Ferill 177. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 187 — 177. mál.Tillaga til þingsályktunarum rannsóknir á laxi í sjó.

Flm.: Össur Skarphéðinsson, Gísli S. Einarsson.    Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðuneytinu að hrinda í framkvæmd rannsóknum á sjávarvist laxa, sem miðist að því að kanna tengsl á milli annars vegar umhverfisaðstæðna í hafi og hins vegar vaxtar og endurheimta. Sérstök áhersla skal lögð á að finna orsakir hinna gríðarlegu affalla sem oft verða í hafi, á hvaða stigi sjávarvistarinnar þau verða, og jafnframt að leita leiða til að minnka þau.

Greinargerð.


    Íslenskir laxastofnar eru verðmæt auðlind. Áætlað er að heildarvelta sem tengist stanga­veiðum á laxi sé á bilinu 1.100–1.200 millj. kr., þar af er talið að um 550 – 600 millj. kr. fáist fyrir sölu veiðileyfa. Tekjur af nýtingu íslensku laxveiðiánna eru mikilvægur þáttur þess að byggð geti haldist í samfélögum sem eiga undir högg að sækja samfara hnignun hefðbundinna landbúnaðargreina.
    Víða erlendis eru stofnar Atlantshafslax í sögulegri lægð. Ljóst er að þar á mannskepnan stærsta sök með minnkun á búsvæðum í fersku vatni vegna raforkuframleiðslu og eyðilegg­ingu búsvæða af mengun, t.d. súru regni. Þá er ofveiði þar sem sjávarveiði er stunduð víða kennt um hnignun laxastofna. Einnig hafa verið nefnd neikvæð áhrif fiskeldis vegna hættu á útbreiðslu sjúkdóma og vegna erfðamengunar.
    Á Íslandi er ekki unnt að merkja hnignun laxastofna í sama mæli og víða erlendis. Ástæður þess er m.a. unnt að þakka banni við veiðum á laxi í sjó innan íslensku efnahagslögsögunnar, að tiltölulega lítið hefur verið hróflað við búsvæðum laxfiska hérlendis og mengun er hér mjög lítil. Þrátt fyrir þessa staðreynd er ljóst að miklar sveiflur einkenna laxgengd í íslenskar veiðiár, sérstaklega á Norðurlandi og Austurlandi. Orsakir slíkra sveiflna má rekja bæði til breytilegrar framleiðslu á laxaseiðum í fersku vatni og mjög breytilegra endurheimtna á laxi úr sjó.
    Markvissar rannsóknir í nokkrum lykilám hérlendis hafa sýnt að hafið er einn stærsti orsakavaldurinn í stofnsveiflum á laxi og endurheimtur náttúrulegra laxaseiða hafa reynst á bilinu 2–22 % þau ár sem upplýsingar liggja fyrir um. Undanfarin 15 ár hefur laxgengd al­mennt verið í lægð hérlendis. Á sama tíma hefur hlutfall stórlaxa (lax með tveggja ára sjávar­dvöl eða lengri) lækkað og það bendir til aukinna affalla á öðru ári í sjó. Á þessu tímabili var gerð tilraun með stórfelldar sleppingar laxaseiða til hafbeitar en endurheimtur seiða úr sjó hafa reynst það litlar að ekki er grundvöllur fyrir slíkri starfsemi. Almennt virðist því unnt að tengja þá lægð sem hefur ríkt í laxgengd hérlendis við aukin afföll laxa í hafi.
    Á undanförnum árum hefur verið unnið öflugt rannsóknarstarf sem varðar þá þætti sem áhrif hafa á framleiðslu á laxaseiðum í fersku vatni. Jafnframt hafa rannsóknir sýnt að um­hverfi sjávar hefur gríðarleg áhrif á endurheimtu og vöxt laxa í sjó. Hins vegar vantar sárlega nauðsynlegar upplýsingar og skýringar á því hvaða þættir hafa mest áhrif á afkomu laxins í sjó. Ný tækni, sem hefur verið þróuð á Íslandi, þar sem rafmerkjum sem mæla seltu, dýpi og hitastig er komið fyrir á fiski, hefur leitt til þess að rannsóknir í hafi eru nú miklu auðveldari en áður og skila meiri vitneskju.
    Helstu verkefni sem vinna þarf á þessu sviði eru eftirfarandi:
1.      Mælingar á umhverfisþáttum. Rannsóknir hafa sýnt að marktæk fylgni er á milli sjávarhita vorið sem seiðin ganga úr ánum og veiði á smálaxi árið eftir og stórlaxi tveimur árum síðar. Þetta gildir sérstaklega í ám á Norðurlandi og Austurlandi. Nákvæmari og betri skráning á hitastigi sjávar þarf að vera fyrir hendi.
2.      Beitarsvæði í sjó. Lítið er vitað um hvar íslenski laxinn heldur sig á meðan sjávardvöl stendur. Slík vitneskja skiptir höfuðmáli til að unnt sé að skýra og spá fyrir um breytingar á laxgengd. Ýmsir telja að beitarsvæði fyrir lax hafi dregist saman í N-Atlantshafi og sé það skýring á hnignun laxastofna við Atlantshafið. Með því að þróa og framleiða sérhæfð skráningartæki sem fest eru á seiði væri unnt að fá slíkar upplýsingar.
3.      Tengsl við aðrar tegundir. Nauðsynlegt er að tengja lax inn í fjölstofnaverkefni, þar sem lögð er áhersla á rannsóknir sem snúa bæði að fæðu laxa í sjó eftir árstíma og afræningjum laxa í hafi. Ýmsir telja þannig að aukning á stofnstærð sjávarspendýra hafi haft neikvæð áhrif á laxastofna. Um þetta er hins vegar lítið vitað enn sem komið er. Þá er vitað að nytjafiskar t.d. þorskur og ufsi éta sjógönguseiði í einhverjum mæli fyrst eftir að seiðin ganga til sjávar. Fjölstofnarannsóknir gætu leitt í ljós, í hve miklum mæli afrán þessara tegunda á laxinum er.
    Brýnt er að afla fjármagns til að nauðsynlegar sjávarrannsóknir á laxi geti hafist. Slíkar rannsóknir eru dýrar grunnrannsóknir sem erfitt eða ómögulegt er að fjármagna með fram­lögum frá atvinnugreininni sjálfri. Því er eðlilegt að ríkisvaldið veiti fé til slíkra verkefna með tilliti til þeirra hagsmuna sem í húfi eru jafnframt því sem bent er á að allar hafrannsóknir eru nú greiddar úr sameiginlegum sjóði landsmanna.