Ferill 63. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 263  —  63. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um rekstrarkostnað Vegagerðarinn­ar.

    Yfirstjórn Vegagerðarinnar mynda fjórir menn, vegamálastjóri, aðstoðarvegamálastjóri og framkvæmdastjórar tæknisviðs og stjórnsýslusviðs (sjá skipurit í fylgiskjali). Svarið mið­ast við að þessir fjórir séu þeir stjórnendur sem spurt er um. Er þá einnig haft í huga að stjórn­endur neðar í skipuritinu taka ekki ákvarðanir um þá hluti sem spurt er um.
    Til upplýsingar skal þess getið að starfsmenn Vegagerðarinnar voru 350 í árslok 1997 og útgjöld hennar á því ári 7.407 millj. kr.

     1.      Hver voru laun, lífeyrisréttindi og önnur starfskjör stjórnenda Vegagerðarinnar, sundurliðað eftir stöðuheitum, fjölda stjórnenda, kynjum, föstum launum,öðrum greiðslum eins og stjórnargreiðslum og hvers konar þókunum og hlunnindum, þ.m.t. bílahlunn­indum og risnu, á árunum 1993–97?
    Í töflu 1.1. er yfirlit yfir laun stjórnenda Vegagerðarinnar á árunum 1993–97. Þar koma fram meðalárslaun þeirra greidd af Vegagerðinni á verðlagi hvers árs. Einnig koma fram í töflunni greiðslur sem viðkomandi stjórnendur hafa fengið frá ráðuneytum, öðrum ríkisstofn­unum og fyrirtækjum fyrir setu í nefndum og stjórnum. Hér er bæði um að ræða fasta setu samkvæmt lögum og tímabundnar tilnefningar að ósk ráðuneyta.
    Laun vegamálastjóra eru úrskurðuð af kjaranefnd en laun hinna eru ákvörðuð af fjármála­ráðuneytinu (svokölluð ráðherraröðun) og vegamálastjóra. Stjórnendur eru á fastlaunasamn­ingi, þ.e. þeir fá greiddan ákveðinn fjölda yfirvinnustunda á mánuði auk dagvinnu. Ekki er greitt sérstaklega fyrir nefndastörf eða önnur störf innan stofnunarinnar.

Tafla 1.1. Meðalárslaun stjórnenda Vegagerðarinnar á árunum 1993-1997. 1
1993 1994 1995 1996 1997
þús. kr. þús. kr. þús. kr. þús. kr. þús. kr.
Heildarárslaun frá Vegagerðinni2 3.458 3.621 3.652 4.028 4.201
Greiðslur fyrir nefndastörf 3 318 358 187 240 255
Samtals 3.776 3.979 3.839 4.268 4.456
1    Stjórnendur eru fjórir að undanteknu árinu 1994, en þá var einn þeirra í launalausu leyfi.
2    Tölurnar sýna meðaltal heildarlaunagreiðslna á árinu, þar með yfirvinnu.
3    Greiðslur fyrir nefndastörf eru greiðslur frá öðrum en Vegagerðinni fyrir setu í nefndum, ráðum og stjórnum sem tengd er störfum þessara stjórnenda hjá Vegagerðinni. Samgönguráðuneytið hefur ekki yfirlit yfir allar þessar greiðslur en stjórnendur Vegagerðarinnar hafa veitt upplýsingar um þær.

    Stjórnendur greiða allir í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (B-deild) og munu njóta rétt­inda samkvæmt því. Þeir njóta engra annarra sérstakra lífeyrisréttinda sem tengd eru starfi þeirra hjá Vegagerðinni.
    Ekki er um svonefnd bifreiðahlunnindi að ræða en greitt er fyrir afnot af bifreiðum í sam­ræmi við reglur og ákvarðanir fjármálaráðuneytis, bílanefndar og ferðakostnaðarnefndar. Greitt er samkvæmt svokölluðum blönduðum samningum, þ.e. greitt er fyrir fastan kílómetra­fjölda vegna aksturs innan höfuðborgarsvæðisins en kílómetragjald samkvæmt akstursbók utan þess svæðis. Fram til 1. október 1995 var föst greiðsla fyrir 3.000–6.000 km á ári en frá þeim tíma 2.000 km á ári, sem nemur 72.300 kr. miðað við núgildandi taxta ferðakostnaðar­nefndar. Akstur stjórnenda samkvæmt akstursdagbók utan höfuðborgarsvæðisins er breytileg­ur frá ári til árs. Á árinu 1997 varð hann mestur tæpir 1.400 km hjá einum stjórnendanna.
    Vegagerðin tekur þátt í símakostnaði (heimilissíma) stjórnenda og fleiri starfsmanna gegn því að birta megi heimilissíma þeirra undir nafni Vegagerðarinnar í símaskrá og þar með að ónáða megi þá í frítíma án aukakostnaðar fyrir Vegagerðina. Greiðslur þessar nema föstu af­notagjaldi heimilissíma auk 75% af kostnaði við umframsímtöl, þó að hámarki 2.000 skref. á ársfjórðungi. Greiðslurnar geta numið 6.400–33.000 kr. á ári miðað við gildandi gjaldskrár.
    Enginn stjórnendanna fær risnugreiðslur frá Vegagerðinni. Stjórnendurnir eru allir karl­kyns og eru með háskólamenntun.

     2.      Hver hefur verið kostnaður af utanlandsferðum árlega 1993–97, að báðum árum meðtöldum, hve margar ferðir voru farnar hvert árið um sig og hvernig sundurliðast kostn­aðurinn eftir flugfargjöldum, gistikostnaði og dagpeningagreiðslum? — Sérstaklega er óskað eftir sundurliðun á fjölda ferða stjórnenda, og maka þeirra sé um það að ræða, og tilgreindur árlegur sundurliðaður kostnaður við þær.
    Í töflu 2.1. er yfirlit yfir kostnað við utanlandsferðir starfsmanna Vegagerðarinnar á árun­um 1993–97. Auk þess kemur þar fram ferðafjöldi, fjöldi þeirra sem hafa farið til útlanda á vegum stofnunarinnar á þessum árum, fjöldi ferðadaga og -nátta og sundurliðun á ferðakostn­aði.
    Ferðirnar eru flokkaðar í endurmenntunarferðir, ferðir þar sem Vegagerðin tekur þátt í kostnaði að hluta og almennar ferðir. Einnig koma fram í töflunni þær upphæðir sem ESB hef­ur endurgreitt Vegagerðinni á árunum 1995–97. Endurmenntunarferðir eru samkvæmt kjara­samningum. Reynt er að takmarka fjölda endurmenntunarferða við 2–3 á ári.

Tafla 2.1. Utanlandsferðir greiddar að öllu leyti eða að hluta af Vegagerðinni á árunum 1993–97.


Ár


Ferðir

Starfs-
menn

    Dagpeninga-
dagar       nætur
Heildar-
kostnaður
þús. kr.
Far-
gjöld
þús. kr.
Dag-
peningar
þús. kr.

Annað2
þús. kr.
Endurmenntun 1993 4 4 300 1 3.534 241 3.195 98
Greitt að hluta3 1993 3 3 16 1 265 248 17
Almennar ferðir 1993 49 37 376 1 9.422 2.533 5.906 983
Endurgreitt af ESB4 1993 0
Samtals 1993 56 44 692 1 13.221 2.774 9.349 1.098
Endurmenntun 1994 3 3 228 1 2.820 234 2.392 194
Greitt að hluta3 1994 4 4 22 1 439 353 86
Almennar ferðir 1994 55 41 376 1 10.578 3.175 5.939 1.464
Endurgreitt af ESB4 1994 0
Samtals 1994 62 48 626 13.837 3.409 8.684 1.744
Endurmenntun 1995 2 2 109 107 1.656 148 1.176 332
Greitt að hluta3 1995 6 6 26 14 319 319
Almennar ferðir 1995 68 41 435 366 11.842 3.786 6.337 1.719
Endurgreitt af ESB4 1995 -946
Samtals 1995 76 49 570 487 12.871 3.934 7.832 2.051
Endurmenntun 1996 2 2 180 178 2.054 165 1.889
Greitt að hluta3 1996 11 9 42 32 640 599 41
Almennar ferðir 1996 62 37 375 309 11.013 3.954 5.542 1.517
Endurgreitt af ESB4 1996 -1.487
Samtals 1996 75 48 597 519 12.220 4.119 8.030 1.558
Endurmenntun 1997 2 2 122 120 1.741 123 1.492 126
Greitt að hluta3 1997 3 3 16 2 159 152 7
Almennar ferðir 1997 82 40 477 388 14.223 5.458 7.512 1.253
Endurgreitt af ESB4 1997 -1.382
Samtals 1997 87 45 615 510 14.741 5.581 9.156 1.386
1    Fram til 1. nóvember 1994 var upphæð sú sem ferðakostnaðarnefnd ákvað fyrir dagpeninga til greiðslu ferðakostnaðar ríkisstarfsmanna á ferðalögum erlendis á vegum ríkisins óskipt þannig að greitt var fyrir hvern byrjaðan sólarhring. Eftir það var dagpeningagreiðslum skipt í greiðslur fyrir gistingu og greiðslur fyrir annað.
2    Annar kostnaður er að langmestu leyti ráðstefnugjöld og námskeiðsgjöld. Fargjöld með lestum og ferjum eru talin með í fargjaldadálkinum en eru sjaldgæf og vega ekki þungt í tölunum.
3    Hér er um að ræða ferðir sem starfsmenn fara í tengslum við starf sitt hjá Vegagerðinni en eru greiddar að stórum hluta af öðrum, svo sem þjálfunar- og kennsluferðir styrktar af endurmenntunarsjóðum eða greiddar af framleiðendum véla eða tæknibúnaðar þar sem þjálfun er innifalin í kaupverðinu.
4    Í nokkrum Evrópuverkefnum tekur ESB þátt í ferðakostnaði þátttakenda.
    Í töflu 2.2. má sjá yfirlit yfir utanlandsferðir stjórnenda Vegagerðarinnar á árunum 1993–97. Sömu flokkun upplýsinga er að finna í töflunni og í töflu 2.1.

Tafla 2.2. Utanlandsferðir stjórnenda Vegagerðarinnar 1993–97.1

Ár

Ferðir
Dagpeninga-
dagar  nætur
  Heildarkostnaður
þús. kr.     
Fargjöld
þús. kr.
Dagpeningar
þús. kr.
Annað2
þús. kr.
Endurgeiðslur ESB3
þús. kr.
1993 14 92 2 2.592 940 1.463 189 0
1994 11 50 2 1.558 694 788 76 0
1995 19 92 72 1.941 1.292 1.292 303 -946
1996 17 86 69 1.731 1.323 1.250 258 -1.100
1997 16 75 55 2.119 1.363 1.117 64 -425
1    Stjórnendur eru fjórir að undanteknu árinu 1994 en þá var einn í launalausu leyfi.
2    Fram til 1. nóvember 1994 var upphæð sú sem ferðakostnaðarnefnd ákvað fyrir dagpeninga til greiðslu ferðakostnaðar ríkisstarfsmanna á ferðalögum erlendis á vegum ríkisins óskipt þannig að greitt var fyrir hvern byrjaðan sólarhring. Eftir það var dagpeningagreiðslum skipt í greiðslur fyrir gistingu og greiðslur fyrir annað.
3    Endurgreiðslur frá ESB berast eftir á og lenda ekki ávallt á bókhaldsárinu þegar ferðin er farin.

    Í báðum töflunum kemur fram heildarkostnaður Vegagerðarinnar af utanlandsferðum á þessum árum. Vegagerðin greiðir fargjöld, dagpeninga samkvæmt ákvörðun ferðakostnaðarnefndar og ráðstefnu- og námskeiðsgjöld starfsmanna sinna, stjórnenda jafnt sem annarra, sem eru í utanlandsferðum á vegum hennar. Vegagerðin greiðir hvorki fargjöld, dagpeninga né annan kostnað maka fylgi þeir starfsmanni í utanlandsferð.
    Vegagerðin hefur um langt skeið tekið þátt í norrænu samstarfi. Þessi samvinna er mest á tæknisviðinu og einkum við vegagerðir annars staðar á Norðurlöndunum og í gegnum Nor­ræna vegtæknisambandið (NVF) en einnig við ráð og nefndir sem heyra undir Norðurlanda­ráð. Ferðir vegna þessa norræna samstarfs voru 29 árið 1997 eða þriðjungur af ferðunum og hefur það hlutfall verið svipað eða ívið hærra undanfarin ár. Norræna samstarfið er yfirleitt byggt upp þannig að fundir eru haldnir til skiptis í löndunum. Árlega koma á bilinu 50–100 fulltrúar til Íslands á fundi vegna þessa samstarfs.
    Á árinu 1994 hóf Vegagerðin þátttöku í vinnu og samstarfi tengdu EES og ESB. Er annars vegar um að ræða vinnu í tengslum við þær reglugerðir ESB sem Ísland þarf að taka upp vegna EES og tengjast ökutækjum, vegum og umferð. Hins vegar er þátttaka í rannsóknar- og þróunarverkefnum ESB tengdum vegagerð.
    Vegagerðin á fulltrúa í stjórnarnefndum rannsóknanna og tekur að jafnaði beinan þátt í 8–10 rannsóknarverkefnum. Vegagerðin hefur unnið að því að fá hluta af þessum verkefnum til Íslands og hefur það borið nokkurn árangur. Er gert ráð fyrir að Vegagerðin fái alls 2–3 millj. kr. á ári frá ESB í sinn hlut til þessara verkefna. Það skal tekið fram að ESB endur­greiðir þess utan hluta ferðakostnaðar sem tengdur er þessari vinnu.
    Farnar voru 24 ferðir vegna Evrópusamstarfs árið 1997, þar af endurgreiddi ESB hluta af kostnaði við 17 ferðir. Ferðum þessum hefur farið fjölgandi frá árinu 1994 en þá voru þær 6 talsins, 12 á árinu 1995 og 20 á árinu 1996 og skýrir þessi þróun að verulegu leyti fjölgun utanferða á tímabilinu.
    Aðrar utanferðir miða að viðhaldi og öflun þekkingar með því að senda starfsmenn til þjálfunar og á námskeið, ráðstefnur og sýningar. Starfsmenn sem sendir eru koma úr hinum ýmsu starfsgreinum hjá Vegagerðinni. Mikil dreifing er á þátttöku í utanferðum eins og sést á fjölda þátttakenda í þeim.

     3.      Hvaða reglur gilda um bifreiðahlunnindi, risnu- og ferðakostnað stjórnenda?
    Varðandi svonefnd bifreiðahlunnindi stjórnenda er vísað til svars við 1. tölul.
    Um risnu hjá Vegagerðinni gilda reglur um risnu settar af fjármálaráðuneytinu 10. desem­ber 1992. Sömu reglur um risnu gilda fyrir alla starfsmenn stofnunarinnar og hvorki stjórn­endur né aðrir fá sjálfir risnugreiðslur, hvorki fastar né tilfallandi.
    Um ferðakostnað hjá Vegagerðinni gilda reglur fjármálaráðuneytisins frá 3. febrúar 1992 um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins. Eiga þær við bæði um ferðalög innan lands og erlendis og gilda fyrir stjórnendur Vegagerðarinnar jafnt sem aðra starfsmenn. Dagpeningagreiðslur á ferðalögum bæði innan lands og erlendis fara eftir auglýsingum ferða­kostnaðarnefndar um dagpeninga hverju sinni og er ekki um frekari greiðslur að ræða á per­sónulegum kostnaði.
    Á ferðalögum innan lands er leitast við að ná sem hagstæðustum fargjöldum og er fargjald greitt samkvæmt reikningi. Starfsmenn Vegagerðarinnar fá yfirleitt dagpeninga þegar þeir ferðast á vegum stofnunarinnar innan lands samkvæmt samkomulagi þar um en Vegagerðin telur það fyrirkomulag hagkvæmara en greiðslur samkvæmt reikningi.
    Á ferðalögum erlendis er sömuleiðis leitast við að ná sem hagstæðustum fargjöldum og miðað við að samanlagður kostnaður af fargjöldum og dagpeningum verði sem lægstur.
    Á ferðalögum erlendis á vegum Vegagerðarinnar fá starfsmenn dagpeninga samkvæmt reglum fjármálaráðuneytisins og ferðakostnaðarnefndar. Kostnaður, annar en fargjöld og dagpeningar, sem Vegagerðin greiðir vegna utanlandsferða starfsmanna sinna er ráðstefnu­gjöld, námskeiðsgjöld, aðgangseyrir að sýningum o.þ.h.

     4.      Hver var árlegur risnukostnaður1993–97, að báðum árum meðtöldum:
                  a.      föst risna greidd einstökum stjórnendum,
                  b.      risna greidd samkvæmt reikningi?
        Óskað er eftir sundurgreiningu á helstu þáttum risnunnar og kostnaði við hvern þeirra, auk helstu tilefna risnunnar.

    Föst risna er ekki greidd stjórnendum eða öðrum hjá Vegagerðinni, sbr. svar við 3. tölulið.
    Í töflu 4.1. má sjá yfirlit yfir bókfærðan risnukostnað hjá Vegagerðinni og sundurliðun á honum árin 1993–97. Þar má sjá að risnuútgjöld eru mest í tengslum við norrænt samstarf en þar á eftir koma vígslur mannvirkja og fundir innan Vegagerðarinnar. Fjöldi funda í norræna samstarfinu sem haldnir eru á Íslandi er mjög breytilegur milli ára. Árið 1995 voru óvenju­margir fundir haldnir hér auk þess sem hér var haldinn sérstakur hátíðarfundur Norræna veg­tæknisambandsins (NVF) í tilefni af 60 ára afmæli þess. Risna sem veitt er þessum erlendu gestum er hádegis- og/eða kvöldverður og að jafnaði með vínveitingum. Einnig er oft boðið í stuttar skoðunarferðir og þá gjarnan boðið eitthvað þjóðlegt í leiðinni, einkum hákarl, harð­fiskur og íslenskt brennivín.

Tafla 4.1 Risnukostnaður hjá Vegagerðinni á árunum 1993–97 (í þús. kr.).
1993 1994 1995 1996 1997
Bókfærður risnukostnaður alls: 2.783 1.545 4.440 2.897 2.617
Sundurliðun:
    Norrænt samstarf 1.897 678 2.523 1.094 660
    Annað erlent samstarf 495 48 484 44 751
    Verklok og fundir innan Vg. 271 660 1.253 1.707 1.133
    Önnur tilefni 120 159 180 52 73
2.783 1.545 4.440 2.897 2.617

    Stærstu áfangar í vega- og brúagerð eru teknir formlega í notkun. Risnukostnaður vegna þessa er breytilegur eftir árum. Mestur var hann árið 1996, en þá voru m.a. opnuð jarðgöng undir Breiðadals- og Botnsheiði og einnig var haldið hóf þegar aftur náðist að koma á vega­sambandi um Skeiðarársand eftir hlaupið mikla fyrir alla þá sem þar lögðu hönd á plóg. Í hóf­um sem þessum er annaðhvort boðið kaffihlaðborð eða létt vín, bjór og pinnamatur.
    Risnukostnaður vegna funda innan Vegagerðarinnar hefur aukist nokkuð. Hér er einkum um að ræða aukningu á kostnaði við svonefnda starfsgreinafundi en þá koma saman starfs­menn Vegagerðarinnar úr ákveðinni starfsgrein af öllu landinu og bera saman bækur sínar um kjör sín og starfið en hafa ber í huga að Vegagerðin er með 18 starfsstöðvar um allt land. Vegagerðin hefur fremur ýtt undir slík fundahöld, enda telur hún þau efla kynni og bæta starfsanda innan stofnunarinnar.

     5.      Hefur verið farið í laxveiðiferðir á vegum Vegagerðarinnar? Ef svo er, hvernig skiptist árlegur kostnaður af þeim sl. 5 ár milli laxveiðileyfa og annarra útgjalda vegna ferð­anna? Hve margar ferðir voru farnar á ári hverju, hvert var farið, hverjir voru þátttak­endur í slíkum ferðum og hver voru tilefni þeirra?
    Ekki hefur verið farið í laxveiðiferðir á vegum Vegagerðarinnar.

     6.      Hverjir taka ákvarðanir um ferðir stjórnenda til útlanda og laxveiðar sé um þær að ræða?
    Svonefnd utanferðanefnd starfar innan Vegagerðarinnar. Nefndin gerir tillögur um utan­ferðir og fjallar um óskir og ábendingar starfsmanna, stjórnenda jafnt sem annarra. Vega­málastjóri fer síðan yfir tillögur utanferðanefndar og tekur um þær endanlega ákvörðun. Fram til 1996 var reglan sú að samgönguráðuneytið skyldi samþykkja allar utanlandsferðir á vegum Vegagerðarinnar. Eftir breytingu á reglum, sbr. auglýsingu nr. 13/1996, þar sem ráðuneytum var heimilað að fela stofnunum að annast útgáfu ferðaheimilda, fól samgönguráðuneytið Vegagerðinni að annast útgáfuna.
    Tilefni utanlandsferða stjórnenda Vegagerðarinnar verða oftast til innan Vegagerðarinnar, en einnig getur komið ósk frá samgönguráðuneytinu um að starfsmaður Vegagerðarinnar sinni verkefnum tengdum vegagerð á erlendri grund.
    Flestar utanlandsferðir stjórnenda Vegagerðarinnar eru í tengslum við þátttöku þeirra í norrænu samstarfi, Evrópusamstarfi og fundum hjá OECD. Árið 1997 voru 13 af 16 ferðum þeirra vegna þessara verkefna.
    Eins og kemur fram í svari við 5. lið er ekki farið í laxveiðiferðir á vegum Vegagerðarinn­ar.

Fylgiskjal.


Hér er myndað efni sem sést ekki í vefútgáfu