Ferill 71. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 337  —  71. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um samninga við bankastjóra Landsbanka Íslands.

    Svarið er byggt á upplýsingum frá Landsbanka Íslands hf. Þá hefur ráðuneytið leitað stað­festingar ríkisendurskoðanda á þeim upplýsingum sem fram koma, en hann er og var endur­skoðandi bankans og hafði auk þess með höndum yfirumsjón með lokauppgjöri ríkisvið­skiptabankanna.

     1.      Voru gerðir samningar við starfandi bankastjóra Landsbanka Íslands þegar honum var breytt í hlutafélag?
    Litið er svo á að hér sé átt við hvort sérstakir starfslokasamningar hafi verið gerðir við bankastjóra ríkisviðskiptabankans þegar hann var lagður niður. Samkvæmt upplýsingum Landsbanka Íslands hf. gerði bankaráð starfslokasamning við hvern bankastjóranna þriggja þar sem kemur fram að aðilar séu sammála um að engar kvaðir eða kröfur séu uppi eða muni koma fram vegna starfsloka hjá ríkisviðskiptabankanum. Í starfslokasamningunum er ekki kveðið á um neinar starfslokagreiðslur, hlunnindagreiðslur eða aðrar greiðslur. Hins vegar var samið við bankastjóra um uppgjör áunninna lífeyrisréttinda sem byggðust á eldri samn­ingum. (Sjá nánar svar við 2. lið.)

     2.      Ef svo er, í hverju voru þeir fólgnir? Var kveðið á um lífeyrismál, starfslokagreiðslur eða hlunnindi í þessum samningum?
    Eins og áður segir var ekki kveðið á um sérstakar starfsloka- eða hlunnindagreiðslur í fyrrgreindum starfslokasamningum. Rétt er hins vegar að taka fram að í tengslum við breyt­ingar á reglugerð um Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka og við lokaupp­gjör á ríkisviðskiptabankanum voru áunnin lífeyrisréttindi allra starfsmanna Landsbanka Ís­lands gerð upp um síðustu áramót. Jafnframt var starfsmönnum ríkisviðskiptabankans boðið að flytja réttindi sín yfir í nýtt kerfi sem fól meðal annars í sér flutning u.þ.b. 40% réttinda yfir í séreignarlífeyrissjóð að eigin vali starfsmanns. Gengið var frá skuldbindingum bankans vegna áunninna lífeyrisréttinda bankastjóra á sama tíma og ákvað bankaráð að sami réttur til að varðveita réttindi í séreignarsjóði tæki einnig til bankastjóra bankans.
    Óuppgerðar lífeyrisskuldbindingar allra starfsmanna í lok árs 1997 námu samtals 5.093 millj. kr., en af þeim höfðu 4.007 millj. kr. áður verið færðar til skuldar í reikningum bank­ans. Skuldbindingarnar hækkuðu á árinu 1997 um 1.086 millj. kr. Þar af tengdust 546 millj. kr. uppgjöri milli bankans og starfsmannafélaga vegna svokallaðrar 95 ára reglu sem var viðbót við fyrri útreikninga. Það sem eftir stendur er vegna endurmats á reiknuðum lífeyris­réttindum. Hlutur starfandi bankastjóra nam 240 millj. kr. af fyrrgreindum 5.093 millj. kr. og var uppgjör lífeyrisréttinda þeirra aðila grundvallað á ákvæðum gildandi samninga milli þeirra og bankaráðs. Þeir samningar voru frá fyrri tíð og tengdust ekki uppgjöri við breyting­ar á rekstrarformi bankans. Rétt er þó að fram komi að við samninga um uppgjör lífeyrisskuldbindinga vegna bankastjóra var samið um tiltekna fjárhæð viðmiðunarlauna sem lögð var til grundvallar við útreikning skuldbindinganna og tók hún m.a. mið af launum banka­stjóra með framreikningi samkvæmt umsömdum verðbreytingum.

     3.      Hversu mikið munu þessir samningar við bankastjórana kosta bankann á ári?
    Þar sem uppgjör á lífeyrisskuldbindingum allra starfsmanna Landsbanka Íslands fór fram fyrir árslok 1997 leggst enginn kostnaður á Landsbanka Íslands hf. í framtíðinni vegna þess uppgjörs.