vera til þess fallin að einfalda meðferð þeirra á Alþingi.
    Eftirfarandi breytingar eru lagðar til í frumvarpinu:
    Í fyrsta lagi að í lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, verði afdráttarlaust kveðið á um að draga beri staðgreiðslu af dæmdum eða úrskurðuðum launakröfum.
    Í öðru lagi að gildistími laga nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningar­bygginga, með síðari breytingum, verði framlengdur um fimm ár.
    Í þriðja lagi að í lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, verði kveðið á um sérstakt gjald fyrir leyfi til að reka almenna póstþjónustu og fjarskipta- og tal­þjónustu, fyrir innheimtuleyfi, fyrir leyfi til útvarps og fyrir leyfisbréf fyrir lífeyrissjóð. Jafnframt verði kveðið á um gjaldtöku vegna skráningar póstrekenda og aðila sem veita fjarskiptaþjónustu.
    Loks í fjórða lagi að 0,5% af tekjum af bensíngjaldi, sem lagt er á samkvæmt lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með síðari breytingum, verði ráðstafað í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við álagningu og innheimtu gjaldsins.
    Um nánari skýringar og rök fyrir einstökum breytingum vísast til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Breyting samkvæmt þessari grein er lögð til í tilefni af dómi Hæstaréttar frá 10. nóvember 1997 í málinu nr. 442/1997. Í dóminum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að launagreiðanda væri óheimilt að halda eftir staðgreiðslu opinberra gjalda af dæmdri launakröfu.
    Túlkun skattyfirvalda varðandi tildæmd laun hafði fram að dómi Hæstaréttar verið sú að draga bæri frá staðgreiðslu við fullnustu dómsins, til samræmis við þá meginreglu laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum, að draga beri staðgreiðslu af launagreiðsl­um. Þar sem niðurstaða sú sem fram kemur í dómi Hæstaréttar verður ekki talin vera til hagsbóta fyrir launamenn eða til þess fallin að auðvelda skattframkvæmdina er lagt til að nýjum tölulið verði bætt við 5. gr. laga nr. 45/1987, þar sem afdráttarlaust verði tekið fram að draga beri stað­greiðslu af dæmdum launakröfum.

Um 2. gr.

    Í 12. gr. laga nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum, er kveðið á um að lögin falli úr gildi 31. desember 1999. Lagt er til að gildistími lag­anna verði framlengdur um fimm ár, þ.e. til 31. desember 2004.
    Í lögum nr. 83/1989 er kveðið á um myndun sjóðs sem annars vegar var ætlað að standa straum af smíði Þjóðarbókhlöðu og hins vegar að skapa fjárhagsgrundvöll fyrir aðkallandi fram­kvæmdir við endurbætur og viðhald á húsakosti ýmissa helstu menningarstofnana þjóðarinnar og á gömlum byggingum sem brýnt þykir að varðveita vegna menningarsögulegs gildis þeirra. Tekjur sjóðsins eru m.a. sérstakur 0,25% eignarskattur sem ákvarðaður er samkvæmt ákvæðum laganna.
    Um þessar mundir er unnið að endurbótum á húsnæði Þjóðminjasafns Íslands, Þjóðskjala­safnsins og á Safnahúsinu, auk þess sem framundan eru viðgerðir á gamla skólahúsinu í Reyk­holti. Nauðsynlegt er, til að nægilegt fé fáist til að ljúka viðgerðum sem þegar eru hafnar á menningarbyggingum, svo og að ráðast í fyrirliggjandi verkefni, að gildistími laga nr. 83/1989 verði framlengdur enn um sinn. Því er breyting þessi lögð til.

Um 3. og 4. gr.

    Í þessum greinum frumvarpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum. Þær eru til komnar vegna laga um Póst- og fjar­skiptastofnun, frumvarps til laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur, frumvarps til innheimtulaga, frumvarps til nýrra útvarpslaga og laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.
    a.     Leyfi til póst- og fjarskiptaþjónustu:
    Í 1. mgr. 9. gr. laga nr. 147/1996, um Póst- og fjarskiptastofnun, kemur fram að greiða skuli gjald í ríkissjóð fyrir útgáfu rekstrarleyfisbréfa og skráningu póstrekenda, samkvæmt lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Í athugasemdum við 9. grein frumvarps þess er varð að lögum nr. 147/1996 kemur fram að Póst- og fjarskiptastofnun sé fjárhagslega sjálfstæð stofnun og gert sé ráð fyrir því að rekstur hennar verði að mestu leyti fjármagnaður af leyfishöfum. Fram kemur að tekjur sem innheimtar verða á grundvelli 9. gr. skuli renna til Póst- og fjarskiptastofnunar­innar. Síðan segir meðal annars: „Er gert ráð fyrir viðbót við 11. og 13. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, vegna þessa þar sem veitt verður heimild til að innheimta sérstakt gjald fyrir leyfi til að reka almenna talsímaþjónustu og fara með einkarétt ríkisins samkvæmt lögum um póstþjónustu annars vegar og fyrir almenn rekstrarleyfi til fjarskipta- og talþjónustu hins vegar. Verður einnig heimilt að innheimta sérstakt gjald fyrir skráningu póstrekenda.“
    Þær fjárhæðir sem lagt er til að teknar verði fyrir þau leyfi sem talin eru upp í greininni eru í samræmi tillögur Póst- og fjarskiptastofnunar þar um.
    b.     Skráning sjálfseignarstofnana sem stunda atvinnurekstur:
    Lagt er til að innheimt verði sama gjald fyrir skráningu sjálfeignarstofnana sem stunda at­vinnurekstur og fyrir skráningu einkahlutafélaga, eða 75.000 kr.
    c.     Innheimtuleyfi:
    Lagt er til að innheimtar verði 25.000 kr. fyrir útgáfu leyfis til þeirra sem hyggjast stunda innheimtustarfsemi á grundvelli innheimtulaga, en gert er ráð fyrir að frumvarp til innheimtulaga verði lagt fram á yfirstandandi löggjafarþingi. Þar er ekki gert ráð fyrir að lögmenn, opinberir aðilar, viðskiptabankar og sparisjóðir þurfi sérstakt leyfi til að stunda innheimtu.
    d.     Útvarpsleyfi:
    Lagt er til að í lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, verði kveðið á um innheimtu gjalds fyrir útvarpsleyfi (leyfi til hljóðvarps og sjónvarps). Það er í sam­ræmi við þá stefnu stjórnvalda að sem mest af aukatekjum ríkissjóðs sé ákveðið í þeim lögum, þar á meðal greiðslur fyrir leyfi til hvers konar atvinnustarfsemi.
    Gjöld fyrir útvarpsleyfi eru nú innheimt á grundvelli reglugerðar nr. 610/1989, um útvarp samkvæmt tímabundnum leyfum. Samkvæmt reglugerðinni ákveður útvarpsréttarnefnd gjöld sem leyfishöfum ber að greiða fyrir útvarpsleyfi og endurnýjun þeirra. Fjárhæð gjalda er mismunandi eftir því hvort um er að ræða sjónvarp eða hljóðvarp. Fjárhæðir hafa verið endurskoðaðar með tilliti til verðlagsbreytinga.
    Lagt er til að gjaldtakan verði eftirleiðis ákvörðuð í lögum nr. 88/1991. Ekki er þó ætlunin að hækka leyfisgjöld frá því sem verið hefur. Fjárhæðir þær sem tilgreindar eru í frumvarpinu eru því sem næst hinar sömu og í núverandi gjaldskrá útvarpsréttarnefndar, en fjárhæðir þó látnar standa á heilu þúsundi.
    Útvarpsleyfi eru gefin út fyrir afmörkuð svæði samkvæmt útvarpslögum. Hefur fjárhæð leyfis­gjalds verið óháð stærð svæðis eða mannfjölda á svæðinu. Gætt hefur óánægju með þetta fyrir­komulag þar sem nokkuð er um að útsendingar leyfishafa nái einungis til mjög takmarkaðs land­svæðis og fólksfjölda. Af þeim sökum er lagt til að langtímaleyfi til útvarpsreksturs á afmörkuð­um svæðum, sem útvarpsréttarnefnd telur ná til innan við 10.000 íbúa, nemi 50% af viðkomandi leyfisgjaldi. Þó er gert ráð fyrir því að gjald fyrir skammtímaleyfi verði áfram ákvarðað án tillits til íbúafjölda á því svæði sem leyfið nær til.
    e.     Leyfisbréf fyrir lífeyrissjóði:
    Lagt er til að gjald verði innheimt fyrir útgáfu starfsleyfa til lífeyrissjóða. Þar sem ekki er um að ræða atvinnurekstur í hagnaðarskyni þykir eðlilegt að gjaldið sé nokkru lægra en gjöld fyrir ýmiss konar atvinnustarfsemi. Lagt er til að þrenns konar gjald verði innheimt, 50.000 kr. vegna leyfisbréfs fyrir nýja lífeyrissjóði sem stofnaðir eru eftir gildistöku laga nr. 129/1997, 30.000 kr. vegna leyfisbréfs fyrir lífeyrissjóði sem starfandi eru í dag og munu áfram taka við iðgjöldum eftir gildistöku laganna og 10.000 kr. fyrir þá sjóði sem hættir eru að taka við iðgjöldum eða ætla að hætta því áður en starfsleyfi er veitt. Síðastnefndu sjóðirnir eru oft litlir og starfsemi þeirra lítil og því þykir sanngjarnt að gjald sem tekið er af þeim sé lægra en af sjóðum í fullum rekstri. Enn fremur þykir eðlilegt að sjóðir sem starfandi eru í dag greiði lægra gjald en nýir sjóðir, enda má gera ráð fyrir að meiri vinna og þar með kostnaður fylgi afgreiðslu á umsóknum nýrra sjóða um starfsleyfi.

Um 5. gr.

    Í vegáætlun fyrir árin 1998 til 2002 eru markaðar tekjur til vegamála. Samkvæmt áætluninni skulu tekjur af bensíngjaldi og þungaskatti renna óskiptar til vegagerðar að því frátöldu að 0,5% umsýslugjald rennur í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga um bensín­gjald og þungaskatt.
    Lagt er til að í lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum, verði kveðið á um að 0,5% umsýslugjald skuli dregið af innheimtu bensíngjaldi, til samræmis við samþykkta vegáætlun. Í lögum nr. 3/1987, um fjáröflun til vegagerðar, með síðari breytingum, er að finna sambærilega heimild til frádráttar af innheimtum þungaskatti.

Um 6. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingar á ákvæðum ýmissa skattalaga.

    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum ýmissa laga. Í fyrsta lagi lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Í öðru lagi lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum. Í þriðja lagi lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum, og loks lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., með síðari breytingum.
    Talið er að frumvarpið verði það að lögum, hafi ekki áhrif á kostnað ríkissjóðs.