Ferill 206. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 224  —  206. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að smásala á tóbaki verði háð leyfisveitingu.

Flm.: Þuríður Backman , Steingrímur J. Sigfússon,


Kristín Ástgeirsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa nauðsynlegar lagabreytingar sem gera smásölu á tóbaki háða leyfisveitingu.

Greinargerð.


    Margar kannanir sýna að reykingar eru að aukast hjá börnum og unglingum. Reykingar hafa einnig færst neðar í aldurshópana, sérstaklega hjá ungum stúlkum.
    Samkvæmt könnunum á reykingavenjum ungs fólks undir 16 ára aldri má áætla að íslensk­ir grunnskólanemendur hafi varið tæpum 100 millj. kr. í tóbak árið 1997. Þar er um ólöglega sölu að ræða, því að bannað er að selja fólki undir 18 ára aldri tóbak. Þar af eyddu 8. bekk­ingar (13 ára) rúmlega 11 millj. kr. í sígarettur. Því yngri sem unglingar byrja að reykja, þeim mun háðari verða þeir tóbakinu og líklegri til að reykja sem fullorðnir. Því yngri sem einstak­lingurinn er við upphaf reykinga þeim mun líklegra er að hann hljóti af alvarlegan heilsufars­legan skaða. Kannanir sýna að reykingar eru yfirleitt upphafið að neyslu á sterkari fíkniefn­um. Því er nánast ógjörningur að taka á vímuefnavandanum nema draga jafnframt úr tóbaks­neyslu barna og unglinga.
    Það er alfarið undir smásöluhafa tóbaks komið hvort hann hefur skilning á og fer eftir ákvæði 8. gr. tóbaksvarnalaga um bann á sölu og afhendingu tóbaks til yngri en 18 ára.
    Heilbrigðisnefndir, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, eiga að hafa eftirlit með út­sölustöðum tóbaks og fylgjast með því í umdæmi sínu að ákvæði II. kafla laganna um sölu og auglýsingar séu virt. Þrátt fyrir að sala á tóbaki til unglinga undir 18 ára aldri hafi verið kærð hefur aldrei komið til að beitt hafi verið viðurlögum eða refsiákvæðum laganna. Sér­stakt leyfi til sölu á tóbaki mundi gera allt eftirlit með framkvæmd laganna einfaldara og markvissara. Til þess þarf skýra heimild í lögum.









Prentað upp.