Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 308  —  270. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fjarvinnslustörf á landsbyggðinni.

Flm.: Tómas I. Olrich, Arnbjörg Sveinsdóttir, Einar K. Guðfinnsson,


Guðjón Guðmundsson, Steingrímur J. Sigfússon, Sturla Böðvarsson,


Svanfríður Jónasdóttir, Valgerður Sverrisdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta semja og hrinda í framkvæmd áætlun um það hvernig fólki sem býr á landsbyggðinni verði gefinn kostur á að sinna störfum á vegum ríkis­ins með fjarvinnslu.

Greinargerð.


    Mikill fjölgun starfa á vegum ríkisins undanfarna áratugi hefur einkum orðið til að efla höfuðborgarsvæðið. Hér er bæði um að ræða föst störf og verkefni til lengri eða skemmri tíma, sem leyst eru af verktökum eða lausráðnu fólki. Þetta hefur átt þátt í að gera atvinnu­framboð á höfuðborgarsvæðinu fjölbreytilegra en annars staðar á landinu. Eiga vaxandi ríkis­umsvif mikinn þátt í fólksflutningum til suðvesturhorns landsins, sem nú er orðið eitt alvar­legasta vandamál þjóðarinnar.
    Með stórbættri fjarskiptatækni og þjónustu á sviði upplýsingamála hafa skapast möguleik­ar á að sinna bæði föstum störfum og tímabundnum verkefnum fjarri höfuðborgarsvæðinu, þótt verkefnin tengist stofnunum í Reykjavík. Er nokkuð um að verkefnum sem unnin eru á vegum ríkisins er sinnt af Íslendingum sem dvelja erlendis.
    Enn hafa þessir möguleikar lítil áhrif haft á atvinnulíf landsbyggðarinnar. Upplýsingatækni og fjarskipti hafa t.d. ekki dregið úr erfiðleikum þegar leitað er að starfi við hæfi maka sér­hæfðs fólks sem á þess kost að starfa úti á landi. Afar brýnt er að auka fjölbreytni á vinnu­markaði á landsbyggðinni og er einsýnt að hægt er að nýta möguleika fjarvinnslunnar til að treysta hann. Það kallar hins vegar á markviss vinnubrögð. Nauðsynlegt er að opinberir aðilar hafi um þetta forgöngu, ekki síst í ljósi þess hve umsvif ríkisins hafa verið mikil og áhrif þess á vinnumarkaðinn þung á vogarskálunum.
    Til að ýta undir þróunina þarf að fara fram athugun á því hvaða störf á vegum ríkisins eru til þess fallin að þeim sé sinnt með fjarvinnslu. Eðlilegt er að tekið sé fram hvort hægt er að sinna störfunum þannig þegar auglýst eru störf á vegum hins opinbera.
    Í tillögu til þingsályktunar um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998–2001 er fjallað ítar­lega um þörf á að auka fjölbreytni í atvinnulífi landsbyggðarinnar svo efla megi samkeppnis­hæfni þess. Lögð er áhersla á að opinberum störfum fjölgi eigi minna hlutfallslega á lands­byggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Því markmiði verði meðal annars náð með því að leitast við að ný starfsemi hins opinbera verði utan höfuðborgarsvæðisins. Síðan segir í þingsálykt­unartillögunni: „Skilgreind verði eftir föngum þau verkefni einstakra ráðuneyta, stofnana og

Prentað upp.

opinberra fyrirtækja sem unnt er að sinna á landsbyggðinni. Hvert ráðuneyti fyrir sig leggi fram tillögur þar að lútandi sem meðal annars geri ráð fyrir að möguleikar upplýsingatækn­innar verði nýttir til hins ýtrasta.“
    Tillagan sem hér er flutt fellur að markmiðum og anda þingsályktunartillögu um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1998–2001 en tekur sérstaklega á möguleikunum sem tengjast fjar­vinnslu. Gert er ráð fyrir að innan opinberra stofnana og fyrirtæka verði litið á það sem sér­stakt verkefni að ýta undir fjarvinnslu. Verði það athugað í hverju tilfelli hvort hægt er að sinna verkefnum eða störfum með fjarvinnslu og þess getið þegar störf eru auglýst.