Ferill 189. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 317 —  189. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um samkeppnishindranir.

    Leitað var til Samkeppnisstofnunar um svör við fyrstu þremur liðum fyrirspurnarinnar. Hún kaus að svara þeim í einu lagi, skipt eftir banka-, olíu-, trygginga- og flutningsviðskipt­um. Fram kemur hvaða mál á umræddum mörkuðum hafa verið til meðferðar hjá samkeppnis­yfirvöldum undanfarna ellefu mánuði. Niðurstöður þeirra mála sem vinnu er lokið við koma í flestum tilvikum fram í formlegum afgreiðslum samkeppnisráðs, þ.e. í ákvörðunum eða álit­um ráðsins. Ef málum hefur verið lokið á annan hátt eða þau eru enn í vinnslu er það tekið fram.
    Á það skal bent til frekari upplýsingar að allar ákvarðanir og álit samkeppnisráðs í heild er að finna hjá Samkeppnisstofnun.

     1.      Hvaða mál er varða samkeppnishindranir hafa verið til umfjöllunar og meðferðar hjá Samkeppnisstofnun, sbr. skýrslu viðskiptaráðherra til Alþingis samkvæmt beiðni um viðskipta- og samkeppnishætti í banka-, olíu-, trygginga- og flutningsviðskiptum frá 20. desember 1997?
     2.      Hversu umfangsmikil eru þessi mál og á hvaða mörkuðum eru þau?
     3.      Liggja fyrir niðurstöður í einhverjum eða öllum áðurgreindum málum og þá hverjum?


Bankaviðskipti.
     a.      Erindi Íslandspósts hf. um aðgang að RÁS-þjónustu banka og sparisjóða. Samkeppnisstofnun hóf athugun vegna erindisins vorið 1997. Þeir sem erindið beindist gegn neituðu stofnuninni um aðgang að tilteknum gögnum. Það leiddi til ákvarðana Samkeppnis­stofnunar sem fram koma í bréfum hennar dags. 19. september, 9. október og 23. októ­ber. Ákvörðununum var vísað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem kvað upp úr­skurð 12. desember 1997. (Úrskurður í máli nr. 17.) Ákvörðun í erindi Íslandspósts var tekin af samkeppnisráði 28. apríl 1998. (Ákvörðun nr. 12/1998.)
     b.      Viðskiptahættir í greiðslukortastarfsemi. (Ákvörðun nr. 1/1998.) Greiðslumiðlun hf. (VISA-Ísland) vísaði ákvörðun samkeppnisráðs til dómstóla og er málið nú til meðferðar hjá Hæstarétti.
     c.      Erindi er varðar mismunun í innheimtu virðisaukaskatts af þjónustu Reiknistofu bankanna og keppinauta. Samkeppnisráð birti álit um málið 17. september 1998. (Álit nr. 9/1998.)
     d.      Athugun á samkeppnisháttum á markaðnum fyrir bankaþjónustu og rafræna greiðslumiðlun. Í kjölfar erindis Íslandspósts hf. um aðgang að RÁS-þjónustu fer nú fram víðtæk athugun sem líkur væntanlega ekki fyrr en fyrri hluta næsta árs.

Olíuviðskipti.
     Erindi frá félagi sumarbústaðaeigenda um verðlagningu á gasi. Gasinnflutningur og sala olíufélaganna var sameinuð í einu félagi, Gasfélaginu, fyrir nokkrum árum. Verðlagning félagsins er nú í athugun sem lýkur á næstunni.

Tryggingaviðskipti.
     a.      Erindi Alþjóðlegrar miðlunar ehf. um synjun á skráningu á eyðublaði Skráningarstofunnar hf. Erindið var afgreitt af samkeppnisráði 22. desember 1997. (Ákvörðun nr. 50/1997.)
     b.      Mál er varðar samstarf vátryggingafélaga innan Samsteypu íslenskra fiskiskipatrygginga. Unnið var að rannsókn málsins framan af árinu. Eftir að Samkeppnisstofnun birti málsaðilum bráðabirgðaniðurstöðu athugunar sinnar þar sem fram kom það mat að starfsemi Samsteypunnar stangaðist á við samkeppnislög ákváðu vátryggingafélögin að leggja niður Samsteypu íslenskra fiskiskipatrygginga. Samkeppnisyfirvöld töldu ekki ástæðu til að hafast frekar að í málinu.

Flutningsviðskipti.
     a.      Erindi Flugflutninga ehf. (umboðsfyrirtækis Cargolux Airlines International á Íslandi) um innheimtu eldsneytisgjalds á Keflavíkurflugvelli. Samkeppnisráð birti álit vegna erindisins 11. desember 1997. (Álit nr. 11/1997.)
     b.      Erindi Flugleiða hf. varðandi Ferðaskrifstofu Íslands hf. og Úrval Útsýn hf. Samkeppnisstofnun tók bráðabirgðaákvörðun sem síðan var staðfest af samkeppnisráði 28. maí 1998. (Ákvörðun nr. 16/1998.) Málið varðaði endurskipulagningu á ferðaskrifstof­unum tveimur og var lagt fyrir Samkeppnisstofnun í samræmi við ákvæði í sátt milli samkeppnisráðs og Flugleiða sem gerð var árið 1997 þegar Flugleiðir keyptu Ferða­skrifstofu Íslands.
     c.      Athugasemd við vetraráætlun innanlandsflugs Flugfélags Íslands. Í ákvörðun samkeppnisráðs vegna samruna innanlandsflugs Flugleiða og Flugfélags Norðurlands á ár­inu 1997 voru settar tímabundnar skorður við fjölgun brottfara hjá Flugfélagi Íslands á tilteknum áætlunarleiðum í innanlandsflugi svo að nýir keppinautar næðu fótfestu á markaðnum. Íslandsflug gerði í haust athugasemd við fjölgun brottfara Flugfélags Ís­lands og aukið sætaframboð félagsins á flugleiðinni Reykjavík–Egilsstaðir–Reykjavík í vetraráætlun. Eftir athugun Samkeppnisstofnunar og athugasemdir fækkaði Flugfélagið ferðum á umræddri leið.
     d.      Athugun stendur yfir á meintri mismunun Eimskips í verðlagningu á tilteknum flutningum. Málinu lýkur bráðlega.
     e.      Erindi Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra um samkeppnisstöðu leigubifreiðastjóra gagnvart Kynnisferðum hf. Mál þetta var afgreitt hjá samkeppnisráði 23. mars 1998 á þann veg að ekki væri tilefni til íhlutunar. (Ákvörðun nr. 8/1998.)
     f.      Erindi Félags hópferðaleyfishafa um mismunun í starfsskilyrðum hópferðaleyfishafa og sérleyfishafa. Málið var afgreitt hjá samkeppnisráði 28. apríl 1998. (Álit nr. 1/1998.)
     g.      Erindi um meinta misbeitingu tiltekins sérleyfishafa á markaðsstöðu og mál er varðar útboð á skólaakstri. Meðferð þessara mála lýkur á næstunni.

     4.      Mun ráðherra í ljósi niðurstöðu þessara mála hjá Samkeppnisstofnun gefa Alþingi fyllri svör en fram komu í skýrslu hans á 122. löggjafarþingi, en þar kom fram að sum­um spurningum skýrslubeiðenda yrði svarað þegar niðurstaða samkeppnisyfirvalda lægi fyrir, sem átti að vera á þessu ári?
    Frá því að samkeppnislög tóku gildi 1. mars 1993 hafa viðskiptaráðherrar ekki haft af­skipti af úrlausn samkeppnisyfirvalda í einstökum málum, enda gera samkeppnislög ráð fyrir að samkeppnisyfirvöld annist daglega stjórnsýslu á því sviði sem lögin ná til. Viðskiptaráð­herra getur því ekki veitt fyllri svör en þau sem felast í niðurstöðu samkeppnisyfirvalda í hverju máli.