Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 216  —  198. mál.




Beiðni um skýrslu



frá forsætisráðherra um stöðu, aðbúnað og kjör öryrkja.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur, Ástu R. Jóhannesdóttur, Bryndísi Guðmundsdóttur,


Bryndísi Hlöðversdóttur, Gísla S. Einarssyni, Guðmundi Árna Stefánssyni,


Guðnýju Guðbjörnsdóttur, Jörundi Guðmundssyni,     Lúðvík Bergvinssyni,


Margréti Frímannsdóttur, Ragnari Arnalds,     Rannveigu Guðmundsdóttur,


Sighvati Björgvinssyni, Sigríði Jóhannesdóttur,     Svanfríði Jónasdóttur,


Svavari Gestssyni, Þórunni H. Sveinbjörnsdóttur og Össuri Skarphéðinssyni.



    Með vísan til 46. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að forsætisráðherra flytji Alþingi skýrslu um stöðu, aðbúnað og kjör öryrkja.
    Í skýrslunni er óskað eftir upplýsingum um eftirtalin atriði:
     1.      Hver hefur hækkun örorkulífeyris og tekjutryggingar verið í samanburði við þróun lágmarkslauna sl. fimm ár, frá og með 1993 til og með 1998, að teknu tilliti til eingreiðslna og tekjutryggingarauka?
     2.      Hvernig hefur fjöldi þeirra öryrkja sem njóta fullrar tekjutryggingar þróast frá því að tekjutrygging var tekin upp? Hvernig er þetta hlutfall nú samanborið við fjölda þeirra öryrkja sem njóta óskertra almannatryggingabóta annars staðar á Norðurlöndum?
     3.      Hve margir öryrkjar eru á vinnumarkaði í hlutastarfi annars vegar og fullu starfi hins vegar og hve margir öryrkjar hafa árlega verið á atvinnuleysisskrá sl. fimm ár, skipt eftir aldri og kyni?
     4.      Hverjar voru meðalmánaðargreiðslur ríkisins til öryrkja á sl. ári?
     5.      Hvað eru örorkulífeyrisgreiðslur ríkisins (örorkulífeyrir og tekjutrygging) hátt hlutfall af vergri landsframleiðslu annars vegar og hver eru útgjöld á íbúa hins vegar samanborið við önnur Norðurlönd?
     6.      Hver er mánaðarlegur framfærslukostnaður örorkulífeyrisþega og tekjur hér á landi samanborið við örorkulífeyrisþega annars staðar á Norðurlöndum sem
       a.      búa einir,
       b.      eru hjón eða sambýlisfólk,
       c.      eru hjón eða sambýlisfólk með eitt barn?
     7.      Hve stór hluti öryrkja á einungis rétt á greiðslum frá Tryggingastofnun eða sambærilegum opinberum aðilum og hve stór hluti fær innan við
       a.      30 þús. kr.,
       b.      20 þús. kr.,
       c.      10 þús. kr.
        á mánuði í greiðslur frá lífeyrissjóðum, skipt eftir aldri, kyni og hjúskaparstöðu?
     8.      Hver er skattbyrði örorkulífeyrisþega á mann og hver hefur þróunin verið síðustu tíu árin?
     9.      Hversu stór þáttur eru greiðslur úr lífeyrissjóðakerfi eða öðrum sparnaðarformum til öryrkja í samanburði við greiðslur úr almannatryggingakerfi?
     10.      Hvernig er félagslegri aðstoð við öryrkja háttað, hversu miklu er varið til hennar á ári, annars vegar frá ríki og hins vegar frá sveitarfélögum, og hversu hátt hlutfall er það af landsframleiðslu árlega sl. fimm ár samanborið við önnur Norðurlönd:
       a.      til 65% öryrkja,
       b.      til 75% öryrkja?
     11.      Hvernig er tekju- og eignadreifingu öryrkja háttað í samanburði við aðra þjóðfélagshópa?
     12.      Hve margir öryrkjar hafa þurft að leita til hjálparstofnana utan opinbera kerfisins sl. tíu ár til að eiga fyrir nauðþurftum? Hve hátt er hlutfall öryrkja í hópi skjólstæðinga þessara stofnana?
     13.      Hve mikil hefur árleg raunaukning verið á framlögum til Framkvæmdasjóðs fatlaðra og til reksturs stofnana og þjónustu við fatlaða á vegum félagsmálaráðuneytisins sl. tíu ár og hve mikil aukning hefur orðið árlega á búsetuúrræðum fyrir fatlaða á sama tímabili?
     14.      Hve margir örorkulífeyrisþegar eru á leigumarkaði og hve margir í eignarhúsnæði?
     15.      Hve margir öryrkjar, skipt eftir aldri og kyni, hafa orðið fyrir skerðingu eða sviptingu tekjutryggingar vegna tekna maka, þ.m.t. þeir sem hafa sjálfir aflað tekna en orðið fyrir viðbótarskerðingu vegna tekna maka? Hve margir öryrkjar hafa orðið fyrir þessu árlega sl. fimm ár? Hver hefur annars vegar verið meðalskerðing hjá þessum hópi og hins vegar heildarskerðing?
     16.      Hverjar eru hámarkslífeyrisgreiðslur úr almannatryggingakerfinu hér á landi samanborið við önnur Norðurlönd?
     17.      Hver eru áform ríkisstjórnarinnar um að treysta hag og aðbúnað öryrkja?
     18.      Telur ráðherra rétt að skattleggja greiðslur öryrkja og aldraðra úr lífeyrissjóðum eins og fjármagnstekjur?
    Þess er óskað að skýrslan verði tekin til umræðu á Alþingi þegar henni hefur verið útbýtt meðal þingmanna.

Greinargerð.


    Að undanförnu hafa komið fram á opinberum vettvangi upplýsingar um mjög slæman aðbúnað og kjör öryrkja. Er þess skemmst að minnast að við setningu Alþingis vöktu ör­yrkjar á eftirminnilegan hátt athygli á slæmum kjörum sínum. Einnig hafa komið fram mis­munandi upplýsingar um stöðu og hag öryrkja.
    Nauðsynlegt er að leiða hið rétta í ljós í þessu máli til að stjórnvöld og Alþingi hafi heild­aryfirsýn yfir kjör og aðbúnað öryrkja.
    Skýrsla sú sem hér er beðið um ætti að leiða hið rétta í ljós og auðvelda ákvörðunartöku sem stuðlað getur að bættum kjörum öryrkja í landinu.