Ferill 302. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 362  —  302. mál.
Tillaga til þingsályktunarum réttarstöðu ríkisstarfsmanna samkvæmt starfsmannastefnu ríkisstjórnarinnar.

Flm.: Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Bryndís Hlöðversdóttir.    Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að leggja hið fyrsta fram frumvarp til laga sem jafna réttarstöðu þeirra starfsmanna sem falla undir lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, svo að náð verði þeim markmiðum ríkisstjórnarinnar sem sett voru fram með starfsmannastefnu sem ákveðin var 1995 og stefnt var að með setningu laga nr. 70/1996.

Greinargerð.


    Þegar lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, voru í undirbúningi var það yfirlýstur megintilgangur þeirra að jafna réttarstöðu ríkisstarfsmanna og starfsmanna á almennum vinnumarkaði, meðal annars í ljósi þeirrar þróunar sem átt hafði sér stað á vinnumarkaði frá árinu 1954 þegar eldri lög voru sett.
    Nú, tveimur árum síðar, bólar ekkert á þeim lagabreytingum sem lofað var í kjölfar setn­ingar laganna til að jafna stöðuna. Nægir hér að nefna veikindarétt, rétt til fæðingarorlofs og lífeyrisréttindi.
    Í greinargerð með frumvarpinu sem lagt var fram á Alþingi 1996 sagði m.a. að ríkisstarfs­menn hefðu nú flestir fengið samnings- og verkfallsrétt auk þess sem margir þeirra væru ráðnir samkvæmt ráðningarsamningum með gagnkvæmum fresti til uppsagnar. Þrátt fyrir þetta væri enn á því byggt að lögin tækju einvörðungu til þeirra sem væru félagsmenn í fé­lögum innan vébanda BSRB og BHMR. Sá skilningur samrýmdist tæplega ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnrétti né heldur ákvæði 74. gr. hennar um félagafrelsi, sbr. stjórnar­skipunarlög, nr. 97/1995. Frumvarpinu væri ætlað að ráða bót á þessu misrétti auk þess sem stefnt væri að því að réttindi hvers starfsmanns samsvaraði þeim skyldum sem honum væru lagðar á herðar á sama hátt og gert hefði verið á sínum tíma þegar lög nr. 38/1954 hefðu verið sett. Samkvæmt því væri í frumvarpinu gert ráð fyrir að mismunandi reglur giltu um starfsmenn ríkisins eftir þvi hver réttarstaða þeirra væri. Þannig væri lagt til að starfsöryggi þeirra starfsmanna er nytu hvorki samnings- né verkfallsréttar yrði tryggt nokkru betur en venja væri en aðrir starfsmenn ríksins er nytu almennt samnings- og verkfallsréttar byggju við svipað öryggi í starfi og launþegar á almenna vinnumarkaðinum.
    Þegar lögin voru sett árið 1996 þurfti að taka afstöðu til þess hvernig ætti að samræma rétt þeirra starfsmanna sem ekki hefðu notið réttar skv. lögum nr. 38/1954 og hinna sem þess réttar hefðu notið.
    Í 12. gr. laganna segir að starfsmenn skuli eiga rétt til launa í veikindaforföllum og fæð­ingarorlofi eftir því sem mælt sé fyrir í lögum og eftir atvikum ákveðið eða um samið á sama hátt og laun (þ.e. í kjarasamningum, Kjaradómi eða kjaranefnd).
    Sú ákvörun var tekin að hrófla ekki á því stigi við réttarstöðu opinberra starfsmanna sem nutu réttar samkvæmt lögum nr. 38/1954. Í bráðabirgðaákvæði var mælt svo fyrir að þeir starfsmenn ríkisins sem skipaðir hefðu verið eða ráðnir í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna héldu áunnum stjórnarskrárvörðum réttindum sínum og tekið af skarið um það að réttur til launa í veikindaforföllum og fæðingarorlofi yrði sá sami og verið hafði hjá þeim starfsmönnum sem skipaðir hefðu verið eða ráðnir í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku lag­anna. Sama skyldi eiga við um þá sem ráðnir yrðu í sömu eða sambærileg störf á þessu tíma­bili á grundvelli þessara laga.
    Með lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, var gerð sú breyting á réttarstöðu starfsmanna í almennum stéttarfélögum í störfum hjá ríkinu að þeir voru gerðir að ríkisstarfsmönnum, þ.e. lögin ná til þeirra sem og opinberra starfsmanna. Þessu fylgdu viðbótarskyldur fyrir þessa starfsmenn, svo sem varðandi trúnaðarskyldu, skyldu til að vinna yfirvinnu og skyldu til að biðja um leyfi til að gegna launuðu starfi í þjónustu annars aðila samhliða starfi hjá ríkinu. Í tengslum við þessa lagabreytingu var rætt um þann megintilgang laganna að bæta réttarstöðu starfsmanna sem væru ekki félagsmenn í samtökum opinberra starfsmanna. Þessir starfsmenn mundu jafnframt öðlast þau réttindi sem lögin fela í sér og ríkið sem atvinnurekandi mundi virða ákvæði stjórnsýslulaga um að gæta jafnræðis gagnvart starfsmönnum sínum. Lög yrðu sett um veikindarétt og fæðingarorlofsrétt eða samið við aðila þannig að jafnræði næðist.
    Fjöldi félagsmanna starfsmannafélagsins Sóknar varð við þessa breytingu að ríkisstarfs­mönnum. Í þeim kjarasamningaviðræðum sem Sókn hefur átt við samninganefnd ríkisins eftir að lögin tóku gildi árið 1997 hefur Sókn lagt ríka áherslu á bættan rétt félagsmanna sinna hvað þetta varðar og gert þær kröfur að viðurkenndur sé réttur þeirra til sama fæðingarorlofs og aðrir ríkisstarfsmenn fá. Því hefur alfarið verið hafnað af hálfu ríkisins. Félagið hefur líka bent á að ríkinu sé óheimilt að mismuna fólki í starfi hjá sér með vísan til mismunandi kjarasamninga. Samningamenn ríkisins hafa svarað því til að Sókn verði þá að fara með þau mál eftir venjulegum réttarfarsleiðum.
    Með bréfi til umboðsmanns Alþingis 25. júlí 1997 var kvartað yfir misrétti sem kona í Sókn varð fyrir vegna greiðslna í fæðingarorlofi á Landspítalanum í Kópavogi, þar sem hún fékk greitt fæðingarorlof á grundvelli almannatryggingalaga en aðrar konur í nákvæmlega sömu störfum á sama vinnustað fá greitt samkvæmt reglugerð nr. 410/1989, um barnsburðar­leyfi opinberra starfsmanna. Félagið hélt því fram að þessi mismunun væri skýrt brot á 11. gr. stjórnsýslulaga. Félagið vildi fá úr því skorið hvort það stæðist samkvæmt stjórnsýslu­rétti að ríkið sem atvinnurekandi gæti mismunað tveimur jafnsettum einstaklingum með því að greiða öðrum laun í fæðingarorlofi á grundvelli reglugerðar nr. 410/1989 en vísa hinum á bætur Tryggingastofnunar ríkisins á grundvelli laga nr. 117/1993. Umboðsmaður taldi ekki tilefni fyrir sig til afskipta af málinu þar sem ákvæði laga nr. 70/1996 hefðu eftirlátið stéttar­félögum og samtökum starfsmanna að semja um rétt þeirra til greiðslna í fæðingarorlofi og lögunum hefði ekki verið ætlað að breyta réttarstöðu starfsmanna í störfum hjá ríkinu að þessu leyti. Hann tjáði sig að öðru leyti ekkert um ákvæði stjórnsýslulaga eða brot á jafn­ræðisreglum.
    Með þessari niðurstöðu virðist svo sem stéttarfélögum séu allar bjargir bannaðar. Þegar leita á leiðréttingar á grundvelli stjórnsýslulaga vísar umboðsmaður til þess að aðilar vinnu­markaðarins eigi að semja um þessa þætti. Þegar reynt er að semja um bætta stöðu í kjara­samningum er vísað til réttarúrræða. Það er að verða öllum ljóst að með lagabreytingunni frá 1996 hafa þessir starfsmenn einungis tekið á sig viðbótarskyldur en ekki fengið nein við­bótarréttindi.
    Lífeyrisrétturinn er hluti þessa máls. Þar sem félagsfólk í almennu stéttarfélögunum er í lífeyrissjóði viðkomandi félags er lífeyrissjóður opinberra starfsmanna ekki þess sjóður. Hins vegar er ljóslega brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að vinnuveitandi, ekki síst ríkið, mismuni starfsmönnum. Mótframlag í lífeyrissjóð er 5,5 % hærra hjá starfsmanni innan stéttarfélags opinberra starfsmanna en á almenna vinnumarkaðinum. Þannig geta tveir starfsmenn á sama stað unnið með fatlað fólk, unnið nákvæmlega sömu störfin en verið hvor í sínu stéttarfélaginu og kjör þeirra þess vegna verið gerólík hvað réttindi varðar.
    Þetta á einnig við um tryggingar starfsfólks og veikindaréttindi.
    Jafnræði eins og stefnt var að með setningu laga nr. 70/1996 og lýst var fjálglega í greinargerð með frumvarpinu með tilvísun til stjórnarskrár er enn víðs fjarri.