Ferill 162. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 164  —  162. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð , með síðari breytingum.

Flm.: Margrét Frímannsdóttir.1. gr.

    Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Einnig er heim­ilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna sem eiga við alvarleg fíkni­efnavandamál að stríða.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á undanförnum árum hefur neysla ólöglegra fíkniefna aukist stöðugt og fjöldi einstaklinga ánetjast eiturlyfjum, bæði börn og fullorðnir. Þörfin fyrir meðferðarheimili fyrir fíkniefna­neytendur er mikil. Meðferðarúrræðum hefur vissulega fjölgað en þau fullnægja þó hvergi nærri þörfinni. Sérstaklega á þetta við hvað varðar meðferðarheimili fyrir börn og ungmenni. Foreldrar ungra fíkniefnaneytenda sem starfa í foreldrasamtökum Vímulausrar æsku hafa ítrekað bent á þá nauðsyn sem er fyrir aukna og fjölbreyttari meðferð fyrir börn og ung­menni. Ekki er aðeins um að ræða að fjölga þurfi meðferðarheimilum heldur, og ekki síður, er nauðsyn á möguleikum á langvarandi meðferð fyrir þessa ungu einstaklinga og stuðnings­fjölskyldu þeirra. Þátttaka foreldra í meðferð barns eða unglings er nauðsynleg. Neysla fíkniefna hefur oftar en ekki staðið yfir í langan tíma áður en til meðferðar kemur. Oft líður nokkur tími þar til vandamálið verður ljóst og síðan getur biðtími orðið langur þar til pláss fæst á meðferðarheimili. Í mörgum tilvikum er sá tími sem ætlaður er til meðferðar hjá fagfólki á meðferðarheimilum of stuttur og foreldrar þurfa að fylgja meðferðinni eftir, halda henni áfram eftir að ungi sjúklingurinn kemur heim. Því er ljóst að mikið álag hvílir á foreldrum ungra fíkniefnaneytenda sem þurfa á stöðugri umönnun og eftirfylgni að halda ef takast á að sigrast á sjúkdómnum og aðstoða börnin og ungmennin við að komast á rétta braut á lífinu. Langt er síðan áfengissýki og eiturlyfjafíkn urðu viðurkennd sem sjúkdómur og nú er varið töluverðum fjármunum úr sameiginlegum sjóðum landsmanna til þeirra stofnana sem veita meðferð við þeim sjúkdómi. Mikið vantar þó á að nægjanlega vel sé að verki staðið, sérstaklega hvað varðar úrræði fyrir yngstu sjúklingana. Því þarf oft að annast þá í heimahúsi um lengri eða skemmri tíma. Heimilt er samkvæmt lögum nr. 118/1993, um félagslega aðstoð, að greiða bætur til foreldra barna sem þurfa mikla umönnun vegna veikinda eða fötlunar. Ekki er um háar greiðslur að ræða en þó viðurkenningu á því að þessir foreldrar hafa mjög takmarkaða möguleika á því að stunda vinnu utan heimilis og tekjumöguleikar skerðast samfara því að útgjöld aukast vegna veikinda barnsins.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að foreldrar eða framfærendur þeirra barna að 18 ára aldri sem ánetjast hafa neyslu vímuefna eigi rétt á umönnunargreiðslum vegna veikinda barna sinna. Með því er verið að bæta möguleika þessara foreldra til þess að aðstoða börn sín við að vinna bug á þessum alvarlega sjúkdómi. Ráðherra setji í reglugerð nánari útfærslu á framkvæmd þessa ákvæðis.