Ferill 176. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 181  —  176. mál.




Frumvarp til laga



um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


I. KAFLI
Heiti, hlutverk, aðild, stjórn og iðgjald.
1. gr.

    Sjóðurinn heitir Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda og starfar með því skipulagi og markmiði sem segir í lögum þessum og samþykktum sjóðsins.
    Heimilt er að skipta sjóðnum í deildir eftir fjárfestingarstefnu, eftir því hvernig ávinnslu réttinda er háttað og eftir því hvort lífeyrisréttindi eru í sameign eða séreign.
    Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri samkvæmt ákvæðum laga þessara og samþykkta sjóðsins.
    Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

    Skylda til greiðslu iðgjalds nær til allra launþega og þeirra sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi frá 16 ára til 70 ára aldurs og hafa ekki fullnægt tryggingarskyldu sinni með aðild að öðrum lífeyrissjóði og greiðslu iðgjalds til hans í samræmi við ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

3. gr.

    Fjármálaráðherra skipar sjö menn og jafnmarga varamenn í stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn. Skulu tveir stjórnarmanna skipaðir eftir tilnefningu stjórnar Sambands almennra líf­eyrissjóða, tveir eftir tilnefningu stjórnar Landssambands lífeyrissjóða og þrír án tilnefningar og skal einn þeirra vera formaður sjóðstjórnar en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Stjórnin skal halda gerðabók og rita í hana allar samþykktir sínar. Til þess að sam­þykkt sé lögmæt þarf meiri hluti stjórnarmanna að greiða henni atkvæði.

4. gr.

    Stjórn sjóðsins fer með yfirstjórn hans. Stjórnin skal fjalla um allar meiri háttar ákvarðanir varðandi stefnumótun sjóðsins og starfsemi. Hún skal sjá um að nægjanlegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna sjóðsins. Stjórnin setur honum samþykktir í samræmi við ákvæði laga þessara og ákvæði laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

5. gr.

    Iðgjald til sjóðsins skal nema 10% af iðgjaldsstofni, sbr. 2. mgr. Sé um launþega að ræða skiptist iðgjald þannig að launþegi greiðir 4% en launagreiðandi 6%.
    Iðgjald skv. 1. mgr. skal reiknað af heildarfjárhæð greiddra launa og endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf og þjónustu. Stofn til iðgjalds skal vera allar tegundir launa eða þóknana fyrir störf sem skattskyld eru skv. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Til gjaldstofns skal þó ekki telja hlunnindi sem greidd eru í fríðu, svo sem fatnað, fæði og húsnæði, eða greiðslur sem ætlaðar eru til endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, t.d. ökutækjastyrki, dagpeninga og fæðispeninga. Enn fremur skal ekki telja til gjaldstofns eftirlaun. Þá skal telja til iðgjaldsstofns atvinnuleysisbætur samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Iðgjaldsstofn manns vegna vinnu hans við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi skal vera jafnhár fjárhæð skv. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 59. gr. þeirra laga.

6. gr.

    Heimilt er að setja ákvæði í samþykktir sjóðsins um að lífeyrissjóðurinn megi taka við viðbótariðgjaldi sem greitt er umfram iðgjald skv. 5. gr. og að viðbótariðgjaldi þessu verði varið til ávinnslu réttinda hjá sjóðnum eftir nánari reglum í samþykktum. Jafnframt er heimilt að kveða á um í samþykktum að hluta iðgjalds skv. 1. mgr. 5. gr. sé varið til öflunar lífeyris­réttinda í séreign.

7. gr.

    Launagreiðanda ber að halda eftir iðgjöldum starfsmanna sinna og standa skil á þeim mánaðarlega ásamt eigin iðgjaldshluta. Gjalddagi iðgjalds hvers mánaðar er 10. næsta mánaðar og eindagi síðasta dag sama mánaðar. Hafi ekki verið greitt á eindaga skal inn­heimta hæstu vanskilavexti sem Seðlabanki Íslands heimilar innlánsstofnunum að taka frá gjalddaga til greiðsludags. Launagreiðanda og sjálfstæðum atvinnurekanda ber að tilkynna sjóðnum ef þeim ber ekki lengur að standa skil á lífeyrisiðgjaldi þar sem þeir hafa hætt starfsemi eða launþegar þeirra látið af störfum.

8. gr.

    Stjórn sjóðsins er heimilt að innheimta þóknun allt að 2% af iðgjaldi vegna innheimtu iðgjalda sem sjóðnum ber að innheimta í samræmi við 6. gr. laga nr. 129/1997. Heimilt er að draga þóknunina frá iðgjaldi áður en það er fært í réttindabókhald.

II. KAFLI
Lífeyrisréttindi.
9. gr.

    Sjóðurinn greiðir sjóðfélaga eftir því sem við á ellilífeyri og örorkulífeyri og eftirlifandi maka og börnum lífeyri í samræmi við ákvæði þessa kafla og samþykkta sjóðsins.

10. gr.

    Hver sjóðfélagi sem orðinn er fullra 67 ára að aldri á rétt á ellilífeyri úr sjóðnum.
    Heimilt er sjóðfélaga að hefja töku lífeyris áður en hann nær 67 ára aldri, þó ekki fyrr en frá 65 ára aldri. Skal þá upphæð ellilífeyris lækka um tiltekið hlutfall í samræmi við trygg­ingafræðilegt mat fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem vantar á 67 ára aldur er taka hans hefst.
    Heimilt er sjóðfélaga að fresta töku ellilífeyris allt til 70 ára aldurs og hækkar þá upphæð ellilífeyris frá því sem segir í 1. mgr. í samræmi við tryggingafræðilegt mat fyrir hvern mánuð sem töku lífeyris er frestað.

11. gr.

    Sjóðfélagi á rétt á örorkulífeyri ef hann verður fyrir orkutapi sem metið er 50% eða meira í samræmi við áunninn rétt fram að orkutapi, enda hafi hann greitt til sjóðsins í a.m.k. tvö ár og orðið fyrir tekjuskerðingu af völdum orkutapsins.
    Örorkulífeyrir skal framreiknaður samkvæmt reglum sem nánar er kveðið á um í samþykktum sjóðsins, enda hafi sjóðfélagi:
     a.      greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. þrjú ár á undanfarandi fjórum árum,
     b.      greitt iðgjöld til sjóðsins a.m.k. sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum,
     c.      ekki orðið fyrir orkutapi sem rekja má til ofnotkunar áfengis, lyfja eða fíkniefna.
    Hafi sjóðfélagi öðlast rétt til framreiknings sem fallið hefur niður vegna tímabundinnar fjarveru af vinnumarkaði vegna vinnu erlendis, náms, leyfis frá störfum, barneigna eða sambærilegra ástæðna skal framreikningsréttur stofnast á nýjan leik eigi síðar en sex mánuðum frá því að hann hefur aftur störf og greiðslu iðgjalds til lífeyrissjóðs.
    Hundraðshluta orkutapsins og tímasetningu þess skal ákvarða að fengnum upplýsingum um heilsufarssögu og starfsorku umsækjanda aftur í tímann svo og að fengnu áliti trúnaðar­læknis sjóðsins. Fyrstu fimm árin eftir orkutapið skal mat orkutaps aðallega miðað við vanhæfni sjóðfélaga til að gegna því starfi er hann hefur gegnt og aðild hans að sjóðnum er tengd. Að því tímabili loknu skal hundraðshluti orkutaps ákvarðaður að nýju með tilliti til vanhæfni sjóðfélagans til að gegna almennum störfum.
    Heimilt er, að fengnu áliti trúnaðarlæknis, að setja það skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris að sjóðfélagi fari í endurhæfingu sem bætt geti heilsufar hans.
    Örorkulífeyrir greiðist einungis ef orkutap og tekjumissir vara í þrjá mánuði eða lengri tíma.
    Í samþykktir sjóðsins skulu sett frekari ákvæði um örokulífeyrinn, svo sem örorkumat, fjárhæð hans, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu.

12. gr.

    Nú andast sjóðfélagi sem naut elli- eða örorkulífeyris úr sjóðnum eða greitt hafði iðgjald til hans a.m.k. í sex mánuði á undanfarandi tólf mánuðum og lætur eftir sig maka og á þá maki hans rétt á lífeyri úr sjóðnum.
    Fullur makalífeyrir skal aldrei greiddur skemur en í 24 mánuði en hafi makinn barn yngra en 19 ára á framfæri sínu, sem sjóðfélaginn hafði áður á framfæri sínu, eða ef makinn er a.m.k. 50% öryrki og yngri en 67 ára, skal makalífeyrir greiddur á meðan það ástand varir.
    Maki samkvæmt þessari grein telst sá eða sú sem við andlátið var í hjúskap með sjóðfélaga, staðfestri samvist eða óvígðri sambúð, enda hafi fjárfélagi ekki verið slitið fyrir andlát sjóðfélagans. Með óvígðri sambúð er átt við sambúð karls og konu sem eiga sameigin­legt lögheimili, eru samvistum, eiga barn saman eða konan þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í a.m.k. tvö ár. Heimilt er að greiða makalífeyri til aðila sem hefur sannanlega annast heimili sjóðfélaga um árabil fyrir andlát hans. Réttur til makalífeyris fellur niður ef makinn gengur í hjónaband á ný, stofnar til sambúðar sem jafna má til hjúskapar eða stofnar til staðfestrar samvistar, enda sé ekki kveðið á um annað í samþykktum sjóðsins.
    Fullur makalífeyrir skal að lágmarki vera 50% af áunnum örorkulífeyri viðkomandi sjóðfélaga við andlátið miðað við 100% örorku.
    Í samþykktum sjóðsins skulu sett frekari ákvæði um makalífeyri, svo sem um fjárhæð hans, útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans.

13. gr.

    Nú andast sjóðfélagi sem greitt hefur iðgjöld til sjóðsins í a.m.k. 24 mánuði á undanfarandi 36 mánuðum eða notið elli- eða örorkulífeyris við andlátið, og eiga þá börn hans eða kjörbörn, er hann lætur eftir sig og yngri eru en 19 ára, rétt á lífeyri úr sjóðnum til 19 ára aldurs. Sama rétt til lífeyris öðlast börn fædd eða ættleidd fyrir orkutap sjóðfélaga sem nýtur fulls örorkulífeyris. Ef örorka er metin lægri en 100% skal barnalífeyrir vera hlutfallslega lægri.
    Fullur barnalífeyrir skal vera að lágmarki 5.500 kr. á mánuði með hverju barni örorku­lífeyrisþega. Við andlát sjóðfélaga skal barnalífeyrir vera að lágmarki 7.500 kr. með hverju barni. Upphæðir þessar skulu breytast árlega í hlutfalli við breytingu á vísitölu neysluverðs miðað við grunnvísitölu 173,5 stig.
    Í samþykktum sjóðsins skulu sett frekari ákvæði um barnalífeyri, svo sem um útreikning og skilyrði fyrir greiðslu hans.
    Fósturbörn og stjúpbörn, sem sjóðfélagi hefur framfært að mestu eða öllu leyti, skulu eiga rétt á barnalífeyri. Skulu lífeyrisgreiðslur sjóðsins vegna slíkra barna vera hinar sömu og vera mundu ef um börn eða kjörbörn væri að ræða.
    Barnalífeyrir greiðist framfæranda barnsins.

III. KAFLI
Ýmis ákvæði.
14. gr.

    Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að meira en 10% munur er á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga, er stjórn lífeyrissjóðsins skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum hans. Sama gildir ef munur samkvæmt tryggingafræðilegum athugunum á milli eignarliða og lífeyrisskuldbindinga hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár.

15. gr.

    Nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og starfsemi hans skulu sett í samþykktir sem stjórn sjóðsins semur og staðfestar eru af fjármálaráðherra.

16. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 95/1980, um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Frumvarp þetta er lagt fram til að einfalda lögin um starfsemi Söfnunarsjóðsins og samræma þau ákvæðum laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða (slsl.). Þau lög gilda um lögbundna lífeyrissjóði með þeim undanþágum sem tilgreindar eru í 50. gr. þeirra laga. Það á t.d. við um V. kafla sem fjallar um útgáfu starfsleyfa og III. kafla sem fjallar um lífeyrisréttindin, að undanskildu ákvæðinu sem fjallar um skiptingu ellilífeyrisréttinda milli sjóðfélaga og maka hans, og 3. gr. sem fjallar um iðgjaldsstofninn. Þrátt fyrir að sett hafi verið ítarleg ákvæði í lög nr. 129/1997 um starfsemi lífeyrissjóða þykir rétt að fjalla um helstu atriði er varða starfsemi Söfnunarsjóðsins í lögum um hann, svo sem um aðild, stjórn, iðgjald og iðgjaldsstofn. Jafnframt er lagt til að meginreglurnar sem gilda eiga um lífeyrisréttindi í Söfnunarsjóðnum verði í lögunum, sbr. II. kafla frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að í samþykktum sjóðsins verði sett frekari ákvæði um starfsemi sjóðsins, svo sem um skipulag, ársfund, fjárfestingarstefnu, gerðardóm, upplýsingaskyldu, endurskoðun, lífeyri og útreikning hans.
    Með lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er sjóðnum fengið nýtt hlutverk. Samkvæmt 6. gr. þeirra skal ríkisskattstjóri hafa eftirlit með því að lífeyrisiðgjald sé greitt vegna hvers manns sem skyldutrygging lífeyrisréttinda nær til. Komi í ljós eftir könnun á framtali og samanburð á upplýsingum frá launagreiðendum og lífeyris­sjóðum að ekki hafi verið greitt í lífeyrissjóð vegna einhvers manns skal senda upplýsingarnar til Söfnunarsjóðsins sem á þá að innheimta iðgjaldið. Gert er ráð fyrir að þessi breyting muni leiða til aukinna umsvifa hjá sjóðnum og einhverrar fjölgunar starfsfólks.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins
Um 1. gr.

    Hér er kveðið á um heiti sjóðsins og hlutverk. Sjóðurinn starfar nú í einni deild en hefur heimild til að taka við viðbótariðgjöldum, sbr. 8. gr. núgildandi laga um sjóðinn sem breytt var með lögum nr. 128/1996. Nauðsynlegt þykir að heimila stjórn sjóðsins að skipta honum í deildir eftir fjárfestingarstefnu, sbr. 1. mgr. 36. gr. laga nr. 129/1997, svo og að stofna séreignardeild við sjóðinn vegna móttöku lífeyrissparnaðar í séreign. Þá þykir nauðsynlegt að heimila stjórn sjóðsins að taka upp aldurstengda réttindaávinnslu vegna iðgjalda í sameign en slík iðgjöld yrðu varðveitt í sérstakri deild. Nokkrir lífeyrissjóðir hafa ákveðið að taka upp aldurstengt réttindaávinnslukerfi og haldi sú þróun áfram getur verið nauðsynlegt að taka upp slíkt kerfi hjá Söfnunarsjóðnum.

Um 2. gr.

    Hér er fjallað um aðild og er ákvæðið sambærilegt við 7. gr. núgildandi laga um sjóðinn. Öllum þeim sem ekki fullnægja tryggingarskyldu sinni með aðild að öðrum lífeyrissjóði í sam­ræmi við ákvæði laga nr. 129/1997 ber að greiða til sjóðsins. Er þetta í samræmi við 6. gr. slsl. þar sem fram kemur, eins og áður sagði, að Söfnunarsjóðnum ber að innheimta iðgjald hjá aðilum sem ekki hafa greitt til lífeyrissjóðs.

Um 3. gr.

    Hér er fjallað um skipan stjórnar. Lagt er til að stjórn sjóðsins verði skipuð með sama hætti og áður nema að gert er ráð fyrir að Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins tilnefni ekki fulltrúa í stjórn sjóðsins eins og áður heldur skipi fjármálaráðherra þrjá í stað tveggja án tilnefningar. Lífeyrissjóðasamböndin hafa tilnefnt hvort sína tvo fulltrúa. Gert er ráð fyrir því áfram. Ekki er hægt að horfa fram hjá því að nú standa yfir viðræður um sameiningu lífeyrissjóða­sambandanna í ein hagsmunasamtök lífeyrissjóða. Í drögum að samþykktum hinna nýju samtaka kemur fram að þeim verði stjórnað af framkvæmdastjórum og stjórnarmönnum lífeyrissjóðanna.

Um 4. gr.


    Í þessari grein er fjallað um helstu hlutverk stjórnar en ákvæðið er í samræmi við 29. gr. slsl. en um hlutverk stjórnar að öðru leyti, hlutverk framkvæmdastjóra, hæfi stjórnarmanna og ársfund fer samkvæmt VI. kafla slsl.

Um 5. gr.

    Í þessari grein er fjallað um iðgjald og iðgjaldsstofn. Iðgjaldið er í samræmi við 1. mgr. 2. gr. slsl. og þær reglur sem nú gilda hjá sjóðnum. 2. mgr. sem fjallar um iðgjaldsstofninn er samhljóða 1. mgr. 3. gr. slsl.

Um 6. gr.

    Hér er kveðið á um heimild sjóðsins til móttöku viðbótariðgjalds en sjóðurinn fékk slíka heimild með breytingu sem gerð var á lögum sjóðsins árið 1996. Þá er lagt til að heimilt verði að ákveða í samþykktum að hluta af 10% iðgjaldinu sé varið í séreign en um slíka samþættingu sameignar og séreignar gilda 4. og 5. gr. slsl. Sjóðfélagi gæti þannig ráðstafað annað séreignar­hluta iðgjaldsins. Jafnframt yrði sjóðurinn að tryggja að samþætting séreignar og sameignar nægði til að standa undir lágmarkstryggingarverndinni sem sjóðnum er skylt að veita skv. 4. gr. slsl.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er fjallað um skyldu launagreiðanda til þess að halda eftir iðgjaldshluta starfs­manna og standa skil á iðgjöldum til sjóðsins, svo og um gjalddaga, eindaga og dráttarvexti. Ákvæðið er í samræmi við 7. gr. slsl. og 8. gr. núgildandi laga um Söfnunarsjóðinn. Gert er ráð fyrir að iðgjöld sem innheimt verða skv. 6. gr. slsl. verði innheimt á sama hátt og önnur iðgjöld, en í upplýsingum þeim sem sjóðurinn fær frá ríkisskattstjóra mum koma fram fyrir hvaða tímabil ekki hefur verið greitt iðgjald.

Um 8. gr.

    Með þessari grein er lagt til að stjórn sjóðsins fái heimild til þess að innheimta þóknun vegna iðgjalda sem innheimt eru skv. 6. gr. slsl. Gera má ráð fyrir að erfiðra og kostnaðarsamara verði að innheimta þessi iðgjöld en önnur iðgjöld og þykir ekki sanngjarnt að sá kostnaðarauki leggist á alla sjóðfélaga.

Um 9. gr.

    Í II. kafla frumvarpsins eru sett helstu ákvæðin sem gilda eiga um lífeyrisréttindin en gert er ráð fyrir að frekari ákvæði verði sett í samþykktir sjóðsins. Kaflinn er byggður á III. kafla slsl. og í samræmi við þær reglur sem nú gilda um lífeyrisréttindin hjá sjóðnum. Sjóðurinn notar nú stigakerfi með jafnri réttindaávinnslu þegar réttindi eru reiknuð út. Í frumvarpinu er hins vegar ekki tilgreint hvaða réttindaávinnslukerfi eigi að nota og gæti sjóðurinn því auk þess að notast við núverandi kerfi tekið upp aldurstengt réttindaávinnslukerfi, sbr. 1. gr. og skýringar við hana. Í greininni eru talin upp þau réttindi sem sjóðurinn veitir.

Um 10. gr.

    Í þessari grein er fjallað um ellilífeyri. Gert er ráð fyrir að almenna reglan verði sú að greiðsla ellilífeyris hefjist þegar sjóðfélagi verður 67 ára. Hann getur þó hafið töku lífeyris 65 ára eða frestað henni til 70 ára aldurs, en sú ákvörðun hefur áhrif á upphæð mánaðarlegs lífeyris.


Um 11. gr.

    Í þessari grein er fjallað um örorkulífeyri og er greinin í samræmi við þær reglur sem nú gilda hjá sjóðnum. Ákvæðið er að mestu samhljóða 15. gr. slsl. Rétt þykir þó að setja almenn ákvæði um örorkumatið í lög um Söfnunarsjóðinn en slík ákvæði eru ekki í lögum nr. 129/1997. Í greininni felst að sjóðfélagi sem fullnægir skilyrðunum í 1. mgr. eigi ávallt rétt á áunnum örorkulífeyri. Hann getur hins vegar átt rétt á framreikningi ef hann fullnægir þeim skilyrðum sem sett eru í 2. mgr. og eftir atvikum 3. mgr. Í 6. mgr. er tilgreint að örorkulífeyrir greiðist ekki ef orkutap og tekjuskerðing vara skemur en þrjá mánuði. Er það í samræmi við núgildandi reglur og það sem almennt tíðkast hjá lífeyrissjóðum.

Um 12. og 13. gr.

    Í þessum greinum er fjallað um makalífeyri og barnalífeyri en þær eru í samræmi við reglur sem nú gilda í sjóðnum og 16. og 17. gr. slsl.
    Í 12. gr. er gert ráð fyrir því að þeir sem eru fjárhagslega háðir sjóðfélaga geti átt rétt á maka­lífeyri. Getur þar ekki einugis verðið um að ræða maka heldur einnig aðila sem hefur annast heimili hins látna um árabil, svo sem foreldri eða systkini. Rétturinn er að því leyti rýmri en 16. gr. slsl. áskilur. Í 1. mgr. eru tilgreind þau almennu skilyrði sem verða að vera fyrir hendi til þess að réttur til makalífeyris stofnist. Í 2. mgr. er kveðið á um þann lágmarkstíma sem makalífeyrir skal greiddur. Þessi tími getur stystur verið 24 mánuðir, en ef makinn er með börn á framfæri, sem makinn hafði áður á framfæri sínu, eða er öryrki ber að greiða makalífeyri til þess tíma er börnin ná 19 ára aldri eða á meðan örorkan varir, en þó ekki lengur en til 67 ára aldurs. Í 3. mgr. er hugtakið maki skilgreint og er það sama skilgreiningin og í 3. mgr. 16. gr. slsl. Í 5. mgr. er kveðið á um að frekari reglur um makalífeyri skulu settar í samþykktir sjóðsins.
    Í 13. gr. er kveðið á um rétt til barnalífeyris vegna andláts eða örorku sjóðfélaga. Grunnfjár­hæðir eru tilgreindar og eiga að taka breytingum í samræmi við þróun verðlags. Jafnframt er gert ráð fyrir að barnalífeyrir með börnum örorkulífeyrisþega taki mið af örorku sjóðfélaga.

Um 14. gr.

    Í greininni er fjallað um skyldu stjórnar til að grípa til ráðstafana vegna stöðu sjóðsins. Ákvæðið er samhljóða 2. mgr. 39. gr. slsl. Stjórn sjóðsins verður skylt að gera nauðsynlegar breytingar á samþykktum sjóðsins ef meira en 10% munur verður á milli eigna og skuld­bindinga. Hafi munurinn verið meiri en 5% í fimm ár verður sjóðurinn þó að grípa til sams konar ráðstafana. Er þarna leitast við að gera greinarmun á tímabundnum sveiflum og viðvar­andi ástandi með því að gera strangari kröfur í síðarnefnda tilvikinu.

Um 15. gr.

    Gert er ráð fyrir að ítarlegri ákvæði verði sett um starfsemi sjóðsins í samþykktir sem stjórn sjóðsins semur en ráðherra staðfestir.

Um 16. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda.

    Frumvarp þetta miðar að því að samræma lög um starfsemi Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda við ákvæði nýlegra laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrissjóða og starfsemi lífeyrissjóða.
    Talið er að frumvarpið hafi ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það að lögum.