Ferill 229. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 256  —  229. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)



1. gr.


    6. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að selja allt hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að Alþingi heimili iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráð­herra, sem saman fara með eignarhlut ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., að selja allt hlutafé ríkissjóðs í bankanum. Samkvæmt núgildandi 6. gr. laga nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., er heimilt að selja allt að 49% hlutafjár ríkis­sjóðs í bankanum. Í því felst að þeim sem með eignarhlutinn fara er óheimilt að selja meiri hluta í bankanum án heimildar Alþingis. Frumvarpið er lagt fram nú í kjölfar þeirrar stefnu­mótunar ríkisstjórnarinnar að hraða beri sölu hlutafjár í FBA og að stefna beri að því að selja allt hlutafé ríkissjóðs í bankanum á árinu 1999.

Stefnumörkun við sölu hlutafjár í Landsbanka Íslands, Búnaðarbanka Íslands og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins.
    Hinn 28. ágúst sl. samþykkti ríkisstjórn Íslands stefnumótun um sölu hlutafjár í Lands­banka Íslands, Búnaðarbanka Íslands og Fjárfestingarbanka atvinnulífsins. Stefnumótunin byggist á tillögum ráðherranefndar um einkavæðingu sem í eru forsætisráðherra, utanríkis­ráðherra, viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra. Undirbúningur stefnumótunarinnar var í höndum viðskiptaráðuneytisins. Leitaðist ráðuneytið m.a. við að bera íslenskan bankamark­að saman við fjármálamarkaði í nágrannalöndum, lagði mat á mögulega hagræðingu í banka­kerfinu og efnahagsleg áhrif mögulegrar hagræðingar auk þess sem mismunandi valkostir um hagræðingu og samruna með hagræðingu að markmiði voru kannaðir.
    Liður í undirbúningnum var ákvörðun ráðherranefndar um að ganga til viðræðna við Skandinaviska Enskilda Banken um kaup bankans á hlutafé í Landsbanka Íslands hf., en hinn sænski banki hafði lýst áhuga sínum á að gerast kjölfestufjárfestir í Landsbankanum. Einnig var gengið til könnunarviðræðna við Íslandsbanka hf. um kaup hans á öllu hlutafé ríkissjóðs í Búnaðarbanka Íslands hf. og við Samband íslenskra sparisjóða um kaup sparisjóðanna á öllu hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., en þessir aðilar höfðu lýst áhuga sínum á slíkum kaupum og Íslandsbanki raunar gert formlegt tilboð í Búnaðarbanka. Í viðræðunum voru sjónarmið aðila skýrð.
    Á þessum grundvelli mótaði ríkisstjórnin stefnu sína um hvernig standa skyldi að sölu hlutafjár í hlutafélagsbönkunum á næstu missirum. Hefur ríkisstjórnin í því efni haft að leiðarljósi nauðsyn þess að hámarka verðmæti hlutafjár ríkissjóðs í bönkunum, tryggja ódýra, heilsteypta og örugga þjónustu á fjármagnsmarkaði með aukinni samkeppni, og þar af leiðandi hagkvæmari rekstri bankanna, og að tryggja dreifða eignaraðild, en um leið að fá til samstarfs innlenda og erlenda kjölfestufjárfesta sem hraðað geta framþróun fjármagns­markaðarins.
    Meginatriði ákvörðunar ríkisstjórnarinnar frá 28. ágúst sl. eru svofelld:

„Landsbanki Íslands hf. og Búnaðarbanki Íslands hf.
          Nýttar verði heimildir núgildandi laga til að gefa út nýtt hlutafé sem nemi allt að 15% af heildarfjárhæð hlutafjár í hvorum banka. Almenningi verði boðið að skrá sig fyrir hlutabréfum allt að tiltekinni upphæð á fyrir fram ákveðnu verði og þannig tryggð víð­tæk eignaraðild að bönkunum. Undirbúningur að útgáfu nýs hlutafjár í Landsbankanum er á lokastigi og gert ráð fyrir að hún fari fram í septembermánuði. Stefnt er að því að útgáfa nýs hlutafjár í Búnaðarbanka fari fram eigi síðar en í febrúar 1999, en nánari tímasetning fari eftir aðstæðum á hlutabréfamarkaði. Undirbúningur verði í höndum Búnaðarbankans í nánu samráði við viðskiptaráðuneytið.
          Liður í fyrrgreindri útgáfu verði að starfsmönnum hvors banka verði boðið að skrá sig fyrir hlutabréfum í sínum banka, á kjörum sem þegar hafa verið ákveðin af ríkisstjórn, í því skyni að efla tengsl þeirra við fyrirtækið.
          Hlutabréf bankanna verði skráð á Verðbréfaþingi Íslands á grundvelli fyrrgreindrar sölu. Með því móti verði verðmæti bankanna mælt með viðskiptum á markaði og við­skiptalegur agi skráningar nýttur þeim til framdráttar.
          Framangreindar aðgerðir verði nýttar til hins ítrasta af stjórnendum bankanna til að styrkja markaðslega ímynd þeirra og efla samkeppnishæfni, meðal annars með innri hagræðingu og tækninýjungum.
          Í kjölfar þessara aðgerða og með hliðsjón af árangri bankanna verði stefna mótuð um sölu á hlutafé ríkissjóðs í bönkunum. Tryggt verður að eigi síðar en 1. júní árið 2000 verði meira en 25% af heildarhlutafé bankanna í dreifðri eignaraðild í samræmi við reglur Verðbréfaþings.

Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf.
          Hafin verði sala hlutafjár ríkissjóðs í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. á þessu ári. Nánari ákvörðun um útfærslu sölunnar verði tekin af iðnaðar- og sjávarútvegsráðherra.
          Lagt verði til við Alþingi í upphafi komandi löggjafarþings að heimiluð verði sala á öllu hlutafé ríkissjóðs í fjárfestingarbankanum.
          Hluti af fyrsta áfanga fyrrgreindrar sölu verði nýttur til að bjóða starfsmönnum Fjárfestingarbankans og þeim starfsmönnum hinna gömlu fjárfestingarlánasjóða sem tóku starfi í Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, eða höfnuðu starfi, áskrift að hlutabréfum að tiltekinni upphæð á kjörum sem jafna megi til þeirra kjara sem bjóðast starfsmönnum Landsbanka og Búnaðarbanka.
          Hlutabréf bankans verði skráð á Verðbréfaþingi Íslands á grundvelli fyrrgreindrar sölu í því skyni að markaðurinn myndi verð á honum.
          Framkvæmdanefnd um einkavæðingu annist framkvæmd sölu til einstaklinga í fyrsta áfanga, í nánu samráði við iðnaðarráðuneyti og sjávarútvegsráðuneyti og stjórnendur Fjárfestingarbankans. Undirbúningur sölu til kjölfestufjárfesta verði í höndum iðnaðar­ráðuneytis og sjávarútvegsráðuneytis.
          Við sölu Fjárfestingarbankans verði sjálfstæði hans sem samkeppnisaðila á íslenskum samkeppnismarkaði tryggt.“

    Það er mat ríkisstjórnarinnar að mikilvægt sé að hraða sölu hlutafjár í FBA og að stefna beri að því að selja allt hlutafé ríkissjóðs í bankanum á fyrri hluta ársins 1999 ef aðstæður leyfa. Ástæðan er einkum sú að engin rök hníga lengur til þess að ríkið sé stór eigandi hluta­fjár í bankanum. Það er sameiginleg afstaða stjórnvalda og stjórnenda bankans að staða bankans á samkeppnismarkaði verði betur tryggð með því að ríkið selji allan hlut sinn og að engin ástæða sé til lengri aðlögunartíma. Þá er sala hlutafjár í bankanum liður í aðgerðum til að sporna við þenslu, auk þess sem ríkissjóður fær góðar tekjur af sölunni.
    Stefnu ríkisstjórnarinnar hefur þegar verið framfylgt að nokkru. Þannig ákvað viðskipta­ráðherra á hluthafafundi Landsbanka Íslands 3. september sl. að heimila hækkun hlutafjár sem nemur allt að 1.000 m.kr. að nafnverði með almennu útboði. Útboðið hefur nú farið fram og skráðu liðlega 12.200 aðilar sig fyrir hlutabréfum. Þar af voru 1.200 núverandi og fyrr­verandi starfsmenn sem fengu að skrá sig fyrir hlutafé allt að 250 þús. kr. að nafnvirði á sérstöku gengi. Bankinn verður næstfjölmennasta hlutafélag landsins á eftir Eimskipafélagi Íslands og verður skráður á Verðbréfaþingi Íslands.
    Hinn 29. september sl. ákvað viðskiptaráðherra á hluthafafundi í Búnaðarbanka Íslands að heimila hækkun hlutafjár félagsins um allt að 600 m.kr. Er fyrirhugað að sala til starfs­manna fari fram í október en að útboð til almennings fari fram í nóvember. Þetta er heldur fyrr en áætlað var í stefnumótun ríkisstjórnarinnar, en það helgast af örum vexti bankans á síðustu mánuðum.
    Þá er undirbúningur að sölu 49% hlutafjár í Fjárfestingarbankanum á lokastigi, sbr. um­fjöllun hér á eftir. Við lokaákvörðun um tilhögun þeirrar sölu var dreginn lærdómur af nýaf­stöðnu útboði hlutafjár í Landsbankanum.
    Óhætt er að segja að stefnumótun ríkisstjórnarinnar hafi hlotið góðar viðtökur ef marka má gífurlegan áhuga almennings á hlutabréfum í Landsbankanum. Engin ástæða er til annars en að ætla að viðtökur almennings verði einnig góðar þegar sala á hlutafé í Búnaðarbanka og Fjárfestingarbanka hefst.

Tilhögun sölu hlutafjár í Fjárfestingarbankanum.
    Undirbúningur að sölu 49% hlutafjárins í samræmi við núgildandi heimildir er nú á loka­stigi, en framkvæmdanefnd um einkavæðingu var falið að undirbúa söluna í samráði við iðn­aðarráðuneyti, sjávarútvegsráðuneyti og stjórnendur bankans. Gert er ráð fyrir að selja á þessu ári 49% hlutafjár í bankanum. Salan fari fram í áskrift með þeim hætti að hver áskrif­andi geti skráð sig fyrir allt að 3,0 m.kr. að nafnverði. Verði um umframáskrift að ræða skerðist hámarksfjárhæð sem hverjum áskrifanda er heimilt að kaupa fyrir. Verði eftirspurn eftir áskrift hins vegar ekki nægileg til að selja 49% hlutafjár með þessum hætti skal leita tilboða í þann hluta sem ekki selst, þó þannig að einstakir aðilar geti aðeins keypt hlutafé sem nemi allt að 3% hlutafjár í bankanum í slíkri sölu.
    Jafnframt er eins og fram er komið gert ráð fyrir að starfsmönnum bankans og þeim starfs­mönnum hinna gömlu fjárfestingarlánasjóða sem ekki fengu starf hjá bankanum verði boðin áskrift hlutafjár á kjörum sem jafna má til þeirra kjara sem bjóðast starfsmönnum Lands­banka og Búnaðarbanka. Framkvæmdanefnd um einkavæðingu var falið að útfæra nánar hvernig þessari sölu yrði háttað. Á grundvelli tillagna hennar hefur verið ákveðið að starfs­mönnum verði heimilað sérstaklega að kaupa hlutabréf í bankanum á ákveðnum greiðslu­kjörum til þriggja ára.
    Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig staðið verði að sölu hlutafjár í bankanum í síðari áfanga, þ.e. hvernig heimildir Alþingis til frekari sölu samkvæmt þessu frumvarpi verði nýttar. Þó er tekið fram í útboðs- og skráningarlýsingu vegna þeirrar sölu á hlutafé í bankanum sem nú er í undirbúningi að það sé vilji stjórnvalda að selja allan hlut ríkisins fyrir mitt næsta ár ef aðstæður leyfa og frumvarp þetta verður að lögum. Við þá sölu verði áfram stefnt að dreifðri eignaraðild og sjálfstæði FBA sem samkeppnisaðila á íslenskum samkeppnismarkaði. Í því efni er miðað við að hlutdeild hvers aðila í frumsölu verði ekki hærri en sem nemur 5–10% hlutafjár í bankanum. Jafnframt verði hugað að skráningu félags­ins á hlutabréfamarkaði erlendis, auk skráningar á Verðbréfaþingi Íslands. Nánari útfærsla sölunnar mun þó ráðast af þeirri reynslu sem fást mun af þeirri sölu sem nú fer fram og því sem hagkvæmast þykir á þeim tíma.

Starfsemi Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.
    Stofnfundur Fjárfestingarbanka atvinnulífsins var haldinn 30. júní 1997 og framhalds­stofnfundur 10. september 1997. Forstjóri var ráðinn 16. september 1997. Á haustmánuðum 1997 var unnið að undirbúningi að starfsemi bankans. Meðal annars var unnið að stefnumót­un, innra skipulagi, ráðningu starfsmanna, vali og breytingu á húsnæði, vali og uppsetningu á upplýsingakerfum og mótun gagnagrunna.
    Formleg starfsemi FBA hófst 1. janúar 1998 þegar bankinn tók við eignum og skuldum fjárfestingarlánasjóðanna fjögurra, Fiskveiðasjóðs Íslands, Iðnlánasjóðs, Iðnþróunarsjóðs og Útflutningslánasjóðs sem greiðslu á hlutafé. Var hlutafé bankans ákveðið 6.800 m.kr. að nafnverði en eigið fé var 8.043 m.kr. og heildareignir 54.432 m.kr.
    Fjárfestingarbankinn hefur skilgreint hlutverk sitt svo að hann veiti íslensku atvinnulífi víðtæka þjónustu við öflun, stýringu og hreyfingu á fjármagni. Starfsheimildir bankans eru hinar almennu heimildir lánastofnana samkvæmt lögum nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
    Bankinn hefur lagt áherslu á þjónustu við stóra og meðalstóra viðskiptavini til að nýta eigið fé bankans sem best og veita sérsniðnar heildarlausnir við fjármögnun og áhættustýr­ingu.
    Starfsemi FBA er skipt í þrjú meginsvið: Fyrirtækjaþjónustu sem hefur umsjón með lán­veitingum og tengsl við viðskiptamenn, markaðsviðskipti þar sem fram fara viðskipti og ráð­gjöf með innlend og erlend verðbréf, afleiður og gjaldeyri og skulda- og áhættustýringu sem annast fjármögnun bankans með erlendum og innlendum lántökum, áhættustýringu og eftirlit með lánastarfsemi. Til hliðar við þessi svið eru stoðdeildir bankans: reikningshald, bak­vinnsla og áætlanagerð, starfsmannaþjónusta, upplýsinga- og gæðamál, lögfræði- og mark­aðsþjónusta. Beint undir stjórn bankans heyrir innri endurskoðun.
    Fjárfestingarbankinn hefur frá upphafi reynst virkur samkeppnishvati á íslenskum fjár­magnsmarkaði, en það var eitt helsta markmið stjórnvalda með stofnun hans. Færa má rök fyrir því að þær breytingar sem áttu sér stað um síðustu áramót með stofnun Fjárfestingarbankans og stofnun hlutafélaga um ríkisviðskiptabankana hafi átt þátt í lækkun vaxtamunar í bankakerfinu sem nam 0,4% á fyrstu sex mánuðum ársins. Þá hefur víkkun þjónustusviða og minnkandi hólfun á fjármálamarkaði einnig gengið eftir. Þessar breytingar hafa því tví­mælalaust lagt grunninn að hagkvæmari fjármálaþjónustu.
    Starfsemi Fjárfestingarbankans á fyrstu mánuðum ársins hefur skipt verulegu máli í þessu efni. Lögð hefur verið áhersla á að nýta þekkingu gamalla og nýrra starfsmanna bankans á möguleikum fjármálamarkaðarins ásamt þekkingu á starfsemi viðskiptavina til að sérsníða lausnir að þörfum viðskiptavina. Bankinn hefur tekið þátt í alþjóðlegri verkefnisfjármögnun, annast stór skuldabréfaútboð og haft umsjón með nýjungum á sviði innlendra fjölbankalána, svo dæmi séu nefnd. Jafnframt hefur bankinn veitt fjölmörgum minni aðilum fjárfestingar- og rekstrarlán, haft forgöngu um að meta lán eftir greiðslustreymi og framtíðarmöguleikum og aðstoðað fyrirtæki við verðmat og kaup og sölu fyrirtækja innan lands og utan.
    Með stofnun bankans tókst einnig að búa til einingu sem þykir áhugaverð á erlendum lánamörkuðum en FBA tók um mitt ár erlent fjölbankalán að upphæð 8,5 milljarðar kr. á betri kjörum en áður höfðu boðist slíkum stofnunum. Bankinn er að mestu fjármagnaður á heildsölumarkaði, og eru um 80% af lánum hans erlend að uppruna, enda fjármagnar bankinn að allverulegu leyti mikilvægar útflutningsgreinar sem hafa tekjustreymi í erlendum gjald­miðlum. Kostnaðarhlutfall bankans er lægra en viðskiptabankanna, enda er bankinn mjög sérhæfður og starfsemi aðeins á einum stað. Hann nýtur þó ekki kosta dreifinetsútibúa, svo sem varðandi dreifða fjármögnun frá almenningi. Þetta lága kostnaðarhlutfall FBA setur þrýsting á viðskiptabankana að nýta þá fjárfestingu sem fólgin er í útibúanetinu og leita aukinnar hagræðingar. Sérhæfing FBA þýðir jafnframt að öll starfsemi og athygli bankans beinist að uppbyggingu atvinnuveganna, ólíkt viðskiptabönkunum sem í eðli sínu sinna bæði heimilum og atvinnuvegum.
    Samkvæmt milliuppgjöri Fjárfestingarbankans var hagnaður fyrstu sex mánuði þessa árs 349 m.kr. og var það 11% umfram áætlanir félagsins. Eigið fé er nú 8.474 m.kr.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Samkvæmt núgildandi 6. gr. laga nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífs­ins hf., er heimilt að selja allt að 49% hlutafjár ríkissjóðs í bankanum. Þá segir í greininni að iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra skuli þegar eftir gildistöku laganna hefja undir­búning að sölu hlutafjár í bankanum. Lagt er til að í stað þessa ákvæðis komi nýtt ákvæði þar sem fram komi heimild til sölu á öllu hlutafé ríkissjóðs í bankanum. Skv. 5. gr. laganna fara iðnaðarráðherra og sjávarútvegsráðherra saman með eignarhlut ríkisins í bankanum. Af því leiðir að þeir muni annast undirbúning frekari sölu.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 60/1997,
um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf.

    Með frumvarpinu er lagt til að heimiluð verði sala á öllu hlutafé ríkissjóðs í Fjárfestingar­banka atvinnulífsins hf., en í lögum um stofnun bankans er heimild til sölu á allt að 49% hlutafjár í honum. Í samræmi við ákvæði 7. gr. laga nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð at­vinnulífsins, er í fjárlögum fyrir árið 1998 gert ráð fyrir 350 m.kr. stofnfjárframlagi í sjóðinn af söluandvirði Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. og 650 m.kr. í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 1999. Ekki fylgir því kostnaður fyrir ríkissjóð að hlutafé í Fjárfestingarbankanum verði selt, umfram það sem ætlað er til slíkra verkefna í fjárlögum. Þegar er fyrir hendi 15 m.kr. fjárveiting í fjárlögum fyrir árið 1998 til að kosta útboðs- og einkavæðingarverkefni ríkis­sjóðs og er sama fjárhæð lögð til í frumvarpi til fjárlaga 1999. Söluandvirðið verður notað til að lækka skuldir ríkissjóðs og dregur úr vaxtagjöldum auk þess sem afskipti ríkisins af fjármálastarfsemi í landinu minnkar við söluna. Athygli er vakin á því að í greinargerð með frumvarpinu er við það miðað að starfsmönnum Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf. verði boðin sérstök greiðslukjör við kaup á hlutabréfum í bankanum, núvirði söluandvirðis bréf­anna verður lægra er þeim kjörum nemur.