Ferill 285. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 333  —  285. mál.
Frumvarp til lagaum heimild fyrir ríkisstjórnina til að auka hlutafé Íslands í Norræna fjárfestingarbankanum og hækka útlánaramma vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlanda.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    Ríkisstjórninni er fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að samþykkja aukningu á hlutafé Norræna fjárfestingarbankans um 1.191.445.142 ECU, úr 2.808.554.858 í 4.000.000.000 ECU. Jafn­framt er ríkisstjórninni heimilt að auka hlutafé Íslands í Norræna fjárfestingarbankanum um 11.914.451 ECU og greiða jafnvirði 321.538 ECU á árunum 1999–2001, auk 678.462 ECU úr hlut Íslands í afskriftasjóði bankans.


2. gr.

    Ríkisstjórninni er fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að samþykkja hækkun á útlánarömmum Norræna fjárfestingarbankans vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norður­landa (PIL) úr 2.000.000.000 í 3.300.000.000 ECU frá 1. janúar 1999.

3. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að samþykkja breytingar á 2., 3. og 6. gr. samþykkta bankans í samræmi við þær breytingar sem kveðið er á um í 1. og 2. gr. laga þessara.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Ráðherranefnd Norðurlanda, efnahags- og fjármálaráðherrarnir sem fara með málefni Norræna fjárfestingarbankans á norrænum vettvangi, samþykkti á fundi sínum 24. júní sl. tillögu bankastjórnar Norræna fjárfestingarbankans um að hækka hlutaféð úr tæplega 2.809 milljónum ECU í 4.000 milljónir ECU. Jafnframt var samþykkt að heimila bankanum að hækka útlánaramma vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlandanna úr 2.000 milljónum ECU í 3.300 milljónir ECU. Að undanförnu hefur eftirspurn eftir lánum frá bankanum aukist verulega, ekki síst til verkefna í Austur- og Mið-Evrópu, en einnig innan Norðurlandanna. Til þess að geta mætt þessari auknu eftirspurn er nauðsynlegt að treysta eiginfjárstöðu bankans.
    Jafnframt er talið nauðsynlegt að hækka útlánaramma vegna svonefndra PIL-lána, þ.e. lána til fjárfestingarverkefna utan Norðurlandanna. Hins vegar er ekki talið nauðsynlegt að auka ábyrgðir einstakra Norðurlanda vegna þessarar hækkunar þar eð bankinn mun sjálfur auka framlag sitt til afskriftasjóðs vegna þessara lána. Enda þótt þessi lán hafi farið til nor­rænna verkefna í ríkjum þar sem lánsáhætta er meiri en gengur og gerist hafa til þessa engin afföll orðið, þótt dregist hafi að inna greiðslur af hendi tímanlega í fáeinum tilvikum. Ástæð­an er meðal annars sú að Norræni fjárfestingarbankinn gerir afar strangar kröfur til lántak­enda og arðsemi verkefna. Jafnframt hefur bankinn í samræmi við reglur lagt sérstaka fjár­hæð í afskriftasjóð til að mæta hugsanlegum útlánatöpum. Samkvæmt upplýsingum frá Nor­ræna fjárfestingarbankanum verða engar breytingar á starfsháttum bankans hvað þetta varð­ar og áfram verða gerðar sömu kröfur til lántakenda. Áhættan verður því óbreytt.
    Samþykkt ráðherranefndarinnar var kynnt á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs 24. október sl. sem lýsti yfir stuðningi við málið.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Hér er lagt til að ríkisstjórninni fyrir hönd ríkissjóðs verði heimilað að samþykkja aukn­ingu á hlutafé Norræna fjárfestingarbankans um 1.191.445.142 ECU, úr 2.808.554.858 í 4.000.000.000 ECU. Gert er ráð fyrir að af þessari fjárhæð verði 100.000.000 ECU fjár­magnaðar með framlögum frá Norðurlöndunum, en afgangurinn felist í auknum ábyrgðum landanna. Af þessum 100.000.000 ECU komi 70.000.000 ECU úr afskriftasjóði bankans en afgangurinn með beinum fjárframlögum frá löndunum. Í samræmi við þetta er lagt til að ríkisstjórninni verði heimilað að auka hlutafé Íslands í Norræna fjárfestingarbankanum um 11.914.451 ECU og greiða jafnvirði 321.538 ECU á árunum 1999–2001 auk 678.462 ECU úr hlut Íslands í afskriftasjóði bankans. Gert er ráð fyrir að framlögin falli jafnt á árin 1999–2001 og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir greiðslu vegna þess árs.

Um 2. gr.

    Hér er óskað eftir að ríkisstjórninni, fyrir hönd ríkissjóðs, sé heimilað að samþykkja hækkun á útlánarömmum Norræna fjárfestingarbankans vegna norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlanda (PIL) úr 2.000.000.000 í 3.300.000.000 ECU frá 1. janúar 1999. Ekki er gert ráð fyrir breytingum á ábyrgðum landanna við þessa hækkun heldur muni bankinn sjálfur auka framlag sitt í afskriftasjóði vegna þessara lána. Heildarábyrgð landanna verði því áfram 1.800.000.000 ECU og hlutur Íslands hinn sami og áður.

Um 3. gr.

    Hér er leitað eftir heimild til ríkisstjórnarinnar til að samþykkja breytingar á 2., 3. og 6. gr. samþykkta bankans í samræmi við þær breytingar sem kveðið er á um í 1. og 2. gr.


Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að auka hlutafé Íslands í Norræna fjárfestingarbankanum og hækka útlánaramma vegna
norrænna fjárfestingarlána til verkefna utan Norðurlanda.

    Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að veita ríkisstjórninni heimild til að samþykkja aukningu á hlutafé í Norræna fjárfestingarbankanum að heildarfjárhæð um 1.191.445.142 ECU, úr 2.808.554.858 ECU í 4.000.000.000 ECU. Gert er ráð fyrir að 1.091.445.142 ECU verði fjármögnuð með aukinni ábyrgð landanna en framlög þeirra nemi 100.000.000 ECU. Þar af komi 70.000.000 ECU úr afskriftasjóði landanna en 30.000.000 ECU greiðist með beinum fjárframlögum á árunum 1999–2001. Fyrir hlutafjáraukningu Íslands, 11.914.451 ECU, sem nemur einum hundraðasta af heildarhlutafjáraukningunni, eru greidd 1.000.000 ECU og eru 678.462 ECU fjármögnuð með hlut Íslands í afskriftasjóði bankans, en 321.538 ECU eru greidd með beinum fjárframlögum úr ríkissjóði. Gert er ráð fyrir að framlögin falli jafnt á árin 1999–2001 og í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1999 er gert ráð fyrir stofnfram­lagi vegna þess árs að fjárhæð 107.179 ECU, eða um 8,8 m.kr.
    Ekki er gert ráð fyrir að önnur ákvæði frumvarpsins hafi áhrif á afkomu ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.