Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 179  —  174. mál.




Frumvarp til stjórnarskipunarlaga



um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Flm.: Guðný Guðbjörnsdóttir, Kristín Ástgeirsdóttir, Kristín Halldórsdóttir,


Margrét Frímannsdóttir, Sighvatur Björgvinsson.



1. gr.


    Á eftir 72. gr. laganna kemur ný grein og breytist röð annarra greina til samræmis við það. Greinin hljóðar svo:
    Nytjastofnar á hafsvæði því sem fullveldisréttur Íslands nær til eru sameign íslensku þjóðarinnar. Kveðið skal á um sjálfbæra nýtingu þessara auðlinda til hagsbóta fyrir þjóðar­heildina í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta til stjórnarskipunarlaga var áður flutt á síðasta þingi en varð eigi útrætt. Síðan þá hefur mikil umræða verið í þjóðfélaginu um mikilvægi þess að nytjastofnar á haf­svæðinu í kringum Ísland haldist í þjóðareign eins og lög gera ráð fyrir. Þverpólitísk al­mannasamtök hafa verið mynduð sem hafa það að meginmarkmiði að fiskveiðiauðlindin verði sameign íslensku þjóðarinnar en ekki einstaklingseign þeirra sem hafa nytjaréttinn hverju sinni. Ein mikilvæg leið til að tryggja að það markmið náist er að setja ákvæði um slíkt inn í stjórnarskrá eins og hér er lagt til.
    Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru langmikilvægasta auðlind íslensku þjóðarinnar. Í lögum um stjórn fiskveiða hefur frá árinu 1988 verið ákvæði um að þeir séu sameign íslensku þjóðarinnar. Með þessu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga er verið að tryggja stjórnskipulega stöðu þess ákvæðis.
    Með ákvæði fyrra málsliðar greinarinnar er verið að tryggja annars vegar forræði Íslend­inga yfir auðlindinni og hins vegar að auðlindin sé sameign íslensku þjóðarinnar en ekki þeirra sem fara með nýtingarréttinn samkvæmt lögum hverju sinni. Ástæða þykir til að tryggja stjórnskipulega stöðu þessa ákvæðis þó að það sé þegar lögbundið vegna þess hvernig
núverandi fiskveiðistjórn er framkvæmd.
    Síðara ákvæði greinarinnar kveður annars vegar á um að nýta beri auðlindina á sjálfbæran hátt, en með því er átt við að nýtingin mæti þörfum núverandi kynslóðar án þess að skerða möguleika kynslóða framtíðarinnar til sambærilegrar nýtingar. Í því sambandi skal minnt á hið mikla brottkast sem getur ógnað sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar. Hins vegar er yfir­lýsing um að hagnýting auðlindanna eigi að vera til hagsbóta fyrir þjóðarheildina og ákveðin samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Ástæða þykir til að ítreka hagsmuni þjóðar­heildarinnar í ljósi þess að heilu byggðarlögin geta misst lífsviðurværi sitt við kaup og sölu einstaklinga á aflahlutdeildum. Það getur einnig átt sér stað þegar aflahlutdeildum er úthlutað án endurgjalds til einstaklinga og fyrirtækja sem nýta ekki veiðirétt sinn en hagnast á því að selja hann eða leigja til þeirra sem stunda fiskveiðar, þeirra sem ekki fá veiðileyfi eða aflahlutdeild þrátt fyrir ákvæði 69. gr. stjórnarskrárinnar um að ekki megi leggja bönd á atvinnufrelsi manna nema almannaheill krefji.
    Um skilgreiningu á hugtakinu nytjastofnar vísast til 1. mgr. 2. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Samkvæmt þeirri grein teljast til nytjastofna sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð. Það hafsvæði, sem fullveldisréttur nær nú til, er skilgreint í lögum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn. Er fullveldis­réttur Íslands yfir landhelgi og efnahagslögsögu skilgreindur í 2. og 4. gr. laganna. Athygli skal vakin á því að ákvæði fyrri málsliðar 1. gr. frumvarpsins nær einnig til botnlægra fisk­stofna á landgrunninu utan efnahagslögsögu sem fullvirðisréttur Íslands nær til skv. 6. gr. laga nr. 41/1979.
    Frumvarp þetta er nær samhljóða frumvarpi því sem forsætisráðherra flutti á síðasta kjör­tímabili, 118. löggjafarþingi 1994–1995, sem stjórnarfrumvarp Sjálfstæðisflokks og Alþýðu­flokks. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar og samkvæmt fyrirliggjandi mál­efnaskrá samfylkingar Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Kvennalistans er stefnt að því að festa í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Af þessu má ráða að um efni þessa frumvarps til stjórnskipunarlaga sé víðtæk sátt í þinginu.
    Eins og fyrr segir var frumvarp þetta lagt fram á 122. löggjafarþingi. Nú er kosningaþing og fyrirsjáanlegar breytingar á stjórnarskrá vegna breytingar á kjördæmaskipan. Það mælir enn frekar með því að nú sé rétti tíminn til að festa þetta ákvæði í stjórnarskrá. Málið er brýnt því að núverandi fiskveiðistjórn er á svig við 1. gr. laga um stjórnun fiskveiða þó að víðtæk pólitísk sátt sé um það að fiskstofnarnir í hafinu í kringum landið séu sameign íslensku þjóðarinnar.