Ferill 185. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 201  —  185. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    Í stað orðanna „15 ára“ í 1. mgr. 8. gr. laganna kemur: 17 ára.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 1. janúar 1998 tóku gildi ný lögræðislög, nr. 71/1997, þar sem sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Í framhaldi af samþykkt þeirra laga skipaði dómsmálaráðherra nefnd 20. júní 1997 til þess að kanna og gera tillögur um hvaða lögum þyrfti að breyta vegna hækkunar sjálfræðisaldurs. Síðar rýmkaði ráðherra umboð nefndarinnar þannig að hún skyldi skila skýrslu með ábendingum um hvaða lögum talið væri æskilegt að yrði breytt fyrir gildistöku nýju lögræðislaganna. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar sex ráðuneyta. Nefndina skipuðu Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, formaður, Sigríður Lillý Baldursdóttir, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneyti, Skúli Guðmundsson, skrifstofu­stjóri á Hagstofu Íslands, Snorri Olsen, deildarstjóri í fjármálaráðuneyti, Sólveig Guðmunds­dóttir, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, og Þórunn J. Hafstein, skrif­stofustjóri í menntamálaráðuneyti. Nefndin skilaði skýrslu sinni og tillögum til dómsmála­ráðherra í nóvember 1997.
    Fyrrgreind breyting á sjálfræðisaldri kallar á þær breytingar á ákvæðum gildandi laga um lögheimili sem frumvarpið hefur að geyma.
    Í lögheimilislögum er byggt á inntaki forsjár eins og hún er skilgreind í barnalögum. Samkvæmt lögheimilislögum á barn 15 ára og yngra að jafnaði sama lögheimili og foreldrar þess, búi það hjá þeim. Búi barnið hjá öðrum verður það ekki skráð með fasta búsetu þar nema með samþykki foreldra eða samkvæmt lögmæltri skipan. Með nýjum lögræðislögum hækkaði forsjáraldur barnalaga í 18 ár. Ef lögheimilislögunum verður ekki breytt vegna þessa verður það í fyrsta skipti sem ósamræmi er þar á milli.
    Frá stofnun Þjóðskrár hafa börn, 15 ára eða yngri, verið tengd foreldrum, eða öðrum sjálfráða einstaklingi 16 ára eða eldri, með svokölluðu fjölskyldunúmeri. Þessi fjölskyldu­gerð Þjóðskrár hefur áratugum saman verið lögð til grundvallar í löggjöf hér á landi. Þannig eru margs konar réttindi og bætur barna í skatta- og almannatryggingalöggjöfinni ætluð þeim sem börnin eru skráð hjá og tengd til 16 ára aldurs. Verði lögheimilislögunum breytt eins og frumvarpið gerir ráð fyrir getur það haft áhrif á önnur lög sem byggjast á lögheimilisskrán­ingu barna. Í barnalögum er m.a. kveðið á um að forsjá barns feli í sér rétt og skyldu þess sem með forsjána fer til að ráða persónulegum högum þess.
    Frá 1. janúar 1998 hefur aldursmarkið varðandi forsjá verið 18 ár. Telja verður að búseta barns falli undir persónulega hagi þess. Í því sambandi má benda á ákvæði barnalaga um þá skyldu foreldra, sem semja um sameiginlega forsjá, að greina í samningi hjá hvoru þeirra barn skuli eiga lögheimili og þar með að jafnaði hafa búsetu. Í athugasemdum með frumvarpi til lögræðislaga sem samþykkt var sem lög frá Alþingi vorið 1997 og kváðu m.a. á um hækk­un sjálfræðisaldurs var sérstaklega um það fjallað að gera þyrfti barnaverndarnefndum kleift að hafa afskipti af málefnum unglinga án þeirra samþykkis til 18 ára aldurs. Þetta gæti reynst erfitt í framkvæmd ef lögheimilislögum verður ekki breytt eins og lagt er til í þessu frum­varpi, því barn gæti þá hvenær sem er eftir 16 ára aldur skráð sig úr umdæmi viðkomandi barnaverndarnefndar án samþykkis foreldra eða forsjáraðila.
    Að óbreyttum lögheimilislögum gæti margt orðið erfitt í framkvæmd fyrir þá sem nota Þjóðskrá þar sem um tveggja ára skeið væri ekki ljóst hvernig ætti að greina á milli lögráða og ólögráða einstaklinga á aldrinum 16 og 17 ára. Þetta kemur til af því að í ákvæði til bráðabirgða í nýju lögræðislögunum er sú lagaskilaregla að þeir sem öðlast sjálfræði fyrir 1. janúar 1998 halda því. Þessir einstaklingar voru aðskildir í Þjóðskrá frá foreldrum sínum 1. janúar 1998 eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Þar sem lögheimilislögum hefur ekki verið breytt hefur hið sama gerst hjá þeim sem orðið hafa 16 ára eftir þann tíma. Í Þjóðskrá eru því nú tveir hópar á svipuðum aldri með ólík réttindi. Þessir unglingar hafa allir sjálf­stætt fjölskyldunúmer og því er erfitt fyrir notendur skrárinnar að átta sig á fjölskyldugerð­inni og ákvarða hugsanleg réttindi foreldra þess hóps sem ekki er lögráða.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili,
nr. 21/1990, með síðari breytingum.

    Í lögheimilislögum er byggt á inntaki forsjár og samkvæmt þeim á barn 15 ára eða yngra sama lögheimili og foreldrar þess, búi það hjá þeim. Með lögræðislögum, nr. 71/1997, var sjálfræðisaldur hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Foreldrar og forsjármenn barna og ungmenna hafa því forsjá með þeim að 18 ára aldri. Samkvæmt núgildandi lögum um lögheimili getur ósjálfráða einstaklingur, 16 ára eða eldri, skráð sig á annað lögheimili en lögheimili foreldra eða forsjármanna og úr umdæmi viðkomandi barnaverndarnefndar ef til hennar afskipta hefur komið. Með hækkun aldursmarka er frumvarpinu ætlað að koma í veg fyrir að ósjálfráða börn geti án samþykkis foreldra eða forsjármanna skráð sig á annað lögheimili. Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tilkynningu að­setursskipta, nr. 73/1952. Börn 15 ára og yngri hafa verið tengd foreldrum eða forsjármönn­um með svokölluðu fjölskyldunúmeri í Þjóðskránni og þeim fengin margs konar réttindi og bætur í skatta- og almannatryggingalöggjöfinni. Verði frumvörpin að lögum þarf Þjóðskrá Hagstofu Íslands að breyta skilgreiningu fjölskyldunúmers við vinnslu gagna úr skránni og kostnaður við breytingu forrita í tölvukerfum og prentun nýrra eyðublaða yrði um 0,5 m.kr. Auk Þjóðskrár þurfa ýmsar stofnanir að breyta forritum í tölvukerfum sínum.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi að öðru leyti kostnað í för með sér verði það óbreytt að lögum.