Ferill 262. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 300  —  262. mál.




Frumvarp til laga



um breyt. á l. nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, með síðari breytingum.

Flm.: Hjálmar Árnason, Magnús Stefánsson, Guðni Ágústsson.



1. gr.


    Við 2. mgr. 3. gr. laganna bætist: m.a. hvað varðar endurgreiðsluhlutfall, sbr. 8. mgr. 8. gr.

2. gr.


    Við 8. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 8. mgr., svohljóðandi:
    Stjórn sjóðsins er heimilt að gefa lánþegum frá ákveðnum byggðarlögum, sem skilgreind eru í reglum er stjórnin setur, kost á lægra endurgreiðsluhlutfalli námslána en almennt tíðkast eða fella greiðslur niður að öllu leyti. Þá er stjórn sjóðsins heimilt, samkvæmt nánari reglum sem hún setur, að veita læknum (og öðrum háskólamenntuðum heilbrigðisstarfsmönnum) og kennurum sambærilega heimild ef þeir að námi loknu setjast í tiltekinn tíma að á stöðum þar sem skortur er á fólki með slíka menntun.

3. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Menntun snýst um sóknarfæri til framfara á öllum sviðum mannlífs. Grundvallaratriði hefur verið í íslenskum stjórnmálum að íslensk ungmenni geti átt aðgengi að menntakerfinu óháð efnahag. Liður í þeirri viðleitni er m.a. Lánasjóður íslenskra námsmanna. Lán úr sjóðn­um eru einkum veitt til náms í starfsmenntun á framhaldsskólastigi sem og til náms á háskólastigi. Þetta felur m.a. í sér að nemendur úr dreifbýli þurfa að sækja nám um lengri veg en aðrir þar sem háskólar eru fáir og allir í Reykjavík eða á Akureyri. Fyrir vikið þarf ungt fólk oft að flytja búferlum frá heimahögum sínum með ærnum tilkostnaði. Þó að reglur lánasjóðsins taki að nokkru tillit til þess þá standa lánin engan veginn undir öllum útgjöldum þessara nemenda. Þess vegna má segja að námsmenn þjóðarinnar standi ekki jafnfætis hvað varðar aðgengi að námi.
    Mikið hefur verið rætt síðustu missiri um flutning fólks úr dreifbýli í þéttbýli. Fyrir því eru ýmsar ástæður og má benda á kostnað vegna náms ungmenna sem eina þeirra. Þá má benda á að svo virðist sem nokkur brögð séu að því að ungmenni sem sækja nám til þéttbýl­isins snúi ekki aftur heim. Margir eru þeirrar skoðunar að eðlilegt sé að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Til þess hafa verið notaðar ýmsar aðferðir með misjöfnum árangri.
    Að undanförnu hefur borið mikið á læknaskorti í nokkrum stöðum úti á landi. Þá berast reglulega fréttir af því að ekki fáist kennarar til starfa í grunnskólum og framhaldsskólum landsbyggðarinnar. Áhrif þess á samfélagið eru mikil og eiga ugglaust sinn þátt í að ýta undir það sem kallað hefur verið landsbyggðarflótti. Landsmenn allir vilja tryggja sér og sínum góðan aðgang að menntakerfi og heilbrigðiskerfi.
    Hér að framan hefur verið á það bent annars vegar að kostnaður námsfólks utan af landi getur verið meiri en kostnaður íbúa þéttbýlisins og hins vegar hefur verið dreginn fram skort­ur á tilteknum hópum menntafólks utan stærstu þéttbýlisstaða. Í Noregi hefur verið gripið til þess ráðs að veita lánasjóði námsmanna heimild til að lækka endurgreiðsluhlutfall lánþega frá tilteknum dreifbýlisstöðum. Þá er einnig heimilt að gefa læknum og öðru háskólamennt­uðu starfsfólki heilbrigðisstofnana sem fer að loknu námi til starfa á tilgreindum stöðum í dreifbýlinu kost á lægra endurgreiðsluhlutfalli námslána. Hér er um beinar aðgerðir af hálfu hins opinbera að ræða í því skyni að hvetja menntað fólk til starfa á landsbyggðinni, sem og að hvetja ungt fólk þaðan til að leggja stund á framhaldsskóla- eða háskólanám. Frumvarp þetta er byggt á sömu hugmyndafræði.