Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 174  —  171. mál.




Frumvarp til laga



um hjálmanotkun hestamanna.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Hjálmar Jónsson,


Ísólfur Gylfi Pálmason, Sigríður Jóhannesdóttir.


1. gr.

     Menn á hestbaki skulu bera viðurkenndan hlífðarhjálm á höfði. Forráðamaður barns skal sjá um að barnið fylgi ákvæði þessarar greinar.

2. gr.

    Brot gegn lögum þessum varða sektum.

3. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi. Eigi skal þó refsa fyrir brot framin gegn 1. gr. fyrr en eftir 1. janúar 2000.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á síðasta þingi, en varð ekki útrætt. Umsagnir sem bárust allsherjarnefnd um málið voru allar jákvæðar og er vitnað til þeirra í niðurlagi þessarar greinargerðar.
    Þótt hestamennska tengist fyrst og fremst ánægju og árangri er hún þó langt frá því hættu­laus. Hesturinn er kraftmikil skepna og við ákveðnar aðstæður getur skapast mikil slysahætta í umgengni við hann. Því miður eru dæmin mörg þar sem illa hefur farið, fólk slasast eða jafnvel látið lífið. Í mörgum tilvikum hefði mátt koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar með meiri varúðarráðstöfunum. Mesta hættan er í sambandi við höfuðmeiðsli og því sjálfsagt að draga úr henni eins og kostur er. Besta ráðið til þess er notkun hlífðarhjálma sem vissulega hefur farið vaxandi á undanförnum árum en er þó hvergi nærri nógu almenn. Lögfesting skyldunotkunar hjálma virðist nauðsynleg til úrbóta í þessu efni og er í rauninni sjálfsögð á sama hátt og ökumenn vélhjóla eru skyldaðir til að nota öryggishjálma.
    Margir atvinnumenn í hestamennsku setja reglur um notkun hjálma á námskeiðum og í skipulögðum hestaferðum. Það skýtur því skökku við þegar þeir fara ekki sjálfir eftir eigin reglum en það er því miður algengt og skapar hættulegt fordæmi. Það viðhorf er of algengt að notkun hlífðarhjálms sé veikleikamerki og ekki við hæfi bestu hestamanna, það sé hins vegar til marks um öryggi, hæfni og þor að þurfa ekki á slíku að halda. Slíkt viðhorf ber vott um mikið ábyrgðarleysi.
    Við upphaflegan undirbúning þessa frumvarps var reynt að afla skráðra upplýsinga um slys tengd hestamennsku hér á landi, en það reyndist ekki auðunnið verk á þeim tíma. Á því hefur nú orðið ánægjuleg breyting. Hjá Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur hófst skipuleg skráning slysa í tengslum við hestamennsku á síðasta ári og niðurstöðurnar má sjá í meðfylgjandi fylgiskjali. Tölurnar tala sínu máli, en athygli vekur hve fjöldi höfuðáverka er mikill þegar litið er til staðsetningar áverka. Því miður kemur ekki fram hvort hlífðarhjálmar hafa komið við sögu í skráðum slysum.
    Óskar Jónsson, læknir á Sjúkrahúsi Sauðárkróks, gerði yfirlit og samanburð á umferðar­slysum og slysum í tengslum við hestamennsku á árunum 1984–90, en þar um slóðir hefur hestamennska verið mjög í hávegum höfð. Í samantekt Óskars segir m.a.:
    „Í héraðinu eru u.þ.b. 4.400 íbúar. Á sjö ára tímabili, 1984–90, leita 215 læknis vegna umferðarslysa og 238 vegna hestaslysa. Þannig slasast heldur fleiri í hestaslysum en í um­ferðarslysum á þessu tímabili. Í umferðarslysahópi eru 53% á aldrinum 10–19 ára. Í hesta­slysahópi eru 34% á aldrinum 10–19 ára.
    Í umferðarslysahópi eru 21% með beinbrot eða liðhlaup, 26% með opin sár, 52% með minni áverka, 1% banaslys (2 einstaklingar).
    Í hestaslysahópi er 25% með brot eða liðhlaup, 27,5% með opin sár, 47% með minni áverka, 0,5% banaslys (1 einstaklingur).
    Algengasta orsök hestaslysa er fall af hestbaki (43%).
    Þessi athugun leiðir í ljós að í Skagafirði, á árunum 1984–90, slasast fleiri í hestaslysum en í umferðarslysum og margir hljóta alvarlega áverka.“
    Þá fór Óskar einnig yfir slysabók sjúkrahússins á Sauðárkróki árin 1992–96. Sú yfirferð leiddi í ljós að enn hafði slysunum fjölgað. Á þessu fimm ára tímabili leituðu 329 manns til sjúkrahússins eftir umferðarslys og 387 eftir slys sem tengdust hestamennsku. Á þessum árum leituðu að jafnaði tæplega 80 manns á hverju ári til sjúkrahússins vegna hestaslysa en um 66 vegna umferðarslysa.
    Þessar upplýsingar hljóta að vekja menn til umhugsunar og viðbragða. Algild notkun hlífðarhjálma er ein besta vörnin gegn slysum í tengslum við hestamennsku. Því er þetta frumvarp flutt.
    Eins og fyrr er getið voru umsagnir um frumvarpið til allsherjarnefndar á síðasta þingi all­ar jákvæðar.
    Frumvarpið var til umfjöllunar í Umferðarráði og voru ráðsmenn hlynntir lögfestingu þess. Í umsögn ráðsins kom fram að hjálmaskylda hestamanna styrkti almenna umræðu um gagnsemi hjálma í umferðinni og mikilvægi þeirra sem forvarnar gegn höfuðmeiðslum.
    Slysavarnafélag Íslands lýsti fullum stuðningi við frumvarpið og skýrði frá því að það hefur undanfarin ár sent bréf til félagasamtaka í hestamennsku og hvatt þau til að koma á almennri notkun hlífðarhjálma meðal félagsmanna. Í umsögn Slysavarnafélagsins er m.a. bent á eftirfarandi: „Ef þær upplýsingar sem fram koma úr Skagafirði eru yfirfærðar prósentuvís yfir landið er hægt að gera sér í hugarlund hversu ástandið er alvarlegt á landsvísu varðandi slysatíðni tengd hestamennsku.“
    Læknaráð við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki lýsti í umsögn stuðningi við frumvarp­ið og lét í ljósi það álit að hjálmanotkun væri til þess fallin að draga úr alvarlegum höfuð­áverkum hestamanna.
    Loks skal vitnað orðrétt í umsögn Ólafs Ólafssonar landlæknis: „Hjálmanotkun hesta­manna er skynsamlegt ráð. Helstu mótrökin eru að hjálmanotkun hefti frelsi manna. Ég veit engin dæmi þess að hjálmanotkun hestamanna hafi skert frelsi manna eða dregið úr baráttu fyrir frjálsræði í þjóðfélaginu. En dæmi veit ég um að hjálmanotkun hafi skilað mönnum heilum hildi frá og þá væntanlega betur í stakk búnum til þess að berjast fyrir frelsi og mann­réttindum en ella.“


Fylgiskjal.


Komur á Slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur vegna hrossaslysa.
(Október 1997 til september 1998.)

Staðsetning áverka.

Áverkar á Fjöldi
höfði
26
hálsi
12
brjóstkassa
19
kvið, mjóbaki, lendahrygg og mjaðmagrind
17
öxl og upparmi
16
olnboga og framarmi
24
úlnlið og hendi
18
mjöðm og læri
9
hné og fótlegg
16
ökkla og fæti
14


Kyn og aldursdreifing.

Aldur, ár Fjöldi
Karlar Konur Alls
5–9
3 6 9
10–14
2 10 12
15–19
4 11 15
20–24
3 5 8
25–29
4 8 12
30–34
8 5 13
35–39
9 7 16
40–44
8 6 14
45–49
7 9 16
50–54
6 3 9
55–59
5 7 12
60–64
3 2 5
70–74
2 3 5
75–79
1 1
80–84
1 1
Alls
65 83 148