Ferill 89. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 228  —  89. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar um sam­ræmda skráningu og endurskoðun á biðlistum.

     1.      Hvernig er skráningum á biðlistum eftir aðgerðum háttað á einstökum deildum á sjúkrastofnunum landsins?
    Landlæknisembættið hefur frá árinu 1986 byggt upp skrá um biðlista á sjúkrahúsum landsins. Yfirlit landlæknis er tekið saman þrisvar á ári og sýnir fjölda sjúklinga á biðlistum einstakra sjúkrastofnana og deilda. Skráning á biðlistana hefur þó verið með ýmsu móti á sjúkrastofnunum, svo sem á biðlista einstakra lækna og deilda eða eftir ákveðnum aðgerðum. Það var ekki fyrr en á þessu ári sem samræmdar reglur um lágmarksskráningu vistunarupp­lýsinga á sjúkrastofnunum lágu fyrir. Sjá nánar rit Landlæknisembættis Lágmarksskráning vistunarupplýsinga á sjúkrahúsum (rit nr. 1/1998), sem gefið var út fyrr á þessu ári. Formlega taka þessar reglur gildi 1. janúar 1999.

     2.      Er samræmi í skráningum?
    Fram til þessa hefur nokkuð skort á samræmi í skráningu á biðlista hvort sem um hefur verið að ræða einstakar sjúkrastofnanir eða sérgreinar. Skráningin hefur þó tekið miklum framförum á undanförnum árum og á sumum sviðum, t.d. öldrunarþjónustu, er gott samræmi. Með tilkomu samræmdra leiðbeininga um skráningu vistunarupplýsinga á sjúkrahúsum standa vonir til að fljótlega verði skráning á lista komin í betra lag á sjúkrastofnunum lands­ins.

     3.      Hefur heilbrigðisráðuneytið haft frumkvæði að samræmdri skráningu?
    Heilbrigðisráðuneytið hefur bæði skipað nefndir og fengið starfsmönnum sínum það verk­efni að gera úttekt á biðlistum og koma með tillögur til úrbóta í biðlistamálum. Fyrir tveimur árum vann nefnd fagfólks að tillögum um aðgerðir og tekin var saman umfangsmikil skýrsla um áhrif langrar biðar eftir læknisaðgerðum. Sömuleiðis skilaði forgangsröðunarnefnd, sem starfaði á vegum ráðuneytisins, á þessu ári ítarlegum tillögum um reglur varðandi flokkun biðlista, biðtíma og tilfærslu sjúklinga innan heilbrigðiskerfisins. Ráðherra hefur samþykkt þessar tillögur og falið starfsmönnum ráðuneytisins að sjá til þess að þeim verði hrint í fram­kvæmd.

     4.      Hvernig eru biðlistar á sjúkrahúsum landsins endurskoðaðir?
    Biðlistar á sjúkrahúsum og sjúkradeildum eru yfirfarnir reglulega. Þó er mjög mismunandi eftir tegundum þeirra hvernig staðið er að endurskoðuninni. Dæmi eru um að sjúklingar á biðlistum séu flokkaðir í þrennt: með þörf, með brýna þörf og með mjög brýna þörf. Þeir sjúklingar sem hafa mesta þörf fyrir heilbrigðisþjónustu ganga því eðlilega fyrir.

     5.      Hversu oft er það gert?
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér er mjög mismunandi eftir sérgreinum hversu oft biðlistar eru yfirfarnir eða endurskoðaðir. Dæmi eru um að það sé gert á þriggja mánaða fresti, einu sinni í mánuði, tvisvar í mánuði eða jafnvel oftar.

     6.      Hefur ráðherra sent sjúkrahúsum tilmæli um hversu oft og með hvaða hætti endurskoðun á biðlistum skuli fara fram?
    Heilbrigðisráðherra hefur með samþykkt tillagna forgangsröðunarnefndar í biðlistamálum gefið sjúkrastofnunum landsins fyrirmæli um að endurskoða biðlista sína reglulega. Jafn­framt hefur heilbrigðisráðherra ákveðið að fara þess á leit við faghópinn sem starfaði að bið­listamálum fyrir tveimur árum að halda áfram störfum og koma með tillögur um hvernig unnt sé að standa betur að skipulegri endurskoðun biðlistanna. Ljóst er að til þess að ná markmið­um heilbrigðisþjónustunnar og svo að hægt sé að fylgjast betur með starfsemi sjúkrahúsanna þarf ráðuneytið ætíð að hafa nýjar upplýsingar um biðlista. Þess vegna er í undirbúningi reglugerð um hverjir fari á biðlista, flokkun listanna, upplýsingaskyldu sjúkrastofnana, skil á biðlistum, þjónustumarkmið stofnana, lengd biðtíma, skipulagningu innlagna, hámarksbið o.s.frv. Stefnt er að því að reglugerðin taki gildi um næstu áramót eða á sama tíma og nýjar reglur um skráningu vistunarupplýsinga á sjúkrahúsum.