Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 298  —  260. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, nr. 40/1977, með síðari breyt­ingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)


1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Í sjálfvirku tilkynningarkerfi skulu skip tilkynna brottför og komu í höfn og staðsetningu sína á eftirfarandi hátt:
     a.      Skip sem eru 24 metrar að lengd eða lengri skulu tilkynna sig á tólf klukkustunda fresti.
     b.      Skip sem eru styttri en 24 metrar og er heimilt að sigla utan þjónustusvæðis sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu tilkynna sig á einnar klukkustundar fresti.
     c.      Skip sem eru styttri en 24 metrar og sigla á þjónustusvæði sjálfvirks tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu tilkynna sig á fimmtán mínútna fresti.
     d.      Skipum sem stunda takmarkaða sjósókn eða hafa aðeins sumarhaffæri er heimilt að tilkynna sig með öðrum leiðum eftir því sem nánar er ákveðið í reglugerð.

2. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Í sjálfvirku tilkynningarkerfi skal að lágmarki tilkynna auðkenni skips og staðsetningu þess.

3. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvæði 1. mgr. taka jafnframt til sjálfvirks tilkynningarkerfis.

4. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Sá sem annast rekstur fjarskiptanna skal sjá til þess að fjarskiptavirki séu til staðar til móttöku tilkynninga og áframhaldandi sendingar þeirra til eftirlitsstöðvar.

5. gr.

    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Handvirka tilkynningarkerfið skal rekið í allt að þrjú ár samhliða sjálfvirka tilkynningar­kerfinu.

6. gr.

    9. gr. laganna orðast svo:
    Fyrir þjónustu í handvirka tilkynningarkerfinu og tilkynningar um gervihnattasamband greiða eigendur skipanna fyrir fjarskiptin samkvæmt gjaldskrá þess sem þjónustuna veitir.
    Fyrir þjónustu í sjálfvirka tilkynningarkerfinu skal eigandi hvers skips greiða umsamið árgjald sem rennur til Slysavarnafélags Íslands til að mæta kostnaði þess.


7. gr.

    11. gr. laganna fellur brott og breytist greinatala samkvæmt því.

8. gr.

    12. gr. laganna, er verður 11. gr., orðast svo:
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd þessara laga.

9. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. febrúar 1999.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu og er tilgangur þess að gera nauðsynleg­ar breytingar á lögum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, nr. 40/1977, með síðari breyt­ingum, vegna sjálfvirks tilkynningarkerfis sem áformað er að taka í notkun 1. febrúar 1999.     Aðdragandi þess að koma á sjálfvirku tilkynningarkerfi fyrir íslensk skip á sér langa sögu, en handvirk tilkynningarskylda íslenskra skipa hefur verið við lýði í rúm tuttugu ár. Sam­kvæmt lögum um tilkynningarskyldu íslenskra skipa skulu öll skip önnur en varðskip tilkynna brottför úr höfn, komu í höfn og staðsetningu a.m.k. einu sinni á sólarhring. Skv. 7. gr. lag­anna skal Landssími Íslands sjá um að strandstöðvar séu til staðar til móttöku þessara til­kynninga og áframhaldandi sendingar þeirra til eftirlitsmiðstöðvar. Skv. 8. gr. laganna skal Slysavarnafélag Íslands fara með yfirstjórn tilkynningarskyldunnar og eftirlitsmiðstöðvar­innar í Reykjavík.
    Frá árinu 1983 hefur Alþingi nánast árlega veitt fé til undirbúnings við sjálfvirkt tilkynn­ingarkerfi fyrir skip og hefur verið unnið að þessu máli í samráði við marga aðila, m.a. hagsmunaaðila, Háskóla Íslands, Póst- og símamálastofnun og Slysavarnafélag Íslands.
    Eftir að ný lög um eftirlit með skipum, nr. 35/1993, tóku gildi var sett reglugerð á grund­velli þeirra, nr. 295/1994, um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa. Í 3. gr. hennar er m.a. kveðið á um að öll íslensk skip sem sigla á hafsvæði A1 og A2 skuli búin tækjum til sjálfvirkrar tilkynningarskyldu frá og með 1. febrúar 1999, en veita má undanþágu til skipa sem einungis sigla tímabundið inn á svæðið.
    Enn fremur er kveðið á um að skip á hafsvæði A1 sem samkvæmt reglugerðinni er haf­svæði sem takmarkast af langdrægni strandstöðva til talfjarskipta og viðvarana á metra­bylgju skuli búin stafrænu valkalli (DSC — Digital Selective Calling) á því tíðnisviði og að öll skip skuli búin NAVTEX viðtækjum.
    Hafsvæði A2 er samkvæmt reglugerðinni svæði utan við hafsvæði A1 sem takmarkast af langdrægi strandstöðva til talfjarskipta og viðvarana með stafrænu valkalli á millibylgju (MF).
    Hinn 14. maí 1994 gerði samgönguráðuneytið samkomulag við Póst- og símamálastofnun og Slysavarnafélag Íslands um að vinna að uppsetningu sjálfvirks tilkynningarkerfis fyrir íslensk skip. Aðdragandi þess að taka upp sjálfvirkt tilkynningarkerfi er lengri og unnið hefur verið að þessu máli samfellt um nokkurt skeið í samgönguráðuneytinu og gerðar úttektir og skýrslur um fyrirkomulag og framkvæmd verkefnisins. Samkvæmt samkomulaginu var Slysavarnafélaginu falið að annast áfram rekstur tilkynningarskyldunnar og byggja upp og reka eftirlitssstöð sem gæti tekið á móti sjálfvirkum tilkynningum auk handvirkra tilkynninga eins og áður. Póst- og símamálastofnun var aftur á móti falið að byggja upp og reka fjarskiptakerfi í landi. Með samkomulaginu var sömu aðilum og séð höfðu um og rekið til­kynningarkerfi íslenskra skipa í tæp tuttugu ár falið að sjálfvirknivæða það.
    Hinn 1. október 1997 fól samgönguráðuneytið Póst- og fjarskiptastofnun að annast framkvæmd á sjálfvirku tilkynningarkerfi að því er varðar fjarskiptaþátt þess og semja við Póst og síma hf. (nú Landssíma Íslands hf.) um uppbyggingu fjarskiptahluta þess. Í stuttu máli má segja að sjálfvirka tilkynningarkerfið samanstandi af eftirfarandi þáttum:
          landstöðvum sem annast samskipti við skipin og eru lítið frábrugðnar hefðbundnum strandstöðvum. Ráðgert er að þær verði í mörgum tilfellum staðsettar í húsnæði núver­andi strandstöðva Landssíma Íslands hf. og deili þeirri aðstöðu sem þar er fyrir hendi.
          fjarskiptaleiðum frá landstöðvunum til Reykjavíkur til að flytja tilkynningar frá skipunum og boð þeirra, þegar þess er þörf. Fjarskiptaleiðirnar munu verða af mismunandi toga, en aðallega leigulínur í fastaneti Landssímans. Athygli er vakin á því að tilkynn­ingar verða í formi gagnaflutnings.
          fjarskiptastjóra sem einnig er aðallega hugbúnaður. Hann tekur við tilkynningum frá skipunum, bæði frá landstöðvakerfinu og frá jarðstöðvum gervihnattakerfa, vinnur úr þeim upplýsingar og sendir áfram til eftirlitsstöðvar, sem verður rekin af Slysavarnafé­lagi Íslands. Föst leigulína mun tengja fjarskiptastjórann við eftirlitsstöðina og telst hún til fjarskiptahluta kerfisins.
    Þjónustusvæði sjálfvirka tilkynningarkerfisins getur í raun náð yfir öll heimsins höf. Með hvaða hætti tilkynningum er komið á framfæri fer eftir fjarskiptabúnaði skipsins. Miðað er við að minni skip sem næst eru landi sendi tilkynningar á metrabylgju (VHF), en í fylgiskjali II með frumvarpinu kemur fram útbreiðslumynd þjónustusvæðis sjálfvirka tilkynningarkerf­isins á metrabylgju, en það samsvarar hafsvæði A1 sem skilgreint er í reglugerð um fjar­skiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa, nr. 295/1994. Þegar skip er statt fyrir utan þjón­ustusvæði sjálfvirka tilkynningarkerfisins um metrabylgju verður hægt að senda tilkynningar um gervihnattasamband (INMARSATS).
    Hinn 5. mars 1998 gerðu samgönguráðherra, Landssími Íslands hf., Landssamband smá­bátaeigenda, Landssamband íslenskra útvegsmanna, Póst- og fjarskiptastofnun og Slysa­varnafélag Íslands með sér samkomulag um framkvæmd sjálfvirkrar tilkynningarskyldu. Þar er kveðið á um hvenær og hve oft skip skuli tilkynna sig í sjálfvirka tilkynningarkerfinu, upp­hæð árgjalds fyrir hvert skip, þ.e. 5.000 kr. og að styrkur skuli veittur úr ríkissjóði til skipa sem þurfa að kaupa búnað til VHF-fjarskipta vegna sjálfvirka tilkynningarkerfisins (fylgi­skjal III).
    Í október 1997 fól samgönguráðuneytið Póst- og fjarskiptastofnun að ganga til samninga við Póst og síma hf. (nú Landssíma Íslands hf.) um uppbyggingu fjarskiptahluta sjálfvirks tilkynningarkerfis.
    Hinn 5. mars 1998 var undirritaður samningur milli Póst- og fjarskiptastofnunar og Landssíma Íslands hf. Í samningnum er kveðið á um að Landssími Íslands hf. taki að sér að setja upp og starfrækja móttöku og dreifileiðir fyrir sjálfvirkt tilkynningarkerfi á landi að undanskildri eftirlitsmiðstöð sem Slysavarnafélag Íslands muni fjármagna og reka. Í þessu felst uppbygging og rekstur á fjarskiptastjóra, átta landstöðvum, 25 endurvarpsstöðvum og boðleiðum þar á milli auk boðleiða til stjórnstöðvar Slysavarnafélagsins. Áætlaður stofn­kostnaður vegna fjarskiptahluta sjálfvirka tilkynningarkerfisins er 85 millj. kr. og kveður samningurinn á um að samgönguráðuneytið fyrir hönd ríkissjóðs muni greiða á árunum 1998–2000 samtals 25 millj. kr. til uppbyggingar á fjarskiptahlutanum, en annan stofn­kostnað greiðir Landssími Íslands hf. Jafnframt gerir samningurinn ráð fyrir að Landssími Íslands hf. sjái um rekstur fjarskiptahlutans á eigin kostnað, en að fyrir tilkynningar sem fara um gervihnött eða handvirka tilkynningarkerfið meðan það verður rekið samhliða því sjálf­virka greiði sendandi fyrir fjarskiptin samkvæmt gjaldskrá þess sem þjónustuna veitir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er kveðið á um hvenær og hve oft skip skuli tilkynna sig í sjálfvirka tilkynning­arkerfinu til eftirlitsmiðstöðvar og ræðst það af stærð skipsins og farsviði. Meginreglan er sú að öll skip skulu tilkynna brottför og komu í höfn.
    Skip sem eru 24 metrar að lengd eða lengri skulu tilkynna sig á 12 klukkustunda fresti. Hér er fyrst og fremst um að ræða farþega-, flutninga- og fiskiskip sem falla undir II. kafla reglugerðar um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa, nr. 295/1994, en þar er kveðið á um hvaða fjarskiptabúnaði þau skuli búin án tillits til á hvaða hafsvæðum þau sigla. Þessi skip geta hvort sem er tilkynnt sig með fjarskiptum um gervihnött (INMARSAT) eða um metrabylgju (VHF) ef þau sigla á þjónustusvæði sjálfvirka tilkynningarkerfisins á metra­bylgju.
    Skip sem eru styttri 24 metrar að lengd og er heimilt sigla utan þjónustusvæðis sjálfvirkrar tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu tilkynna sig á einnar klukkustundar fresti. Þessi skip geta tilkynnt sig um gervihnött (INMARSATS) eða um metrabylgju ef þau sigla á þjónustu­svæði sjálfvirka tilkynningarkerfisins á metrabylgju.
    Skip sem eru styttri 24 metrar að lengd og sigla aðeins innan þjónustusvæðis sjálfvirkrar tilkynningarkerfis á metrabylgju skulu tilkynna sig á 15 mínútna fresti með fjarskiptum um metrabylgju.
    Skipum sem stunda takmarkaða sjósókn eða hafa aðeins sumarhaffæri er heimilt að tilkynna sig með öðrum leiðum eftir því sem nánar verður kveðið á um í reglugerð. Þessum skipum er eftir sem áður skylt að tilkynna sig í handvirka kerfinu meðan það verður rekið samhliða því sjálfvirka. Þegar handvirka kerfið verður lagt niður þurfa þessi skip eftir sem áður að tilkynna sig eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð.

Um 2. gr.

    Hér er kveðið á um hvaða upplýsingar skuli koma fram í tilkynningu í sjálfvirka tilkynn­ingarkerfinu, þ.e. auðkenni skips og staðsetning þess.


Um 3. gr.

    Samkvæmt greininni gilda ákvæði 1. mgr. 3. gr. laganna jafnt í sjálfvirka tilkynningar­kerfinu og í því handvirka, þ.e. hvernig bregðast skuli við ef tilkynning hefur ekki borist.


Um 4. gr.

    Grein þessi er efnislega samhljóða 7. gr. núgildandi laga. Orðalagi er breytt vegna breyt­inga sem orðið hafa í lagaumhverfi fjarskiptamála þar sem einkaréttur hefur verið felldur niður. Hins vegar er ljóst að þær skyldur sem 4. gr. frumvarpsins kveður á um hvíla á Lands­síma Íslands hf. samkvæmt samningi félagsins við Póst- og fjarskiptastofnun frá 5. mars 1998.

Um 5. gr.

    Í sjálfvirka tilkynningarkerfinu er miðað við að eftirlitsmiðstöð þess verði hjá Slysavarna­félagi Íslands sem annast rekstur hennar og að fé verði veitt á fjárlögum hverju sinni til rekstursins ásamt því að eigendur skipa greiði umsamið árgjald til að mæta kostnaði Slysa­varnafélagsins vegna þessa.


Um 6. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að fyrir þjónustu í handvirka tilkynningarkerfinu skuli greitt gjald samkvæmt gjaldskrá þess sem fjarskiptaþjónustuna veitir og er það sambærilegt 9. gr. gild­andi laga. Sama gildir um tilkynningar sem fara um gervihnött og á það við um skip sem eru 24 metrar að lengd og lengri og eiga að tilkynna sig á 12 klukkustunda fresti og sigla utan þjónustusvæðis sjálfvirkrar tilkynningarskyldu á metrabylgju og skip sem eru styttri en 24 metrar og sigla utan þjónustusvæðis sjálfvirka tilkynningarkerfisins á metrabylgju. Fram­kvæmd handvirku tilkynningarskyldunnar hefur verið með þeim hætti að Slysavarnafélag Íslands hefur rekið eftirlitsmiðstöð fyrir tilkynningarskyldu skipa og fengið til þess fjármagn á fjárlögum hvers árs, 19,8 millj. kr. á árinu 1998. Miðað er við að handvirka tilkynningar­kerfið verði rekið í allt að þrjú ár samhliða sjálfvirku tilkynningarkerfi. Fyrir fjarskiptaþjón­ustuna hafa eigendur skipanna fram að þessu greitt fast gjald á ári eftir stærð skipanna til Póst- og símamálastofnunar, nú Landssíma Íslands hf., eða annarra aðila sem hafa veitt fjarskiptaþjónustuna, en samkvæmt frumvarpinu er miðað við að þeir notendur sem ekki tilkynna sig í metrabylgjukerfinu greiði fyrir hverja tilkynningu samkvæmt gjaldskrá þess sem þjónustuna veitir.
    Í 2. mgr. er miðað við að hvert skip í sjálfvirka tilkynningarkerfinu greiði sérstakt árgjald til að mæta kostnaði Slysavarnafélags Íslands við rekstur sjálfvirks tilkynningarkerfis. Í samningi sem gerður var 5. mars 1998 milli samgönguráðherra, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Landssambands smábátaeigenda, Landssíma Íslands hf., Póst- og fjarskipta­stofnunar og Slysavarnafélags Íslands er kveðið á um að árgjaldið skuli vera 5.000 kr. fyrir hvert skip. Í sjálfvirka tilkynningarkerfinu er miðað við að stjórnstöð þess verði hjá Slysa­varnafélagi Íslands sem annast rekstur hennar og að fé verði veitt á fjárlögum hverju sinni til rekstursins ásamt því að eigendur skipa greiði fyrrnefnt árgjald til að mæta kostnaði Slysavarnafélagsins vegna þessa.
    Hinn 1. október 1997 fól samgönguráðuneytið Póst- og fjarskiptastofnun að annast fram­kvæmd á sjálfvirka tilkynningarkerfinu að því er varðar fjarskiptaþátt þess og semja við Póst og síma hf. (nú Landssíma Íslands hf.) um uppbyggingu fjarskiptahluta þess.
    Með samningi frá 5. mars 1998 milli Póst- og fjarskiptastofnunar og Landssíma Íslands hf. er kveðið á um að Landssími Íslands hf. taki að sér að setja upp og starfrækja móttöku og dreifileiðir fyrir sjálfvirkt tilkynningarkerfi á landi að undanskildri stjórnstöð sem Slysa­varnafélag Íslands muni fjármagna og reka. Í þessu felist uppbygging og rekstur á fjarskipta­stjóra, átta landstöðvum, 25 endurvarpsstöðvum landstöðvarstjóra og boðleiðum þar á milli, auk boðleiða til stjórnstöðvar Slysavarnafélagsins. Áætlaður stofnkostnaður vegna fjar­skiptahluta sjálfvirka tilkynningarkerfisins er 85 millj. kr. og kveður samningurinn á um að samgönguráðuneytið fyrir hönd ríkissjóðs muni greiða á árunum 1998–2000 samtals 25 millj. kr. til uppbyggingar á fjarskiptahluta sjálfvirka tilkynningarkerfisins, en annan stofn­kostnað greiðir Landssími Íslands hf. Jafnframt gerir samningurinn ráð fyrir að Landssími Íslands hf. sjái um rekstur fjarskiptahlutans á eigin kostnað, en að fyrir tilkynningar sem fara um gervihnött greiði sendandi fyrir flutninginn til fjarskiptastjóra.

Um 7. gr.

    Í 11. gr. gildandi laga um tilkynningarskyldu íslenskra skipa, nr. 40/1977, er kveðið á um að allur kostnaður við tilkynningarskylduna, þar með talinn fjarskiptakostnaður, greiðist úr ríkissjóði. Þetta ákvæði getur ekki staðið óbreytt þar sem skipting kostnaðar hefur verið ákveðinn í samningum á annan hátt, eins og fram kemur í athugasemdum við 6. gr. frum­varpsins, þ.e. að Landssími Íslands hf. beri að stærstum hluta stofnkostnað og rekstarkostnað að öllu leyti vegna fjarskiptahluta sjálfvirka tilkynningarkerfisins.

Um 8. gr.

    Hér er kveðið á um að samgönguráðherra sé heimilt að setja reglugerð um nánari útfærslu laganna, ef þörf krefur.


Um 9. gr.

    Miðað er við að frumvarpið verði það að lögum taki gildi 1. febrúar 1999 og að þá verði sjálfvirka tilkynningarkerfið tekið í notkun. Í reglugerð um fjarskiptabúnað og fjarskipti íslenskra skipa, nr. 295/1994, er miðað við að öll skip sem sigla á hafsvæði A1 og A2 skuli búin tækjum til sjálfvirkrar tilkynningarskyldu frá og með 1. febrúar 1999.
    Í samningi frá 5. mars 1998 milli Póst- og fjarskiptastofnunar og Landssíma Íslands hf. er kveðið á um að Landssími Íslands hf. skuli hafa lokið uppbyggingu sjálfvirka tilkynn­ingarkerfisins í síðasta lagi 1. desember 1998 þannig að hægt verði að prófa það. Prófunum og lagfæringum, ef einhverjar eru, skal vera lokið 15. janúar 1999 og kerfið tekið í notkun 1. febrúar 1999.


Fylgiskjal I.


Sjálfvirka tilkynningarkerfið.



(1 mynd)




Fylgiskjal II.


Útbreiðslumynd sjálfvirka tilkynningarkerfisins á metrabylgju.



(1 kort, myndað)




Fylgiskjal III.


Samkomulag frá 5. mars 1998 um framkvæmd sjálfvirkrar tilkynningarskyldu.



(1 síða mynduð)




Fylgiskjal IV.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tilkynningarskyldu
íslenskra skipa, nr. 40/1977, með síðari breytingum.

    Í febrúar á næsta ári er áformað að taka í notkun sjálfvirkt tilkynningarkerfi fyrir íslensk skip og eru í því skyni gerðar nauðsynlegar breytingar á gildandi lögum um tilkynningar­skyldu íslenskra skipa.
    Gert er ráð fyrir að árlegur rekstrarkostnaður sjálfvirka kerfisins verði 16 m.kr. en 13 m.kr. á næsta ári. Talið er að handvirka kerfið muni kosta 12 m.kr. á næsta ári, 6 m.kr. árið 2000 en að rekstri þessi verði hætt árið 2001. Á næsta ári er því heildarrekstrarkostnaður áætlaður 25 m.kr. og er hann fjármagnaður annars vegar með innheimtum árgjöldum, 2 m.kr., og hins vegar með greiðslu úr ríkissjóði, 23 m.kr. Þegar er gert ráð fyrir þeirri fjárveitingu í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár.
    Kostnaður Landssímans hf. vegna kerfisins verður 21 m.kr. á næsta ári og er hann fjár­magnaður með greiðslu úr ríkissjóði. Af þeirri fjárhæð er stofngjald 10 m.kr. en framlag vegna þess verður 5 m.kr. á árinu 2000 og fellur niður 2001. Fjárveiting í frumvarpi til fjár­laga fyrir næsta ár er 21 m.kr. og stendur því undir hlut ríkissjóðs.
    Að lokum eru 17 m.kr. ætlaðar til að styrkja smábátasjómenn til kaupa á nauðsynlegum búnaði og er gert ráð fyrir sambærilegu framlagi á árinu 2000. Sá kostnaður er greiddur úr ríkissjóði og er áætlað fyrir því framlagi í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár.
    Alls er því talið að kostnaður ríkissjóðs muni aukast um 32,6 m.kr. á næsta ári frá fjárlög­um þessa árs og hefur þegar verið áætlað fyrir þeirri fjárhæð í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár. Á árinu 2000 lækkar framlag ríkisins um 8,9 m.kr. og um 22 m.kr. til viðbótar á árinu 2001 þegar styrkveitingum til smábátasjómanna er lokið og stofngjald til Landssímans fellur niður.