Ferill 31. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 232  —  31. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um ráðningar í stöður heilsu­gæslulækna.

     1.      Hvað er óráðið í margar stöður heilsugæslulækna og hvaða umdæmi er þar um að ræða?
     Reykjavík. Ráðið er í allar stöður heilsugæslulækna og hvergi skammtímaráðningar nema í afleysingastöðum.
     Reykjanes. Óráðið er í eina stöðu í Keflavík en umsókn um hana liggur fyrir stöðunefnd. Ráðið er í allar aðrar stöður í Reykjaneshéraði og skammtímaráðningar einungis vegna afleysinga.
     Vesturland. Óráðið er í tvær stöður í Ólafsvík og eina stöðu í Stykkishólmi. Engar skammtímaráðningar eru í héraðinu.
     Vestfirðir. Óráðið er í eina stöðu (af tveimur) á Patreksfirði en hún er mönnuð af læknanemum. Á Ísafirði er ráðið í allar stöður en lækni vantar til afleysinga í barnsburðarleyfi.
     Norðurland vestra. Óráðið er í eina stöðu á Siglufirði. Engar skammtímaráðningar eru í héraðinu.
     Norðurland eystra. Óráðið er í eina stöðu á Raufarhöfn. Læknir er í veikindaleyfi á Þórshöfn og á meðan eru skammtímaafleysingar. Á Ólafsfirði er læknanemi í skammtímaráðn­ingu fram í miðjan desember, von er á fastráðnum lækni sumarið1999.
     Austurland. Á Vopnafjörð vantar einn lækni (af tveimur). Á Seyðisfjörð vantar einn lækni (af tveimur). Á Eskifirði vantar einn lækni (af tveimur). Á Djúpavogi eru læknar ráðnir til næstkomandi áramóta. Á Höfn vantar tvo lækna (af þremur).
     Suðurland. Á Selfossi er óráðið í 0,7 stöðugildi en nýr læknir er væntanlegur um næstu áramót. Ein læknisstaða er mönnuð afleysingalækni með skammtímaráðningu. Á Selfossi er því setið í 4,1 stöðu af 4,8. Ráðið er í aðrar stöður á Suðurlandi.
    Alls er því óráðið í 13,7 stöður heilsugæslulækna en læknar eru væntanlegir í a.m.k. þrjú stöðugildi, þ.e. í Keflavík, Ólafsfirði og á Selfossi.

     2.      Í hvaða heilsugæsluumdæmum eru læknar ráðnir til skamms tíma, þ.e. skemur en til eins árs?
    Eins og greinir í 1. lið eru skammtímaráðnir læknar á nokkrum stöðum vegna afleysinga en að auki eru skammtímaráðnir læknar og læknanemar á Patreksfirði, Ólafsfirði, Djúpavogi og Selfossi.

     3.      Hvaða ástæður helstar eru fyrir því að erfitt hefur reynst að fá lækna til starfa á heilsugæslustöðvum utan Reykjavíkur?
    Telja verður að margar ástæður séu fyrir erfiðleikum við að manna læknastöður utan Reykjavíkur.
    Unglæknar kynnast störfum utan sjúkrahúsa mjög takmarkað, öll vinnuskylda á kandídats­ári er innan sjúkrahúsa. Vinna í dreifbýli verður því framandi og á vissan hátt ógnandi. Einn­ig er mikil vaktabyrði og einangrun nefnd sem fráhrindandi þáttur í starfi heilsugæslulækna.
    Undanfarin ár hefur verið mikil samkeppni um unga lækna, bæði innan lands og utan. Stóru sjúkrahúsin á Íslandi þurfa sífellt á stórum hópi ungra lækna að halda og keppa m.a. við heilsugæslustöðvar um takamarkaðan mannafla. Löng hefð er fyrir því að íslenskir lækn­ar sæki sér framhaldsmenntun til nágrannalandanna að fengnu lækningaleyfi, bæði austan hafs og vestan. Vaxandi læknaskortur er annars staðar á Norðurlöndum og markvisst hefur verið reynt að bjóða læknum þar góð kjör, einkum í Noregi. Á tveimur árum hefur íslenskum læknum til dæmis fjölgað úr 60 í 98 þar í landi. Hins vegar hafa nýlegar kjarabætur til heilsugæslulækna eftir úrskurð kjaranefndar jafnað stöðu þeirra á Íslandi gagnvart grann­löndunum.

     4.      Til hvaða aðgerða hyggjast ráðuneytið og landlæknisembættið grípa til að ráða bót á þeim læknaskorti sem víða blasir við?
    Ráðuneytið hefur þegar gripið til ýmissa aðgerða til að ráða bót á þessum vanda, auk þess sem kjaranefnd hefur unnið að því að bæta kjör læknanna. Ráðuneytið gaf út stefnumörkun í málum heilsugæslunnar um mitt ár 1996 og hefur fjölda þátta í þeirri stefnumörkun þegar verið komið í framkvæmd, stöðum fjölgað og aðstaða verið bætt. Til dæmis fengu heilsu­gæslustöðvar nýlega bifreiðar til umráða sem bætti mjög aðstöðu til þjónustu í héruðum. Samningur hefur verið gerður við Læknavaktina í Reykjavík um að annast símaþjónustu fyrir einmenningshéruð á nóttum, en truflun á nætursvefni er mjög íþyngjandi fyrir lækna í dreif­býli, sem verða að ganga til vinnu að morgni.
    Ráðuneytið hefur að undanförnu beitt sér fyrir stækkun heilsugæsluumdæma og telur að slíkt auðveldi mönnun starfið, m.a. þar sem vaktir verða léttari, afleysingar auðveldari og starfsumhverfi líklegra til að laða til sín unga lækna, sem óttast einangrun og þungar vaktir. Verður áfram unnið að slíkum breytingum.
    Ráðuneytið hefur nýlega auglýst þrjár nýjar námsstöður í heimilislækningum og telur að mikilvægt sé að færa sérnám í auknum mæli inn í landið. Stöður þessar gefa ungum læknum möguleika á að ráða sig í skipulagt þriggja ára nám hér á landi. Dvöl á heilugæslustöðvum undir handleiðslu reyndari lækna er stór hluti þessa náms sem skipulagt er í samráði við læknadeild Háskóla Íslands. Einnig telur ráðuneytið nauðsynlegt að hyggja að svipuðu námi á kandídatsári. Ísland sker sig úr með að hafa heilsugæslu ekki sem hluta þeirrar skylduþjálf­unar. Ætlun ráðuneytisins er að beita sér fyrir endurskoðun þessa ákvæðis, þannig að verð­andi læknar kynnist starfi í heilsugæslu í námi og starfsþjálfun.
    Ráðuneytið hefur í samvinnu við landlæknisembættið skipulagt kynningu á heilsugæslunni fyrir lækna sem lokið hafa námi í nágrannalöndunum. Landlæknir hefur þegar heimsótt tvær borgir á Norðurlöndum og skrifstofustjóri í ráðuneytinu mun fljótlega heimsækja þar þrjá staði og kynna íslenskum læknum breyttar og bættar starfsaðstæður á Íslandi.