Ferill 186. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 202  —  186. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um tilkynningar aðsetursskipta, nr. 73/1952, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)1. gr.

    Í stað orðanna „16 ára“ í 1. og 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: 18 ára.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Hinn 1. janúar 1998 tóku gildi ný lögræðislög, nr. 71/1997, þar sem sjálfræðisaldur var hækkaður úr 16 árum í 18 ár. Í framhaldi af samþykkt þeirra laga skipaði dómsmálaráðherra nefnd 20. júní 1997 til þess að kanna og gera tillögur um hvaða lögum þyrfti að breyta vegna hækkunar sjálfræðisaldurs. Síðar rýmkaði ráðherra umboð nefndarinnar þannig að hún skyldi skila skýrslu með ábendingum um hvaða lögum talið væri æskilegt að yrði breytt fyrir gildistöku nýju lögræðislaganna. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar sex ráðuneyta. Nefndina skipuðu Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, formaður, Sigríður Lillý Baldursdóttir, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneyti, Skúli Guðmundsson, skrifstofu­stjóri á Hagstofu Íslands, Snorri Olsen, deildarstjóri í fjármálaráðuneyti, Sólveig Guðmunds­dóttir, deildarstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, og Þórunn J. Hafstein, skrif­stofustjóri í menntamálaráðuneyti. Nefndin skilaði skýrslu sinni og tillögum til dómsmála­ráðherra í nóvember 1997.
    Fyrrgreind breyting á sjálfræðisaldri kallar á þær breytingar á ákvæðum gildandi laga um tilkynningar aðsetursskipta sem frumvarpið hefur að geyma.
    Í 10. gr. laga um lögheimili, nr. 21/1990, segir að ákvæði laga um tilkynningar aðseturs­skipta skuli gilda um breytingu á lögheimili eftir því sem við á.
    Samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um lög­heimili þar sem gert er ráð fyrir að barn sé skráð hjá þeim sem með forsjá þess fer til 18 ára aldurs í stað 16 ára aldurs eins og núgildandi lögheimilislög kveða á um. Um rökstuðning fyrir breytingu þeirri sem fram kemur í þessu frumvarpi vísast til fyrrgreinds frumvarps til laga um breytingu á lögum um lögheimili.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tilkynningar
aðsetursskipta, nr. 73/1952, með síðari breytingum.

    Frumvarpið gerir ráð fyrir að forráðamenn fullnægi tilkynningarskyldu aðsetursskipta fyrir skjólstæðinga sína innan 18 ára aldurs í stað 16 ára. Samhliða er lagt fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um lögheimili, nr. 21/1990, en þar er gert ráð fyrir að börn 17 ára og yngri eigi sama lögheimili og foreldrar eða forsjármaður. Verði frumvarpið að lögum þarf Þjóðskrá Hagstofu Íslands að breyta forritum í tölvukerfum og prenta og dreifa nýjum eyðublöðum. Kostnaður Hagstofu Íslands vegna þessara tveggja frumvarpa verður ekki að­skilinn og er áætlaður samtals um 0,5 m.kr.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi að öðru leyti kostnað í för með sér verði það óbreytt að lögum.