Ferill 299. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 359  —  299. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stefnumótun stofnana í eigu ríkisins varðandi vistvæn ökutæki.

Flm.: Hjálmar Árnason, Magnús Stefánsson.



    Alþingi ályktar að mótuð verði sú stefna hjá stofnunum í eigu ríkisins að innan fimm ára skuli þriðjungur þjónustubifreiða í eigu ríkisstofnana vera knúinn vistvænum orkugjöfum.

Greinargerð.


    Á síðustu árum hefur orðið ör þróun á sviði vistvænna ökutækja, þ.e. bifreiða sem knúnar eru vistvænum orkugjöfum. Ástæður þessa eru þær m.a. að mengun af völdum bifreiða er orðin eitt stærsta umhverfisvandamál veraldar. Farið hefur fjölgandi hörðum aðgerðum af hálfu yfirvalda ýmissa borga og ríkja til að sporna við þessari vá. Nægir þar að benda á tímabundið bann við bifreiðaumferð í nokkrum borgum, t.d. í Frakklandi, Noregi, Grikk­landi, Japan og víðar. Í sumum borgum hefur verið settur á sérstakur mengunarskattur í því skyni að draga úr umferð. Þá taka senn gildi lög í Bandaríkjunum sem kveða á um að 2% nýrra bifreiða skuli knúnar vistvænum orkugjöfum. Samkvæmt opinberri skýrslu til breskra yfirvalda er áætlað að um 24.000 Bretar látist árlega af völdum umferðarmengunar. Í Danmörku er áætlað að árlega látist um 500 manns af sömu ástæðu eða jafnmargir og látast þar í landi af völdum umferðarslysa.
    Þessar aðstæður hafa leitt til þess að bifreiðaframleiðendur í heiminum, sem og fleiri, kappkosta nú að þróa nýja tækni fyrir bifreiðar í stað hefðbundinnar sprengivélar með olíu eða bensín sem orkugjafa. Á síðustu missirum má segja að hafi byrjað kapphlaup á þessu sviði þar sem milljörðum króna er varið til rannsókna og þróunarstarfa. Þannig mun hefjast þegar árið 2005 fjöldaframleiðsla vetnisknúinna farartækja. Margir bílaframleiðendur eru þegar farnir að kynna nýjar útgáfur af rafbílum. Svonefndur blendingur (blanda af bensín- og rafbíl) er þegar kominn á markað, í Svíþjóð og víðar er vaxandi fjöldi bifreiða knúinn metangasi og þannig má áfram telja. Vistvæn ökutæki virðast vera að hasla sér völl á mark­aðnum.
    Íslendingar fara ekki varhluta af mengun frá umferð. Um 60% þjóðarinnar býr á höfuð­borgarsvæðinu. Reglulega má sjá mengunarský liggja yfir svæðinu og finna lyktina. Sú mengun verður rakin beint til útblásturs frá þungri umferð.
    Að undanförnu hafa ýmis þekkt erlend fyrirtæki átt í viðræðum við Íslendinga þess efnis að landið verði gert að vettvangi tilrauna með þessa nýju tækni. Íslendingar stigu merkileg skref með hitaveitunum þegar horfið var til þess að nota heitt vatn sem orkugjafa í stað olíu­afurða. Nú getur íslenska þjóðin stigið næstu skref með því að taka á næstu árum upp vistvæna orkugjafa fyrir bílaflota sinn.
    Með vistvænum orkugjöfum á bifreiðar er hér einkum átt við rafmagn, vetni, metangas og metanól. Þessa orkugjafa (orkubera) er alla hægt að framleiða hérlendis, þá sem ekki eru nú þegar framleiddir hér með vistvænni orku. Auk rafveitna má benda á Áburðarverksmiðju ríkisins, sem framleitt hefur hreint vetni í tæp 50 ár, hugmyndir forsvarsmanna Sorpu um nýtingu metangass sem orkugjafa og útreikninga Braga Árnasonar prófessors á metanólfram­leiðslu þar sem m.a. er notast við útblástur íslenskrar stóriðju. Ýmsar tegundir bifreiða sem nýta þessa orkugjafa (orkubera) eru þegar framleiddar eða verða það á allra næstu árum. Þess vegna er brýnt fyrir okkur Íslendinga að sýna vilja í verki með því að taka slík ökutæki í notkun. Ekki er óeðlilegt að hið opinbera ríði á vaðið í þessum efnum með skýrri stefnu­mörkun í stofnunum sínum. Þegar hefur Reykjavíkurborg mótað stefnu sína og stefnir að því að kaupa 36 bifreiðar, knúnar vistvænum orkugjöfum, á næstu þremur árum. Í greinargerð frá stjórn Veitustofnana Reykjavíkur segir m.a.:
    „Það er nú viðurkennt að útblástur frá bifreiðum er langstærsta orsök loftmengunar í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Hér er bifreiðaeign hlutfallslega ein sú mesta í heimin­um og af u.þ.b. 140 þús. bifreiðum í landinu eru rúmlega 63 þús. í Reykjavík, þar af um 52 þús. fólksbílar. Fram til þessa hefur ekki verið reglulegt eða markvisst eftirlit með loftmeng­un á höfuðborgarsvæðinu, en á nokkrum stöðum hefur mengun vegna útblásturs bifreiða ( CO2) mælst yfir viðmiðunarmörkum.
    Fyrir liggur að ef 50 þús. fólksbifreiðar með hefðbundnu eldsneyti mundu aka 15 þús. km á ári, væri orkuþörf þeirra 150 gWh á ári. Ef sami fjöldi bifreiða væri knúinn vistvænu elds­neyti mundi heildarútstreymi CO2, koltvíoxíðs, minnka um 150 þús. tonn eða sem svarar 10% af heildarlosun hérlendis af þessu mengandi efni.
    Víða erlendis hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana til að draga úr loftmengun frá út­blæstri bifreiða, m.a. með ýmiss konar takmörkunum á umferð í bæjarkjörnum, með hag­kvæmri nýtingu vistvænna bifreiða innan tiltekinna borgarmarka og með margs konar frum­kvæði á vegum borga og sveitarfélaga. Eins er víða haldið uppi virkri upplýsingastarfsemi fyrir borgara og bifreiðaeigendur.
    Almennt séð er nýting bifreiða sem knúnar eru vistvænni orku komin mjög skammt en einna lengst mun þróunin vera komin í Svíþjóð, Frakklandi og Kaliforníuríki en þar hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana, sem hafa bæði táknrænt og hagnýtt gildi, til að hefta út­blástur mengandi efna. Það er til dæmis markmið borgaryfirvalda í Stokkhólmi að þegar á árinu 2001 verði helmingur þjónustubifreiða borgarinnar knúinn vistvænu eldsneyti.
    Starfshópurinn telur einsýnt að borgaryfirvöld taki mið af ströngustu kröfum í mótun og framkvæmd nýrrar samgöngustefnu – jafnvel þó að ýmis staðbundin mengun, t.d. frá út­blæstri bifreiða, sé ekki komin að hættumörkum. Það hlýtur að vera verðugt takmark að höfuðborgin beri með réttu þá eftirsóttu ímynd að hún sé hrein og ómenguð og að því stefnt að Reykjavík verði vistvænasta höfuðborg Norðursins – eins og segir í yfirlýstri umhverfis­stefnu hennar.
    Því er lagt til í fyrstu áfangaskýrslu starfshópsins að borgin eigi hér myndarlegt frum­kvæði í vistvænni samgöngustefnu og taki ákvörðun um kaup 36 bifreiða, sem knúnar yrðu vistvænni orku á næstu þremur árum – eða á árunum 1999, 2000 og 2001, eða 12 slíkar bifreiðar á ári. Má áætla að á þremur árum næði þessi breyting til um 20–30% af bifreiða­flota borgarinnar en þá er ekki tekið tillit til bifreiða í almenningssamgöngum og sjúkra- eða slökkviliðsbifreiða. Telja má líklegt að aðrir aðilar muni fylgja hér á eftir, svo sem ríkisvald­ið og önnur sveitarfélög, t.d. á höfuðborgarsvæðinu.“
    Svo sem fram kemur í greinargerðinni er ávinningur af slíkri stefnu margþættur. Fyrst skal nefna umhverfisþáttinn en á lengri tíma gæti minnkun koltvíildis í andrúmsloftinu orðið um 10%. Annar mikilvægur þáttur er mun minni hljóðmengun en nýja tæknin veldur litlum sem engum hávaða. Orkan fyrir umrædd ökutæki verður framleidd innan lands og næst þannig verulegur gjaldeyrissparnaður fyrir þjóðina. Líkt og erlendis má hér á landi rekja ýmsa sjúk­dóma til mengunar frá bifreiðum. Með minni mengun ætti því að sparast töluvert í útgjöldum til heilbrigðismála.
    Í þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir því að hjá stofnunum í eigu ríkisins verði mót­uð sú stefna að eftir fimm ár skuli a.m.k. þriðjungur bifreiða þeirra knúinn vistvænum orku­gjöfum. Þar með framfylgir ríkisvaldið yfirlýstri stefnu sinni um að auka nýtingu innlendra, vistvænna orkugjafa og sýnir þannig fordæmi sem gæti ýtt undir að almenningur og einka­fyrirtæki gerðu slíkt hið sama. Huganlega mætti ná góðri hagkvæmni með því að efna til almenns útboðs fyrir allar stofnanir ríkisins meðal framleiðenda vistvænna faratækja.